Á mánudaginn var skóli og íþróttir – systurnar fóru í frjálsar seinnipartinn og líkaði ljómandi vel.
Á þriðjudegi fékk frúin leigðan bíl hjá umboðinu og sótti tengdamömmu sína til Frankfurt á meðan bóndinn hætti snemma í vinnu til að sækja börn og sinna þeim. Miklir gleðifundir urðu þegar amman kom heim og margt að spjalla og sýna henni.
Á miðvikudegi heyrðist ekkert af bílnum okkar, eftir hádegið gengum við niður í bæ, frúin tók þátt í samsöng í litlum bæ sunnan við Tübingen á meðan bóndi og börn sýndu ömmunni örlítið af borginni. Endað var á að borða kvöldmat á Wurstküche.
Á fimmtudegi var bíllinn loksins tilbúinn svo eftir heimanám var hann sóttur – sú snögga er byrjuð að læra skrifstafi og reiknar eins og herforingi, sú sveimhuga reiknar tvær plústölur og eina mínustölu (allar þriggjastafa) í huganum, svona tæplega 200 dæmi!
Hersingin fór öll saman að sækja bílinn og þaðan til Hechingen í berfótagöngu og til að sjá Hohenzollern í fjarlægð.
Á föstudegi fórum við í góðan göngutúr upp að skógi, yfir engið og inn í skóg, þar var slegið upp nokkurs konar Tee-pee þar sem sú sveimhuga var arkitekt og byggingameistari, sú snögga flutningsmeistari og sá skapmikli var sjóræningjameistari! Að lokum var kíkt á kýrnar og nýr mais keyptur í forrétt.
Á laugardegi var sú snögga boðin í afmæli, hjónin nýttu pössunina og fóru til Reutlingen að skoða húsgögn – urðu alveg veik og keyptu eitt rúm. Eftir að heim kom lagðist frúin í rúmið til að vera veik í klukkutíma á meðan spilað var í stofunni.
Á sunnudegi fórum við í Wilhelma og stefndum gömlu þýsku vinunum þangað líka. Við sáum meðal annars lítið kengúruskott stingast upp úr poka, letidýr með unga, otur og tígrisdýr – og auðvitað litlu sætu górilluungana eins og alltaf! Frábær dagur sem endaði á Bella Roma.