A golden star day

Ég fékk svolitla útrás fyrir áðurnefnda Skerjagarðsnostalgíu síðustu helgi. Ég brunaði í húsmæðraorlof í alveg hálfan dag, enginn smá lúxus maður 😉 Fyrst horfði ég á Katrínu vinna nokkra fótboltaleiki í Egilshöll og fékk svo systrastund með skrí-inu mínu. Við fórum í búðir eins og dömur eiga að gera en gleymdum reyndar að hugsa um smáatriði eins og opnunartíma svo þetta varð meira að spretthlaupi í tvær búðir áður en massívum rimlahliðum var rúllað yfir okkur. Afraksturinn varð vetrarhúfa svo nú vona ég að veðurfræðingarnir hætti með þetta það-verður-gott-veður-næstu-þrjá-mánuði rugl og komi með eitthvað alvöru dæmi fyrir mig og húfuna mína.

Nú svo var komið að þeirri stóru stund að keyra framhjá Skerjagarði og í fyrsta skipti síðan ég flutti út var greinilegt lífsmark í íbúðinni. Einhverjar dúllidúll gardínur, punt og lampar, ég veit ekki alveg hvernig íbúðin er að fíla það! Til að kóróna skólafílinginn hitti ég svo mínar yndislegu þjóðbrókar-vinkonur yfir ótrúlega fallegri og góðri haustsúpu a la Lilja. Mmmmm… Svona eiga laugardagar að vera!