Lokað í bili

Það er kannski ástæðulaust að loka blogginu, en það er samt ástæða fyrir því eins og öllu öðru.

Ég hef nóg annað að hugsa um eins og er, og það er alltaf nóg að gera þótt ég hafi ekkert um það að segja.

Þannig að ég ætla bara að vera einfaldur bókavörður í bili. Ég hef ekki áhuga á öðru.

Og það er gott að taka réttar ákvarðanir. Í erli daganna er hætt við að maður geri margar skyssur. Stundum má vera feginn yfir að vera ekki algjör hálfviti öllum stundum.

Í millitíðinni, lifið heil.

Öskubuskusyndrómið

Ég endaði á að gera ekkert í gær. Ég reyndar sá ljóðarisann, sem sjá má á síðu Baunar, en eftir það var ég helst til niðurrigndur og kaldur til að halda áfram. Afboðaði komu mína á eigin upplestur í Friðarhúsi – hvar Baun virðist einnig hafa verið – og sleppti ljóðahátíð Nýhils. Eins og ég er nú óheimakær þá kom yfir mig þessi öskubuskutilfinning, ef ég færi ekki heim þá og þegar myndi bíllinn breytast í grasker og ég yrði fastur. Og það er engin ástæða til að festast í bænum þegar þar er engin prinsessa til að máta á mig Eccoskóinn.

Á ekki svo ósvipuðum nótum kom kona á safnið um daginn að spyrja eftir bókum um stöðu barna á nítjándu öld, vegna rannsóknar á vondum stjúpum í ævintýrum. Ég hef átt nokkrar en það verður að segjast að engin þeirra var neitt sérstaklega vond. Þá má svosem taka það fram líka að lífið hefur nú sjaldnast verið eins og ævintýri að neinu öðru leyti þannig að kannski er það bara vel sloppið.

En í gær gegnum rigningarsuddann á leið á bókasafnið fannst mér ég þegar vera á heimleiðinni. Blautt fólk í anddyrinu að drekka kaffi undir ljóðalestri Bandaríkjamanns, allt skemmtilega samstarfsfólkið sem ég hitti og venjulega gaufið í geisla- og mynddiskasafni stofnunarinnar. Það er skrýtið að þykja svo vænt um vinnustaðinn að þegar ég kom heim fannst mér ég aðeins hálfur heima hjá mér.

Eins og það er nú alltaf huggulegt að hjúfra sig uppi í rúmi með sjónvarp og trogfylli af mat. Í gærkvöldi var það Kieslowski Blár. Ég geymdi Hvítan og Rauðan fyrir kvöldið í kvöld.

Hlandið góða og húsið

Já, það er víst nóg af vinstrisinnuðu listapakki í hundraðogeinum sem mígur hvert utan í annað og mótmælir virkjunum í frístundum sínum, heyrirðu það Kristín Svava! Segðu svo ekki að skoðanabræður Egils séu ómálefnalegir.

En svona á öðrum nótum þá hlakka ég til að endurbættur Listaháskóli rísi við Laugaveginn, því rétt eins og Egill vil ég færa djammið í úthverfin en hlandið í miðbæinn – svona til að auðga menningarlífið. Það skyldi þó enginn þeirra réttsýnu skoðanabræðra hans kvarta undan því þótt menn gengju örna sinna hver yfir annan á Laugaveginum, sjálfri hlandnýlendu vinstrisinnaðra náttúrujarmara Íslands?

Ég meina hey, allt fyrir menninguna ekki satt? Því allt er betra en „hjallastefnan“, meira að segja þessi hvimleiða úrkynjun sem hvað ofan í annað ryðst óboðin inn í hversdagslíf Egils, eða svo gæti maður haldið. Með eða á móti, hland eða hjallar; góðir Íslendingar, verið óhræddir meðan menningarvitinn lýsir upp leið vora gegnum húmið í örugga höfn rúnklausra formbyltinga! Kæru Íslendingar, ég … ég á ekki til orð.

Kópavogur

Áðan var ég staddur á McDonald’s við Smáratorg. Þar sá ég konu hella sér yfir starfsmann vegna þess að hún fékk hamborgarann sinn í venjulega brauðinu á myndinni, en ekki í kornóttu brauði eins og mynd af einhverjum öðrum hamborgara sýndi. Fyrir sumum er ekkert vandamál of lítið.

