Verkefnafjöld og óréttlæti

Ég sé það æ betur hvað ég þarf að leggja mig þeim mun meira fram á öllum sviðum til að ná tilteknum árangri. Viðjar vanans geta oft reynst mönnum fjötur um fót og viljanum yfirsterkari (sé hann á annað borð til, um það skal ég ekki fullyrða). Það er kannski rétt að tilraunir séu dæmdar til að mistakast, þar sem þær eru í eðli sínu aðeins tilraunir. Þá er kominn tími til aðgerða, sérstaklega þegar vinnan hrannast upp í kringum mann án þess maður hreyfi nokkuð við staflanum. Bara finna rétta hvatann. Ég hef áður gengið þessa blindgötu, svo ég ætti að vera farinn að þekkja hana.

Ég harma fréttir sem þær þegar mér yngra fólk deyr í bílslysum. Það mætti vera til meira réttlæti í heiminum. En því miður er ekkert við því að gera. Það er eins og barátta við sjálfan tímann.

Einkannir og nesjamennska

Ég hef fullkomið óþol fyrir orðskrípinu „einkannir“. Hinsvegar er ég að hugsa um að taka upp merki Kára Páls Óskarssonar í ræðu og riti og tala um „nesjamennsku“. Ég get leyft mér það vegna þess að orðið er fullkomlega sneytt allri landfræðilegri skírskotun, enda þótt það sé aðeins eitt nes á Íslandi sem orðið gæti átt við.

Þingmennska

Það hlýtur að vera þægilegt að vera alþingismaður og þurfa aldrei að svara gagnrýni, vegna þess að öll gagnrýni er alltaf ótímabær, óskiljanleg og á lítið erindi inn í umræðuna. Ætli þetta sé það fyrsta sem menn læra þegar þeir setjast á þing, að segja aldrei neitt sem mögulega gæti haft merkingu.

Þröngsýni

Ég hef verið að velta fyrir mér orðinu þröngsýni, þ.e.a.s. hvenær er gott að nota það, og komist að því að merking þess er of víð. Manneskja getur verið þröngsýn vegna fordóma sinna en æ oftar finnst mér ég heyra talað um að tiltekinn skóli innan ýmissa fræðigreina hafi of þröng sjónarmið, að fræðimenn vissra fræðilegra sjónarmiða séu þröngsýnir. Þetta hefur vakið mig aðeins til umhugsunar, því á þessu tvennu er munur. Annarsvegar höfum við manneskju sem er þröngsýn vegna fordóma sinna, hinsvegar höfum við heilt sett af manneskjum sem eru þröngsýnar, vegna þess að eftir áralangar rannsóknir, tilraunir og samanburðartilraunir og -rannsóknir, hafa allar niðurstöður þeirra hnigið að einum punkti. Veltið þessu fyrir ykkur eitt andartak.

Svefnleysi

Mér kom ekki dúr á auga í fyrrinótt, svaf örstutt núna í nótt. Skil ekki hvers vegna ég þjáist af þessum svefnörðugleikum. Sér í lagi í gær þegar ég var alls ósofinn, og það eftir ellefu tíma vinnudag, að mér tókst ekki að sofna. Ég lá í rúminu frá klukkan níu í gærkvöldi en sofnaði ekki fyrr en í fyrsta lagi upp úr klukkan þrjú. Vaknaði svo klukkan sjö. Safnið til klukkan fimm. Sem betur fer fæ ég að sofa lengur á morgun – ef ég þá sofna, sem er aldrei að vita.