Tölva á þýsku – og skóli byrjar

Á fimmtudegi fór sá skapmikli í leikskólann á meðan heimilið var þrifið.  Systurnar lærðu í íslenska námsefninu sínu og búlgarska vinkonan kom í heimsókn með son sinn.  Við gengum öll saman upp að bóndabæ og skoðuðum kýr og kálfa.

Á föstudegi tók bóndinn tölvuna frúarinnar með í viðgerð, þar var honum sagt að það eina sem væri hægt að gera væri að kaupa nýtt stýrikerfi, setja það upp og gögnin ættu þá öll að vera á aðgengilegum stað.  Hann keypti stýrikerfi eftir að hafa gert sölumanni vel grein fyrir því að við værum ekki þýsk og svoleiðis.  Fjölskyldan ætlaði að skella sér í sund fyrir kvöldmat, en sundlaugin var lokuð vegna sumarleyfa í einn mánuð.

Þegar heim var komið var tölvan ræst og sett upp á nýtt – bara til að komast að því að stýrikerfið er á þýsku og ekki hægt að breyta því!  Office pakkinn dottinn út – en öll gögn örugg. O-jæja.

Á laugardegi var ákveðið að skreppa yfir í Svartaskóg, við höfðum fengið boðsbréf frá verslun í Schiltach í litla Októberfest hjá þeim þennan dag, af þeim sökum klæddu hjónin sig upp í tracht – við ákváðum samt að byrja á því að fara til Triberg og skoða gauksklukkur.  Nauðsynlegt að koma heim til Íslands með svoleiðis grip.  Við ókum eftir hinum þýska klukkuvegi í Svartaskógi, alls staðar voru klukkubúðir og úrverksframleiðslur.  Í Triberg fundum við forláta klukku hjá honum Oliver, þegar hún var fundin röltum við aðeins um þenna fallega bæ og inn í litla verlsun sem selur Lederhosen og Dirndl – í sem skemmstu máli gengum við þaðan út með krakkana uppáklædda!

Við keyrðum svo norður eftir Svartaskógi til Schiltach, sem er uppáhaldsbær bóndans á þessum slóðum, fórum á Októberfest, þar sem fataverslunin var með tískusýningu.  Aldeilis ljómandi skemmtilega þar sem módelin dönsuðu við folksmusik á pallinum!  Krakkarnir léku sér aðeins á leikvellinum og frúin splæsti í leðurjakka fyrir sig.

Á sunnudegi byrjuðum við á því að heimsækja vinnufélaga bóndans, fjölskyldan þar hafði stækkað um tvo kettlinga í sumarfríinu og fóru allir þaðan alveg sjúkir í að eignast kettling!  Seinnipartinn skruppum við til fyrrverandi nágrannans og eyddum afganginum af deginum þar.  Þegar við ætluðum að fara heim vildi bíllinn ekki fara í gang – var alveg dauður!  Við hringdum í ADAC, sem er eins konar FÍB og þau ætluðu að koma til að draga okkur – bóndinn vildi samt kíkja aftur á ljósin í mælaborðinu og viti menn – bíllinn fór í gang.  Þjónustan var afþökkuð og við brunuðum heim.

Á mánudegi hófst skólinn loksins aftur hjá stelpunum, sú snögga hefur talað um það hvað 6 vikur séu afskaplega langur tími!  Þær voru ofsalega ánægðar, eru aftur með sömu kennara að mestu leiti og litlar breytingar á bekkjunum.  Yngri börnin tvö byrjuðu í íþróttunum sínum seinnipartinn og frúin fór með dæturnar í frjálsar, nema þar var enginn – svo við reynum það aftur að viku liðinni.

Bílnum var ekið í umboðið og skilinn eftir þar, vonandi kemur í ljós hvað er að plaga rafkerfið í honum.

Þá er bara vika í næstu heimsókn – mikil spenna hér á bæ yfir því – og auðvitað afmæli á næsta leyti.