Á leiðinni heim tók ég eftir því í fyrsta sinn að Kópavogur er líklega skuggalegasti bær á Íslandi. Allar þessar dimmu brýr með húsum ofan á og brúm gegnum húsin með húsum ofan á; eins og litla Tókýó, bara án menningar. Kópavogi hefur gjarnan verið stillt upp sem valkosti við Reykjavík. Ég sé ekki alveg hvernig það getur passað.

Til þess að stilla upp valkostum þurfa hlutirnir að vera sambærilegir. Ef mig langar í hamborgara þá er KFC ekki valkostur, en ef mig langaði í kjúklingaborgara væri McDonald’s valkostur við KFC. Ef ekkert skiptir máli nema nálægð við Faxaflóa þá er Kópavogur vissulega valkostur við Reykjavík, annars ekki. Báðir staðir eru bæir í sama skilningi og appelsínur og bananar eru hvort tveggja ávextir.

En kannski vilja sumir bara búa undir brú eins og hver önnur tröll.

Samfélag í nærmynd

Hér gerast merkilegir hlutir á hverjum degi, a.m.k. hlutir sem teljast merkilegir innan þess afmarkaða veruleika sem bókasafnið og -bíllinn er. Fastagestirnir hérna eru betri en nokkurt sjónvarpsefni. Ef mér þætti ekki vænt um óstaðlaðan veruleika væri hér komin prýðileg hugmynd að þáttum handa Skjá einum.

Ég fæ stundum á tilfinninguna að fólk trúi ekki á að hið sérstæða sé til innan þess almenna lengur. En hérna í Vogahverfinu er allt svo sérstakt að ástæða er til að tala þess heldur um hið almenna meðal þess sérstæða. En það er nú heldur lítið sem teljast mættu almenn einkenni fólksins hér, nema helst það að allt er það fólk, og að ég kann afskaplega vel við það langflest.

Ég kemst sjaldan í tæri við þetta annarsstaðar en í vinnunni, en ég efast ekki um að þetta er alstaðar þar sem menn leita að því. Einn stærsti kosturinn við bókasöfn er einmitt sá að þar kemur fólk saman og myndar einskonar samfélag sem annars væri ósýnilegt. Þess vegna myndi ég heldur vilja búa hér en í Laugarneshverfi til dæmis, þar sem fátt er eftir lengur sem sameinar fólkið, nema 10-11 geti í einhverjum skilningi talist vera samkomustaður.

Það var platað mig

Guðmundur Andri á ansi hreint fínan pistil í Fréttablaðinu í dag, sem lesa má hér. Ef til vill verða margir til að álykta að notkun hans á nýju þolmyndinni endurspegli máltilfinninguna, en þess heldur er „Það var platað mig“ ef til vill lymskulegasta diss sem sést hefur á síðum blaðanna lengi.

Stundum verð ég pirraður út í fólk. Það gildir jafnt í vinnunni sem annarsstaðar. Þegar manneskja segir í umvöndunartón að framkvæmdirnar við safnið hefði átt að tilkynna í Morgunblaðinu – af öllum furðulegum stöðum – hvernig annars eigi hún að vita upp né niður hvað sé að gerast á safninu hverju sinni, þá fýkur í mig. Blessunarlega kann ég að halda mér saman ólíkt sumum. Næst fæ ég skeitara sem stinga upp á að tíðindi verði gröffuð utaná helvítis bygginguna.

En auðvitað er þetta bara hártog. Maður finnur þolinmæðina hverfa smám saman við misgóð tíðindi yfir daginn og lánþega á tveggja mínútna fresti sem – sumpart eðlilega – spyrja hvort við séum að flytja, hvort búið sé að reka okkur, hvort sprengja eigi húsið í tætlur, hvað sé eiginlega að þessum nýja meirihluta að fara svona með okkur; við að passa upp á að krakkar slasi sig ekki í brakinu, að heimiliskettir lokist ekki í gámnum og þiggja umvandanir frá fólki með bros á vör og uppgerðarskömmustu.

Maður tekur að skynja velsæmislínuna þrengri þegar líða fer á daginn. Annars er þetta fínt. Og auðvitað á fólk skilið að fá skýr svör og meira en viðunandi þjónustu – rétt eins og alla aðra daga. Það þarf bara aðeins að kyngja milli svara stundum.

Stoppið mig þegar þið fáið leið á leiðinlegu vinnubloggi. Líf mitt er vinnan þessa dagana.