Ég heyri svo oft að það sé bara rugl að gifta sig því sömu reglur gildi um sambúðarfólk og hjón. Þá sé erfiðara að svíkja undan skatti, þykjast vera einstæður og bara einfladlega svíkja kerfið. Ég verð bara að viðurkenna að mér þykir þetta vera svo mikil þvæla og rugl að það hálfa væri nóg. Mig langar ekki að svíkja kerfið og vorkenni fólki sem fer þá leið. Auðvitað eru sumir sem segjast ekki hafa aðra kosti en það eru alltaf tveir kostir.
Sú fullyrðing að það gildi sömu reglur um hjón og sambúðarfólk er röng. T.d þegar mamma mín dó þá skrifuðum við systkinin undir plagg sem að leyfir pabba að búa í óskiptu búi. Hann sem sagt borgaði okkur ekki út móðurarfinn. Með þessu móti fær hann að halda heimilinu eins og það var alltaf meðan mamma var á lífi, hann á góðar minningar og eflaust hefði það verið erfiðara fyrir hann og alla ef hann hefði þurft að skipta helmingnum af eignum þeirra á milli okkar. Ef þau hefðu ekki verið gift hefði hann neiðst til að skipta upp eignunum. Sumir auðvitað kjósa að borga út móður/föðurarf en það er mjög gott að hafa allavegana val um það ekki satt?
Mig langar að setja inn smá staðreyndir sem ég fann á síðunni brudurinn.is
Réttur hjónabandsins
Vissir þú að:
Ekki eru til nein lög um fólk í óvígðri sambúð.
Um hjón gilda ákveðin lög.
Sambýlisfólk hefur ekki sömu réttindi og skyldur og hjón.
Hjón hafa ákveðnar skyldur og réttindi.
Fólk öðlast ekki nein lögformleg réttindi þrátt fyrir að hafa verið í áratugi í sambúð.
Fólk öðlast ákveðin lögformleg réttindi þegar það gengur í hjónaband.
Engin helmingaskiptaregla gildir ef fólk í sambúð ákveður að slíta samvistum.
Helmingaskiptaregla gildir alltaf um hjón, nema annað sé tekið fram í hjúskaparsáttmála.
Enginn erfðaréttur gildir milli sambýlisfólks.
Erfðaréttur gildir milli hjóna.
Fólk sem hefur verið í sambúð hefur engan rétt til að sitja í óskiptu búi ef annar aðilinn fellur frá.
Fólk í hjónabandi hefur fullan rétt til að sitja í óskiptu búi ef annar aðilinn fellur frá.
Sambýlisfólk hefur ekki gagnkvæma framfærsluskyldu.
Hjón hafa gagnkvæma framfærsluskyldu við hvort annað, t.d. við veikindi.
Ef hjón skilja að borði og sæng á tekjuminni aðilinn kröfu á hendur þeim tekjuhærri um að fá makalífeyri.
Ef sambýlisfólk slítur samvistum á hvorugur aðilinn kröfu á hendur hinum um að fá makalífeyri.
Ef fólk á börn utan hjónabands geta þau krafist þess að búi verði skipt upp ef viðkomandi fellur frá, nema sá hinn sami hafi gert erfðaskrá sem kveður á um annað.
Tryggingastofnun ríkisins leggur sambúð og giftingu að jöfnu í almannatryggingum eftir tveggja ára, skráða sambúð.
Ég get allavegana sagt ykkur að ég hlakka til að gifta mig eftir rúma 4 mánuði. Það mun reyndar taka mig smá tíma að venja mig á að kynna Hrafnkel sem eiginmann minn en ekki sem kærasta minn, er ekki ennþá búin að læra að kalla hann unnusta minn og það eru að verða 2 ár síðan;)