Þessa dagana fyllist ég gríðarlegri spennu um kl. 9.15 á morgnanna. Hvað gerist þá? Jú, markaðirnir opna og…gengið fellur. Ég er með Landsbankavefinn opinn allan daginn og rílóda reglulega og gengi gjaldmiðlanna skoppar upp og niður, stundum um margar krónur í einu rílódi! Mánudagarnir eru sérstaklega spennandi.
Svo fer maður ósjálfrátt að veðja við sjálfan sig… Skyldi danska fara í 20 kallinn í dag? Skyldi Evran fara yfir 150 kallinn fyrir lok vikunnar?
Svo veltir maður aðeins fyrir sér afleiðingunum og veltir því fyrir sér hvort maður ætti að hamast við að versla og versla núna fyrir mánaðarmótin af því að búast má við gríðarlegum verðhækkunum eftir mánaðarmót. Eða ætti maður heldur að vera bjartsýnn og reikna með að gengið sígi niðrá við eftir mánaðarmótin.
Svo getur maður líka velt því fyrir sér hvað maður ætti að taka með sér í nesti til Edinborgar. Því það er ekkert vit í að kaupa sér mat á þessu gengi.