Tíminn líður hratt

án þess þó að nokkuð stórmerkilegt gerist.  Í gær bar það helst til tíðinda að hjónin fóru í bankann til að ganga frá sparnaðarreikningi og frúarkorti, gekk það vel.  Þjónustufulltrúinn okkar er frá Grikklandi, þar er fornafnahefð, hún hélt fyrst að sitt eftirnafn væri flóknara en okkar en skipti svo um skoðun – ekki við.  Hún heitir Cikirikcioglu – prófið að segja það hratt!

Eftir vinnu var búðarferð ein mikil, því von var á Íslendingum í kvölgrill.  Sigga kom um hálf sjö en Atli hafði boðað seinkun, mikið spjallað og borðað fram eftir kvöldi.  Atli mætti um tíu og við sátum að borðum þar til langt gengið í miðnætti.  Alveg indælis kvöld.

Í dag fóru hjónin í viðtal hjá skólastýru Grundschule an der Wanne og fengu þær systur skólavist frá og með hausti!  Mikill munur sem það verður enda gönguleiðin milli 5 og 10 mínútur fyrir stutta fætur.  Eftir hádegið voru fimleikar hjá systrunum, bóndinn sóttur í heimleiðinni og stuttur göngutúr upp að bóndabæ þegar heim var komið.  Við sáum heslihnetu tré og tré með ávöxtum sem við verðum að bíða og sjá hvað eru – tvö ólík tré.

Rólegheita kvöld og lagst verður til svefns í hrein rúmföt, jafn unaðslegt og það nú alltaf er.