Úje!

Miðað við allan hasarinn á þessari síðu mætti halda að líf mitt snerist um að sitja á stól og horfa á hvítan vegg. Ástandið er sem betur fer ekki alveg svo slæmt en ég get ekki neitað því að á föstudagskvöldi ákvað ég að skora á sjálfa mig og athuga hvort ég myndi hvernig ætti að blogga. Það gefur kannski nokkuð góða mynd af því hversu dugleg ég er að sprella eitthvað sniðugt á kvöldin. Hið ótrúlega gerðist, ég mundi slóðina, notendanafnið og lykilorðið og þar með er helginni bjargað 😉

Það er alltaf gott að hafa afsökun fyrir þreytu sinni og nú held ég mig við þá staðreynd að fyrir ekki svo löngu gekk ég um í vinkli og gat ekki sinnt hversdagslegustu hlutum vegna þursabits. Ég sé alltaf fyrir mér þursinn úr gömlu Albin bókinni sem var til heima, hann hefur væntanlega bitið mig í svefni. Svona farlama dagar hafa þann kost að þegar manni líður aftur vel er allt svo frábært, frábært að geta klætt sig í sokka og frábært að geta teygt sig svo ég tali nú ekki um að geta lyft Hrafnkelinum hátt í loft. Ofan á vímuna af öllum verkjalyfjunum bættist semsagt almenn gleðivíma yfir frábærleika heimsins.

Nú hef ég sannað að ég kann þetta ennþá og þá er ekki hægt að treysta á að ég geri þetta ekki aftur!