Ég verð bara að viðurkenna það að það sýður á mér yfir því að það eigi að stytta fæðingarorlofið! Þetta er svo mikil svívirða og heimska að það er ekki nokkru lagi líkt. Eins og er lítur út fyrir að niðurstaðan verði sú að fæðingarorlofið verði stytt um einn mánuð og eftir því sem ég skil þetta er það að af sameiginlegum rétti foreldranna þ.e. móðir fær enn þrjá mánuði merkta sér, faðir fær þrjá mánuði merkta sér og svo eru þá tveir mánuðir sem foreldrar mega deila eftir hentugleikum. Nú er það svo að í flestum tilfellum tekur móðir þessa sameiginlegu mánuði sem hafa hingað til verið þrír og fyrir því er m.a. ein mikilvæg ástæða – það er ráðlagt að hafa börn að mestu á brjósti til 6 mánaða aldurs!
En ef ég skil rétt hefur fólk þann möguleika að taka þennan mánuð sem á að skera burt launalaust og þá skerðist orlofið um 17% í heild. Á Vísi er talað við Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur Samfylkingarkonu og tekið dæmi um konu með 250 þúsund á mánuði frá Fæðingarorlofssjóði og Sigríður leyfir sér að segja: „Málið er það ef þessi kona er tekjulág þá tekur hún ákvörðun og velur sex mánuði. Hennar fæðingarorlof skerðist tiltillögu lítið því hún er það tekjulág því verið að verja þann hóp. Sé hún aftur á móti í þeim aðstæðum að hún geti fundið aðrar leiðir út úr þessu og velja að fresta einum mánuði þá velur hún það“. Eins og það muni engu hvort hún fær 250 þúsund á mánuði eða 207 þúsund?! Það nefnilega munar fyrir okkur sem erum með lág laun! Ég er t.d. að fá um 190 þúsund út úr Fæðingarorlofssjóði á mánuði núna en í nýja kerfinu myndi ég fá um 158 þúsund, mig munar alveg um 32 þúsund á mánuði sko. Heimska, heimska drasl!
Og hvað er það að segja að fólk fái þennan aukamánuð þegar barnið er orðið þriggja ára! Þegar það hefur kannski ekkert við það að gera, ætli fólk þurfi ekki samt að borga fyrir leikskólaplássið á meðan það tekur sér „fæðingar“orlof með stálpuðu barninu? Og er þetta orlof á launum eða er einungis verið að lengja svokallað foreldraorlof sem er nú þegar til staðar og hefur verið 13 vikur og má taka launalaust einhverntíma áður en barnið verður 8 ára??
Þetta mun líka væntanlega þýða aukinn kostnað fyrir sveitarfélögin. Þetta þýðir væntanlega að börnin þurfa að fara fyrr til dagforeldra. Sveitarfélögin niðurgreiða daggæslu. Fyrir fulla vistun í Reykjavík er kostnaðurinn t.d. 41.625 kr. á mánuði fyrir Reykjavíkurborg á hvert barn í heilsdagsgæslu. Kostnaðurinn fyrir foreldranna er svo annað eins og oftast meira. Þessi kostnaður sem sparast hjá ríkinu verður semsagt bara sóttur í vasa foreldranna og sveitarfélaganna. Finnst fólki þetta bara í lagi?
Og það er algjörlega út í hött að ætla að skella þessu á með mánaðarfyrirvara. Sumir vita að það tekur um 9 mánuði að gera barn tilbúið til að fæðast í þennan heim. Sumir vita líka að það er ekkert hægt að hætta við þegar ferlið er komið ákveðið langt. Á sama tíma ætla þeir að afnema sjómannaafslátt á fjórum árum. Sjómenn hóta því að sigla í land en foreldrar eiga erfitt með að hætta að sinna börnum sinnum, enda væri ríkisstjórninni sjálfsagt alveg sama!
Mér finnst sárt og ömurlegt að búa í landi þar sem niðurskurðarhnífurinn lendir í ungabörnum.
Mamma, þú hafðir rétt fyrir þér 🙁
Rétt að taka fram að þessi niðurskurður bitnar ekki á mér persónulega.