Brjálað að gera

Ekki einasta náði monsúnrigningargeðveikin að skola burt æstum lánþegum frá safninu í dag. Ótrúlegt raunar að safnið standi ennþá. En það er eins og sagt er, að máttur bókarinnar hann er … já.

Og nú skín sólin. Hvurslags annarrarvíddarlánþegaskrímsl ætli við fáum þá? Líklega Þjóðverja á stuttbuxum.

Föstudagsmorgunn – hljómar eins og þversögn

Klukkan er kortér yfir ellefu og ég á ekki að mæta til vinnu fyrr en klukkan eitt, á móti kemur að ég vinn til lokunar. Veðrið er gott fyrir þá sem ætla að vera inni, ekki nærri eins hryssingslegt eins og á mánudagskvöldið en talsvert meira rok. Gerði tilraun og lagaði tvo og hálfan bolla í kaffivél sem bíður aðeins upp á heila bolla. Aðeins fyrir fagaðila, ekki gera þetta heima hjá ykkur.

Alveg áreiðanlega, svona þegar maður veltir því fyrir sér, er til a.m.k. einn þrýstihópur fyrir því að kaffivélar framtíðarinnar hafi sérhak milli heilu bollanna til að auðvelda mönnum að laga hálfa. Það eru til þrýstihópar fyrir öllu, eins og sá í Bandaríkjunum sem berst fyrir réttindum sínum til að laðast að börnum. Það eru til vinsælli þrýstihópar.

Nú er orðið ansi langt síðan ég fór nógu snemma á fætur til að geta gert allt sem ég vildi fyrir vinnu, t.d. fá mér morgunverð. Enn hef ég ekki fengið mér morgunverð. Nei, ég fékk mér kaffi, og ég bloggaði um það. Svo þykist ég á engan hátt vera firrtur. Ég nenni ekki að fá mér morgunverð.

Að loknum arðsömum degi á bókabíl

Ég lofaði myndum af slöngu að sleikja á mér hálsinn og mér strjúkandi rottu. Þetta get ég ekki staðið við nema að hluta, sjá hér. Ég hefi bætt mynd við færsluna.

Ótrúleg áhrif annars sem veðrið hefur á mann. Væri veðrið ekki svona grátt og einsleitt væri þetta mitt besta sumar í mörg ár. Einu skiptin sem sólin sýnir sig gerir hún það aðeins til að svíkja okkur, sýna okkur hver raunverulega hefur völdin. Svona eins og ríkisstjórnir.

Í þriðja lagi að sinni, þá er ég að lesa nokkrar bækur, eina af hverjum ég lánaði sjálfum mér úr bókabílnum í dag. Sú er svo hræðilega hryllilega léleg að ég held það varði við lög um persónuvernd að tilgreina höfund hennar. Fyrst hann var nógu vitlaust sjálfur til að setja nafn sitt á kápuna hlýtur það engu að síður að heyra undir lög um persónuvernd, vegna þess að augljóslega er hann sjálfum sér hættulegur, og jafnvel lesendum sínum (þeir gætu dáið úr hlátri). Slíkt fólk ber ekki að úthrópa og ég er ekki Dévaff. Áhugasömum er bent á að senda mér tölvuskeyti, vilji þau komast að því hver bókin er.

Nick Cave

Nick CaveÞá er ég búinn að redda okkur Alla miða á Nick Cave. Þeir sækjast í matarhlénu. Ef Cave verður hálft eins góður og hann fyrir síðast verð ég ánægður. Það voru einfaldlega bestu tónleikar sem ég hef farið á.

Annars mætti ég of seint í vinnuna í dag. Á slíkum dögum er slæmt að fá hausverk, því þá getur maður ekki beðið um verkjalyf án þess allir haldi að maður hafi verið fullur kvöldið áður. Sem ég var ekki, svo það er betra að sýna verknum smá þolinmæði.

Upprisukvöld Nykurs II

NykurÉg er í skýjunum! Þetta var frábært, æðislegt. Húsið var troðfullt, fjölmennt jafnt sem góðmennt, Ingibjörg Haralds var vá!

Eitt finnst mér um eigin flutning, en það er að þótt ljóð séu og eigi að vera fullkomlega opin gagnvart túlkun, þá skildist það líklega þannig að öll ljóðin mín fjölluðu um ástina. Svo var ekki. En auðvitað eru þau opin gagnvart túlkun, sem áður segir.

En já, ég er í skýjunum. Gaaapandi sæla.

Upprisukvöld Nykurs

Hér má lesa fréttatilkynningu um viðburðinn í Tímariti Máls og menningar. Sömuleiðis hér á Tíuþúsund tregawöttum, Ljóð.is og hér á vefriti Torfhildar, félags bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands.

Annað kvöld verður svo spilað viðtal við einn okkar Nykursmanna, Emil Hjörvar Petersen, í Víðsjá. Á það má hlusta á netinu eftir að heim er komið.

Nykur kunngjörir

Þið hafið fullt leyfi (lesist skylda) til að dreifa þessu sem víðast:
Nykur
Árið 1995 var Nykur stofnaður af nokkrum ungum skáldum sem bókmenntavettvangur og sjálfshjálparbókarforlag. Á vegum Nykurs komu fyrstu verk skálda og rithöfunda á borð við Andra Snæ Magnason, Davíð A. Stefánsson, Steinar Braga, Ófeig Sigurðsson og fleiri. Alls komu út 13 bækur á vegum Nykurs til ársins 2003.

Nú, þremur árum síðar, hefur stokkast upp og fjölgað í mannafla Nykurs. Yngri skáld hafa bæst í hópinn og flóran orðin meiri. Í kvöld mun Nykurinn koma aftur upp á yfirborðið, tvíefldur og með ferskan blæ. Frá og með þessum tímapunkti mun Nykur verða nýtt skálda- og bókmenntaafl á Íslandi. Með haustinu munu koma út bækur nokkurra skálda undir merkjum Nykurs.