Ljúfa líf

Sumarið er allt í einu langt komið, maður er auðvitað bara í einu löngu fríi hvort sem það er vetur, vor, sumar eða haust svo þetta er allt saman ágætt! Ég fagna því samt að eftir morgundaginn fer birtutíminn formlega aðeins að styttast því öfugt við alla aðra finnst mér svo gott að hafa myrkur á nóttunni. 21. júní er þess vegna alltaf þröskuldur sem er gott að komast yfir í átt að kósý vetrarkvöldum með kertaljós 😉

Ég er að reyna að halda þessu bloggi lifandi og það kostar það að ég skrifa um fátt annað en barnið því það er fátt annað að gerast. En til að vera væmin þá er ég virkilega að njóta þess að fá að vera alla daga með Guðmundi Hrafnkeli og fylgjast með hvað hann breytist hratt, hvernig hann lærir nýja hluti, hvað honum finnst leiðinlegt og hvað skemmtilegt. Ef ég færi frá honum í nokkra daga væri hann gjörbreyttur þegar ég kæmi aftur, það væri svakalegt ef maður breyttist alltaf svona hratt alla ævina… ef maður sæi ekki einhvern í nokkra mánuði þyrfti maður bara að byrja að kynnast honum upp á nýtt 😉 En Keli kúl er orðinn 4,5 mánaða. Þessa dagana er hann að tryllast úr pirringi vegna væntanlegrar tanntöku og nagar allt sem hann kemst í, hvort sem það er dót, fötin hans eða bara hakan á mér. Hann er líka að þróa breytilegt notkunarsvið raddbanda og gólar stundum svo hátt að það er ekki hægt að tala saman í kringum hann… ekki grátur, meira svona eins og jóðl 😉 Hann vill taka allt sem hann sér, er semsagt byrjaður að tæta. Hann veit fátt skemmtilegra en að hitta fólk, hlær framan í hvern sem er og nýtur þess að fá sem allra mesta athygli. Og já… svo hefur hárið á honum þróast yfir í voðalega sætan brúsk sem er ekki nokkur leið að hemja…

juni5-013.jpg

Og talandi um breytingar…. 2 mánaða:

april1-015.jpg

…. og svo 4 mánaða í sama stól:

juni4-096.jpg

Hér með lýkur monti og myndasýningu!