Það er eitthvað að í litla landinu okkar.
Gjaldmiðlar heimsins falla hratt en elsku krónan okkar bara fellur enn hraðar. Eins og staðan er í dag þarf að borga 106 íslenskar krónur fyrir einn bandarískan dollara. Samt er dollarinn í raun miklu minna virði en hann var fyrir stuttu síðan. Ef krónan væri að falla á sama hraða og dollarinn myndu þau haldast í hendur, ef krónan væri stekari þyrftum við að borga færri krónur fyrir dollarann. Þannig er ég a.m.k. að skilja þetta, ef þetta er rangt eða alltof mikil einföldun má einhver leiðrétta mig.
Það er 14,5% verðbólga á Íslandi á ársgrundvelli. Við fáum sennilega að heyra í fréttum í dag hver hún er á mánaðargrundvelli, það hlýtur að vera skuggaleg tala. Það er langmesta verðbólgan á Íslandi, a.m.k. innan OECD landanna. Til samanburðar eru verðbólga innan Evru-landanna 3,6%. Þegar við Óli vorum að taka íbúðarlán fyrir rúmum þremur árum þá reiknuðum við með 3% verðbólgu til sjá hvernig afborganir myndu þróast. Ég hef ekki lagt í að skoða reikninginn fyrir þennan mánuð til að sjá stöðu lánsins.
Stjórnvöld geta ekki endalaust kennt „umheiminum“ um ástandið. Umheimurinn er ekki að hjálpa til en það er eitthvað miklu meira að. Svo bara brosir forsætisráðherrann útí annað og kaupir banka.
Að lokum vil ég segja að Sjálfstæðisflokkurinn er ömurlegt batterí! Og í næsta góðæri skulum við öll muna hvernig ástandið var hérna í kringum 2008…