Styrkjum björgunarsveitirnar – ekkert endilega með flugeldakaupum

Ég er einlægur aðdáandi flugelda, a.m.k. þegar þeim er skotið upp á viðeigandi tímum eins og gamlárskvöldi, þrettándanum og á skipulögðum flugeldasýningum eins og á menningarnótt. Ég horfi dolfallin á þessi prik skjótast uppí loftið og springa út með marglitum ljósum. En sjálf geri ég lítið af því að kaupa flugelda. Hef yfirleitt látið mér nægja að kaupa nokkur stjörnuljós svona uppá stemmninguna.

Nú er mikið talað um að við eigum að kaupa flugelda til að styrkja björgunarsveitirnar okkar. En það eru til betri leiðir til að styrkja björgunarsveitir heldur en að kaupa 20.000 króna risatertu sem veitir einnar mínútu ánægju eða hvað það nú er sem fólk er að kaupa. Það er hægt að fara á vef Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, velja þar þá upphæð sem þú vilt styrkja Slysavarnarfélagið um og jafnvel velja þá björgunarsveit eða slysavarnadeild sem þú vilt helst styrkja. Þú getur svo valið hvort þú vilt taka þetta út af korti eða fá sendan greiðsluseðil. Þú færð ekkert í hendurnar fyrir peninginn en björgunarsveitin fær peninginn óskiptan.

Njótið áramótanna og vonandi kaupa nú einhverjir flugelda – sem ég get svo horft á alveg frítt 😉

Styrkjum björgunarsveitinar!