Villa langamma hefði orðið 110 ára í dag. Hún var fædd 15. október 1898.
Villa langamma var komin á elliheimili þegar ég fór að muna eftir mér. Íbúðin hennar var ósköp lítil, forstofa, eldhús, stofa og svefnaðstaða, allt í sama rýminu. Svo var baðherbergi og lítil geymsla.
Minningar mínar um langömmu tengjast sterkt nokkrum hlutum. Langamma átti held ég bara eitt leikfang fyrir börn að leika sér að, þetta var púsluspil sem ég púslaði oft þegar ég kom í heimsókn. Ég eignaðist svo þetta púsl. Langamma var nefnilega fús til að gefa hlutina sína, þó hún ætti ekki mikið. Hún gaf mér líka lítið skartgripaskrín, lítinn mokkabolla og fermingarmyndina af pabba. Hugsun langömmu hefur líklegast verið sú að það væri betra að gefa hlutina frá sér meðan hún væri enn á lífi.
Annar hlutur sem ég man sterkt eftir er spiladós. Hún var með fugli framaná. Og þegar maður opnaði hana gat maður fylgst með spilverkinu meðan dósin spilaði lag.
Enn annar hlutur sem ég man eftir var taska sem amma hafði heklað úr plastpokum. Mér fannst mikið til þessarar tösku koma. Langamma bjó líka til minnis-og teikniblokkir úr notuðum gluggaumslögum. Þetta voru góðar bækur til að teikna í og sumar blaðsíðurnar voru með plastinu (gluggunum) af umslögunum og það var ekkert verra að teikna á það. Ég man líka eftir lítilli dúkku sem langamma bjó til. Brúðan var gerð úr smá svamprúllu, plástur var límdur á annan endann og teiknað á hann andlit og svo var saumaður kjóll úr smá efnisbút. Villa langamma var semsagt mikið í því að endurvinna og greinilega mjög skapandi.
En það sem minnir nig mest á Villu langömmu er kandís. Hún átti alltaf til kandís. Þegar maður kom í heimsókn þá fór langamma og náði í kandíspakkann inní skáp. Hún bauð líka oft uppá suðusúkkulaði en ég var meira í kandísnum. Ég ætla að fá mér kandís í tilefni dagsins.