Það fer sem fer

Í dag lauk draumi sem ég hefði viljað að rættist. En þrátt fyrir að öll mín von, allar mínar hugsanir og væntingar síðastliðinna mánaða hafi verið bundnar þessu eina, er mikill léttir að vita þó altént hvernig málin standa.

Ég kenni engrar vanlíðan yfir þessu ennþá, það er best að hugsa sem minnst um hvernig maður hefði viljað að þetta yrði. Kannski best að hugsa sem minnst yfirhöfuð. Gyðjan lætur ekki að sér hæða, þið vitið hvaða gyðja. Ef við aðeins hefðum nokkurt vald yfir henni. Því miður erum við aðeins mannleg.

En ég er ansi hræddur um að ég hafi sungið minn fegursta söng hingaðtil, og sú manneskja sem getur skapað annað eins gegnum mig á allar þakkir skilið. Og fyrir allt annað. Pennann legg ég samt á hilluna um stundarsakir, meðan ég næ áttum, þartil ég hef jafnað mig á siðrofinu og fætur snerta jörðina enn á ný.

Betra að úr þessu leystist á fallegum degi.

Allt og ekkert

Tarja Halonen vann finnsku forsetakosningarnar. Mér skilst hún hafi verið besti kosturinn. Í það minnsta betri en eini vinur Framsóknarflokksins á Norðurlöndunum, Matti Vanhanen.
Ég hef átt nokkuð erfitt með mig síðustu daga, næ ekki að hugsa eina einustu hugsun nema komast að niðurstöðu sem ég svo hafna skömmu síðar. Finnst eins og ekkert sem ég geri eða reyni að gera sé að stefna neitt. Veit ekki nema hálfpartinn hvað amar að mér, segi það ekki hér, eins freistandi og það nú annars er.
Get skilið báðar hliðar í Múhammadsmyndbirtingarmálinu stóra. Og mér er svosum alveg sama hver niðurstaðan verður. Hinsvegar finnst mér, óháð öllu öðru, að menn eigi að vera reiðubúnir að taka afleiðingunum takist þeim að móðga einhvern. Það er ofurmikil einföldun að ætla að fórna höndum og ásaka hinn um tjáningarfasisma ef þú móðgar hann. Menn gleyma því gjarnan að trú er enn grundvöllur ýmissa siðmenninga, hvaða augum sem menn vilja svo líta trúarbrögðin.

Menningarvitinn

Fór á Listasafn Íslands á miðvikudaginn og þaðan rakleiðis á Listasafn Reykjavíkur. Á hinu síðarnefnda sá ég þessa sýningu. Mjög spes, en frekar ógeðfelld. Alls ekki allra að sjá. Er sjálfur ekki viss hvað mér á að finnast um hana.

Á hinu fyrrnefnda sá ég aftur á móti þetta. Sérstaklega þótti mér eitt verkið heillandi, en það var þannig að maður sá sjálfan sig á sýningartjaldi þegar maður gekk inn í salinn, svo fóru af stað upptökur af fólki sem hafði áður skoðað verkið, og spiluðust yfir upptökuna af okkur á tjaldinu. Það var vægast sagt krípí, en töff. Mæli með sýningunni, þó ekki nema væri fyrir þetta eina verk.

Uppfært 29. jan. kl. 15:20:
Andvarp, maður reynir. Það fer pottþétt enginn.

Upplestur hjá SHA

Yðar einlægum brá talsvert í brún, verður að segjast, þegar Davíð Stefánsson hringdi í mig og bað mig að lesa upp ljóð á einhverju herstöðvaandstæðingadjammi, raunar án nokkurs fyrirvara. Vitaskuld þáði ég með þökkum.

Við vorum þrjú sem lásum, Henrik Garcia, Hildur Lilliendahl og ég. Ég missti af Henrik en náði um hálfri Hildi. Ljóðin hennar voru býsna skemmtileg. Hún var líka klöppuð upp. Vonandi að maður upplifi það einhvern tíma. Það var líka svolítið spes að vera kallaður út, fyrirvaralaust, til að lesa. Ég vissi ekki einu sinni hvað ég ætlaði að lesa þegar ég mætti á svæðið en ég held það hafi bara heppnast býsna vel.

Í það minnsta er ég ánægður með kvöldið, vona að þau verði fleiri í framtíðinni. Það er víst ekkert gefið í þeim efnum.

