Eiturkoppar og geltarfar

Eitrkoppr inn smærri dafnar í sturtuklefanum. Foreldrarnir láta þó ekki á sér bera.

Í dag fengum við hálfan frídag svo ég hélt glaður í bragði með strætó niður á Store Torv að heilsa uppá DanBolig, til að koma mér á biðlista á einkaleigumarkaði ef ske kynni að ég fengi ekki inni á görðum. Strætóbílstjórinn neitaði að hleypa mér út fyrr en einni stöð of seint, svo það var þónokkuð fokið í mig þegar ég arkaði gegnum rigninguna að húsinu þar sem ég hafði séð útstillingu frá þeim áður.

En þá var fyrirtækið ekki þar, heldur auglýsing sem vísaði á einhverja M. P. Bruunsgade. Fjórða manneskjan sem ég stoppaði gat vísað mér þangað svo ég gekk eftir endilöngu Strikinu að lestarstöðinni í mígandi rigningu og hægra megin við stöðina var M. P. Bruunsgade. Það vissi ég hinsvegar ekki þar sem ég fann ekki skilti svo ég spurði til vegar á túristakontór.

Þá fann ég NyBolig, þar sem smjörsleiktur apaköttur tók á móti mér en rak mig skjótt á dyr þegar hann komst að því að ég hafði ekki áhuga á að kaupa eitt af fínu einbýlishúsunum hans, með þeim orðum að ég skyldi kanna DanBolig. Aðeins lengra upp götuna lá DanBolig og þar mætti sami geltarfurinn, eða í það minnsta áþekkur þeim fyrri, og tók hann vel í að ég skyldi vera kominn inn á kontór til sín að kaupa mér hús. Þegar ég hafði útskýrt fyrir honum hvað ég vildi benti hann mér á NyBolig.

Að endingu tókst mér að veiða uppúr honum að til væri eitthvað sem héti Arbejdernes Andels Boligforening uppi á Langelandsgade. Sjálfsagt eru engir smurfróðar á svo öreigalegum kontór hugsaði ég, en hálfur uppí strætóinn hætti ég þó við að halda áfram þessari endaleysu og fór heim. Eftir allt vesenið reyndist að endingu einfaldast bara að gúgla þessu, en auðvitað datt mér það ekki í hug fyrr en ég hafði spurt þá ráðagóðu Bergdísi. Svona er ég nú gamaldags. En nú er ég að minnsta kosti 15 húsnæðisumsóknum ríkari.

Myndina á Niels M. Knudsen.

2 thoughts on "Eiturkoppar og geltarfar"

  1. Skarpi skrifar:

    Það fer ekki í fjallkirkjuna þína að þú hafir bara sest og gúglað þér húsnæði!!!
    Helvítis nútími!
    Það var mikið hlakk að fá að sjá smjörsteiktan apakött en það virðist vera forboðið.

  2. Að sjálfsögðu lýg ég allt öðru þegar ég skrifa fjallkirkjuna mína.

Skildu eftir svar

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *