Póstur dagsins hljóðaði: „Tollayfirvöld geta ekki samþykkt innihaldslýsingu þína þar sem hún er handskrifuð og ekki á ensku“. Þess ber að geta að listinn var á íslensku/ensku.
Svo ekki koma kassarnir til okkar í þessari viku.
Sú snögga vakti okkur hjónin um sjö, dró frúna framúr og inn í eldhús og spurði hvernig þetta væri eiginlega, hvenær væri morgunmatur á þessu heimili?! Hún hlakkaði mjög mikið til að fara í leikskólann. Sú sveimhuga verður í fríi á morgun, en sú snögga tekur það ekki í mál að húka heima allan daginn. Það verður sko farið í leikskólann!
Sá skapmikli hamaðist í garðinum sem fyrr, sparkaði bolta og keyrði sjúkrabíl á veröndinni.
Að skóla og leikskóla loknum var farið í gönguferð í nálægan grasagarð, þar var hamagangur í öskjunni við froskatjörn og lætin svo mikil að sá skapmikli hélt fyrir eyrun. Tré og blóm blöstu alls staðar við og í kaupbæti var hægt að skoða fiskabúr í hitabeltishúsinu.
Sólin skein, nesti var snætt, útiverunnar notið og að lokum fengu allir ís í kjörbúðinni.