Heimsveldi tímastjórnunar

Eftir vikubið hringdi ég í internetfyrirtækið Telia Stofa. Þeir könnuðust ekki við neina pöntun á háhraðatengingu svo ég pantaði gegnum síma. Þá kemur í ljós að háhraðatenging er ekki möguleg þráðlaust svo ég pantaði venjulega þráðlausa tengingu í staðinn. Hún kemur eftir viku. Helv.

Það hjálpar dönskunni minni að enginn hjá Jyske Bank kann eða vill tala ensku (ég tala alltaf ensku á stöðum þar sem ég óttast hræðileg tæknihugtök sem ég skil ekki einu sinni á íslensku). Þar var mér boðið upp á „byrjendareikning“ sem minnir óhugnanlega mikið á Startkortin hjá Sparisjóði vélstjóra í gamla daga. Þau virka bara í hraðbönkum Jyske Bank en eiga að virka í verslunum líka. Rosalega smart bisnessmódel að láta innflytjendur fá hálfgagnslaus kort.

Hlaupið milli kontóra dregur svolítið úr manni vindinn. Til að geta sótt um íbúð á kampus (mynd meðfylgjandi færslu skoðist með orðunum „eigum við að ræða það eitthvað eða?“) þarf ég stúdentakort. Til að fá stúdentakort þarf ég kennitölu. Til að fá hana þurfti ég að fara í ráðhúsið og borga 52 krónur. Stúdentakortið fæ ég eftir eina til tvær vikur. Sem þýðir að þá get ég sótt um íbúð á kampus. Sem þýðir að áreiðanlega kemst ég aldrei í íbúð á kampus. En maður gerir þetta nú samt.

Danir eru ekki sérlega alræmdir fyrir dagbókarlífsstílinn þótt þeir ættu að vera það, og ég hef þegar orðið fyrir barðinu á þessum stórfurðulega ofurskipulagða lífsmáta þessa rúmu viku hérna. Ég ætlaði að hitta vini úr fornleifafræðinni í vikunni en svo í gær fékk ég skilaboð þess efnis að þau yrðu á tilteknum stað á föstudaginn klukkan þetta og ég væri velkominn ef ég kæmist. Aðrir vinir skipuleggja hálfa eða heila viku fram í tímann. Og þeir afsaka sig í bak og fyrir alveg miður sín ef þeir voga sér að hringja samdægurs. Ef ég býð einhverjum í bjór heyri ég skrjáfið í dagbókinni hinumegin símans. Dagbókin er heilög.

Það er ekkert skrýtið að stelpan hjá Jyske Bank hafi beðið mig að koma aftur á morgun nákvæmlega klukkan þrjú til að sækja reikningsupplýsingarnar mínar og að náunginn hjá Telia Stofa hafi skráð heim til mín tæknimann á bilinu 12 og 15:30 næsta þriðjudag. En það er undarlegt að ungt fólk skipuleggi tímann sinn svona nákvæmlega. Það mætti halda að það væri beinlínis streituvaldandi að fylgja svo nákvæmu plani fyrir sérhvern dag. En einhvern veginn virka Danir alltaf afslappaðri en maður á að venjast.

Á Ris Ras í rigningarsudda

Í heila viku hef ég varið hálfum deginum á börum Árósa svo ég komist á netið. Ég fæ svona 30 tölvupósta á dag og sumum þarf að svara, svo ég kemst ekki undan.

Rigningin undanfarna viku hefur samkvæmt Politiken valdið því að vatn hefur runnið frá óæðri stöðum og flætt yfir grunnvatnið. Eftir minni vanalegu heppni varð ég ekki var við fréttaflutning af þessu svo ég hef drukkið og baðað og tannburstað mig uppúr E-Coli smituðu vatni í tvo daga. Frekar hefði ég drukkið frágangsvatn Jónínu Ben. Sjálfsagt meira um það á Smugunni von bráðar.

Einhversstaðar heyrði ég svo að Meistarar og lærisveinar væru í fjórða sæti metsölulista einhverrar bókabúðarinnar. Það gladdi mig. Pétur Gunnarsson og Þórunn Hrefna mættu svo í Kastljós um daginn að ræða bókina. Ég hef ekki séð þáttinn en ég get ekki ímyndað mér annað en þau hafi verið flott. Leitt fyrir sjálfan mig að vera ekki á staðnum til að fylgja verkinu eftir. En ég á raunar flugmiða ef Kiljan vill fá mig. Það væri tækifæri til að sækja allt draslið sem ég gleymdi á Íslandi.

Á næsta ári verða þingkosningar í Danmörku og Radikale Venstre eru byrjuð að bombardera strætóskýli með skilaboðum um að innflytjendur séu þarfaþing og kennarar frekar töff. Ég hef ekki séð auglýsingar frá öðrum flokkum en þess verður varla langt að bíða fyrst þau eru komin af stað, og að sjálfsögðu fylgist ég með þótt möguleikarnir á að ég fái nokkru sinni að kjósa til þingsins séu ærið litlir.

