María Sigrún

 

Fyrir rúmum 12 árum var ég svo heppin að kynnast þremur af mínum allra bestu vinkonum þegar ég hóf nám í þjóðfræðinni. Nú er ég búin að kveðja eina þeirra, Maríu, í síðasta sinn. Það er ólýsanlega sárt að hugsa til þess að eiga ekki eftir að hitta hana aftur.

 endfebfyrstimars 073

 

Sumar manneskjur eru einfaldlega þannig að maður vill helst alltaf vera í kringum þær. María var einmitt þannig að maður sótti í félagsskap hennar. Hún var heillandi og skemmtileg og ein besta fyrirmynd sem hægt var að eiga. Réttsýni og fordómaleysi var ríkjandi í öllum hennar samskiptum og blandaðist saman við skemmtilegan húmor og mikla frásagnarhæfileika. Svoleiðis kokteill getur ekki klikkað enda eru allar minningar mínar sem tengjast Maríu fyrst og fremst svo skemmtilegar að það er varla hægt annað en að brosa þegar þær eru rifjaðar upp.

 

endfebfyrstimars 079

 

Hún var gædd flottustu danshæfileikum sem sögur fara af og gat með þeim breytt misheppnuðum kvöldum og lélegum partýum í allsherjar gleði og gaman. Hún hafði áhuga á öllu sem manni mögulega datt í hug að segja henni frá og var alltaf til í að koma með þegar eitthvað stóð til. Fyrst og fremst var hún alltaf bara hún sjálf og einmitt þannig var hún svo frábær.

 

april2 038

 

Þegar við hittumst síðast um miðjan ágúst skoðuðum við íbúðir á netinu enda ég í þeirri stöðu að vanta eina slíka. Hún sá allsstaðar lausnir, hvar væri hægt að skella upp vegg eða breyta og bæta þannig að útkoman yrði sem best. Hún heillaðist að sjálfsögðu mest af íbúðinni sem var með fallegasta útsýnið og sagðist ætla að koma í heimsókn til mín þangað.

 

marsapril2006 b

 

Sem betur fer er ekki hægt að þurrka út þau áhrif sem góðar manneskjur hafa á mann og þar af leiðandi er María enn og verður alltaf ein af mínum helstu fyrirmyndum í lífinu.

 

IMG_0587