Memory Lane

Ég er safnari í eðli mínu, það hefur líklega ekki farið framhjá neinum sem kannast eitthvað við mig (enda safna ég líka voðalega kláru fólki í kringum mig). Ég er ennþá að koma sjálfri mér á óvart á þessu sviði, ótrúlegt en satt! Söfnunaráráttan felst kannski ekki endilega í því að eiga þessi týpísku söfn af hlutum þó vissulega leynist svoleiðis inn á milli 😉 Þetta hefur frekar lýst sér í því að geta ekki gert nokkrum hlut það að enda tilveru sína í ruslinu – því það gæti alltaf verið að ég þyrfti að nota hann aftur.

Það er eitt að sanka hlutum að sér þegar maður er krakki og að passa svo upp á allt sem tengist barninu manns. En ég hef verið í áhugaverðu verkefni undanfarið. Ég uppgötvaði tímavél sem flutti mig á frekar vafasaman stað… mína eigin gelgju. Árið 2002 gerðist ég háskólastúdína, flutti til Reykjavíkur og tróð unglingsárunum inn í myndarlegan fataskáp á æskuheimilinu. Hann hefur varla verið opnaður síðan þrátt fyrir vingjarnlegar ábendingar fasteignareigendanna um að þetta pláss gæti vissulega nýst í eitthvað annað.

Ég hef undanfarin ár orðið aðeins óhræddari við ruslaskrímslið og sendi hluti bara í spennandi ævintýri á öskuhaugunum frekar en að láta þá deyja úr leiðindum inni í skáp. En mæ ó mæ. Hvað það er kjánalegt, heillandi, spennandi og skrýtið að hitta gelgju-sjálfið sitt aftur. Það var svolítið erfitt að henda storknuðum naglalökkum í fáránlegum litum, duft-glimmer-augnskuggum, pappaöskjum utan af uppáhaldsilmvatninu, veggfóðri í formi Leonardo DiCaprio, eldheitum ástarbréfum og öðru „sambærilegu“ smáræði. Það var líka skrýtið að lesa um áhyggjur sínar fyrir rúmum 10 árum og sjá hvað þær voru ómerkilegar en virtust samt hafa ætlað að láta heiminn snúast á hvolf í þeim aðstæðum sem þá voru ríkjandi!

Afraksturinn so far eru sjö troðfullir pokar af hlutum sem ætla að skreppa í ruslahaugafrí. Svo er líka til staðar lítill kassi sem inniheldur það sem sannur safnari getur bara ekki látið fara frá sér. Sumir menn og málefni, viðburðir og upplifanir eru einfaldlega þess eðlis að það getur verið gott að eiga ummerki þeirra ofan í kassa… í rituðu máli, myndum eða í formi undarlegra hluta sem í öðru samhengi hafa enga þýðingu. Mikið finnst safnaranum nú gott að eiga einmitt þennan kassa 🙂