Sturlun

Sturlaði námsmaðurinn vakir alla nóttina við að hugsa um eitthvað allt annað en námið. Mætir svo í skólann ósofinn, ekki til að læra neitt, ekki til að hitta neinn, heldur af óskiljanlegri skyldurækni. Hvað hefur hann svo sem þarfara að gera?

Sturlaða námsmanninum er það eitt til trafala, að þegar hann kemur heim og líkami hans væntir þess að nýjum svefntíma sé haldið til haga, þá þarf hann að hafa sig allan við til að líða ekki út af, vegna þess að sænska auðvaldið spyr þræla sína ekki hvort þeir séu þreyttir, þeir skulu gjöra svo vel að mæta til vinnu, hvar andlitslaus múgur tætir þá í sig eins og þránað kjöt á þorra.

Þegar svo er komið fyrir sturlaða námsmanninum myndi hann sætta sig við næturvaktina í líkhúsinu fremur en raska svefntímanum fyrir kortafyllerí andlitslauss múgs. Líkin hafa í það minnsta ekki yfir neinu að kvarta.
Nei, sturlaður sem námsmaðurinn er, er honum það engu að síður fullljóst að hann myndi hugar síns litla vegna aldrei geta unnið í líkhúsi. Aukinheldur æskir hann þess ekki að reyna. Stundum segir sturlaði námsmaðurinn bara sisvona. Enda er hann sturlaður.

Sonnetta númer 23

As an unperfect actor on the stage
Who with his fear is put besides his part,
Or some fierce thing replete with too much rage
Whose strength’s abundance weakens his own heart,
So I, for fear of trust, forget to say
The perfect ceremony of love’s rite,
And in mine own love’s strength seem to decay,
O’er-charged with burden of mine own love’s might.
O let my books be then the eloquence
And dumb presagers of my speaking breast,
Who plead for love, and look for recompense
More than that tongue that more hath more expressed.
O learn to read what silent love hath writ;
To hear with eyes belongs to love’s fine wit.

-William Shakespeare.

Tilkynning um liðinn atburð

Næsta þriðjudagskvöld, strax eftir Gettu betur, verður haldin bókmenntahátíð í Skálholti. Þar munu nokkur valinkunn skáld lesa úr verkum sínum hlustendum til yndis og unaðsauka og efla um leið menningarvitund vora. Hefst hátíðin kl 20:30. Þau sem fram koma eru:

Andri Snær Magnason

Kristín Þóra Pétursdóttir

Aldís Guðbrandsdóttir

Gerður Kristný Guðjónsdóttir

Arngrímur Vídalín Stefánsson

Kári Páll Óskarsson

Halldór Marteinsson

Hallgrímur Helgason

Þetta gekk vel, eiginlega vonum framar. Dóri og Kári voru góðir að vanda og Andri Snær fór á kostum. Það hríslaðist um mig vanlíðanin undir lestri Gerðar Kristnýar og þær Aldís og Kristín Þóra komu reglulega á óvart. Hallgrím hafði ég heyrt áður og hann var engu síðri nú en þá. Ætli ég verði ekki að minnast aðeins á sjálfan mig í leiðinni, mér gekk sæmilega. Ég sé raunar að tvö ljóðanna féllu ekki alveg í kramið. Þau verða ekki notuð aftur, hvort eð er illa hugsuð. Ég veit raunar ekki alveg hvað mér á að finnast um kvæðin mín lengur, hef fengið þannig gagnrýni á bókina mína að ég er hættur við að reyna að koma henni á framfæri í núverandi mynd. Eða eins og einhver sagði, ég á eftir að taka út vissan þroska, þá kannski kemur þetta. Ætli galgopinn þurfi ekki að kyngja ráðleggingum sér eldri og viturri manna.

Til hvers var sofið?

Ég lagði mig og tæpum tveimur tímum seinna vaknaði ég fullkomlega ósofinn, kaldhæðnislega sem það hljómar. Það er aðeins eitt verra og það er að vakna við hliðina á Gunnari Birgissyni. Raunar, þegar ég hugsa út í það, þá er margt verra en að vakna ósofinn.

Wovon mann night sprechen kann …

Ég skrifaði tvær persónulegar færslur í röð, henti báðum. Stundum er betra að þegja en bera vandamál sín á torg. Mönnum er hvort eð er engin náðarbjörg í að úthella blóði sínu á internetinu. Nema þeir vilji fá svona komment: Luv ur sight, pres_link fur penis enlargment.