Bátaljós

Í dag fékk ég gíróseðill inn um lúguna sem höfðaði mjög sterkt til mín. Já, gíróseðill sem höfðaði til mín.

Framan á umslaginu er gluggi með nafninu mínu og heimilisfanginu, undir honum stendur Hristið umslagið! og til hliðar er mynd af björungarbát og fyrir ofan stendur Bátaljós. Merki slysavarnafélagsins Landsbjargar er svo við hliðina á því.

Ég hristi umslagið og það hringlar í því. Ég opna umslagið, forvitin að vita hvað sé í því. Það er rauður eldspýtustokur með björgunarbát framan á og á stendur Bátaljós.

Og svo er auðvitað gíróseðill þar sem fram kemur að þetta sé styrktarsöfnun fyrir björgunarbátum um allt land. Það eru 9 björgunarbátar til nú þegar en það vantar 5 í viðbót til að loka hringnum.

Af hverju höfðar þetta svona sterkt til mín? Í fyrsta lagi er eitthvað heillandi við þennan eldspýtustokk. Í öðru lagi er smá lesning um Landsbjörgu á gíróseðlinum og m.a. fjallað um unglingadeildirnar. Það rifjar upp allar þær góðu minningar sem ég á um það þegar ég var í unglingadeild björungarsveitarinnar. Og í þriðja lagi stendur á gíróseðlinum Bátaljós: Tendraðu ljós fyrir sjófarendur sem er eitthvað sem við höfum fjallað mjög mikið um í þjóðfræðinni undanfarið þ.e. þann sið að láta ljós loga í glugga þegar einhver nákominn er á sjó. Og ég gæti talið upp fleiri atriði og allt verður þetta til þess að mig langar virkilega að borga þennan gíróseðil.

Svo ég held að ég slái til og borgi gíróseðilinn. Fyrsti styrktargíróseðillinn sem ég borga, hinir hafa allir lent í ruslinu…