Mikið andskoti venst annars vel að reykja aftur á börum. Á Ris Ras er hægt að leigja vatnspípu og það gerist nær aldrei að minnst ein sé ekki í notkun hverju sinni. Þetta líst mér á.

Fyrsta þynnkan sem hálfdani

Internetið er ennþá á leiðinni. Á meðan gengur danska lífið sinn vanagang. Í dag reyndi náungi að flýja strætóverðina. Stór mistök. Verðirnir eru hvorutveggja beljakar og fráir á fæti. Síðasta sem ég sá af honum hélt annar vörðurinn honum fast upp að húsvegg. Hvorugum virtist sérlega skemmt. Síst af öllum sá sem vildi spara sér fargjaldið.

Indverskur vinur Christians vinar míns, Abhishek nokkur, er að leita sér að litlu einbýlishúsi. Ef hann finnur svoleiðis, sem er ekki alveg það einfaldasta, get ég fengið íbúðina hans í Risskov, sem er á besta mögulega stað. Þarmeð væru heimilisvandræðin leyst. En á meðan held ég áfram að leita.

Núna sit ég skítþunnur á Ris Ras eftir heljarmikið partí á kampus í gær og nenni engu. Það sem hefst með rauðvínsflösku inni á doktorskontór með Mathiasi, Bergdísi og fleirum er líklegt til að enda einmitt svona. Mér er skapi næst að fara á kojufyllerí og vídjó en veðrið er eiginlega of gott til þess.

Mest langar mig samt til Kaupmannahafnar að sjá Sissekellinguna, en ég hef plön á mánudaginn svo það er ekki alveg inni í myndinni – þá klárar Moesgårdliðið prófin og ég hef mælt mér mót við þau nokkur. Ég á hvort eð er eftir að fá stúdentakortið mitt og án þess kostar túrinn helmingi meira. En ég er þó kominn með kennitölu, svo ég er orðinn hálfur Dani. Húrra fyrir því.

Kannski maður leggi sig bara í grasagarðinum með nokkra kalda. Það þykir ekki rónalegt hér í Danmörku. Svo er höfnin og ströndin og skógurinn og áin. Endalausir möguleikar til að setjast undir sólinni og finna andvarann leika um þunnan kroppinn. Svo er alltaf hægt að skoða meira. Þegar Christian kemur frá Skanderborg að helgi liðinni ætlar hann að sýna mér fallegu blettina í gettóinu. Já, þeir munu víst vera nokkrir, þótt þeir séu ekki auðsæilegir svona á yfirborðinu.

Svo kemur Jón Örn bráðum til Danmerkur. Ég sé fyrir mér þriggja daga fyllerí með honum og Sissekellingunni í Kaupmannahöfn af því tilefni. Nema þeir vilji leggjast í gettóinu. Það eru til verri staðir.

Enn úr gettóinu

Það hlaut að koma að því að krakkarnir á kollegíinu segðu farir sínar ekki sléttar af heimafólki. Tvö þeirra voru að ganga heim að kvöldi og fimm krakkar eltu þau. Einn þeirra vatt sér svo upp að þeim og heimtaði allt sem þau ættu. Strákshluti parsins svaraði að eigin sögn: En þú ert bara krakki! og hélt leiðar sinnar. Það varð ekkert meira úr því. Hann gat þó ekki sagt mér sirka hversu gamlir þessir krakkar voru, en sagði að fimm hefðu verið alveg nóg til að berja sig í buff. Fyrst svo er þá hefðu þeir áreiðanlega rænt hann ef það hefði raunverulega verið markmiðið. Nema þeir hafi bara verið að prufa hvort það virkaði. En maður lendir nú í öðru eins í Fellunum.

Í gærkvöldi sannreyndi ég að tölvan mín er ekki í lagi eftir bjórgusuna svo ég hringdi í strákinn. Hann ætlar að kanna hvort hann sé tryggður fyrir bjórhryðjuverkum og láta mig vita. Að öðrum kosti borgar hann bara reikninginn þegar tölvan kemur aftur úr myrkviðum Kaupmannahafnar. Fyrir vikið þarf ég að kaupa bakpoka svo ég geti dröslað gamla pésanum mínum um. Ég hafði þá forsjálni að flytja hann töskulausan með mér hingað.

Eftir mikið strætóvesen hef ég enn ekki farið í Rúmfatalagerinn en ég rakst þó á hverfi skammt frá Háskólanum og Gamla bænum sem mig langar að stefna á að flytja í. Það heitir Hasle og er það fallegasta sem ég hef séð utan miðbæjarins hérna. Áreiðanlega kostar eftir því að búa þar en ég ætla að kanna möguleikana, svona áður en ég æfi Eastwoodröddina ef vandræðaunglingarnir í Brabrand eru ekki að grínast með peningaleysið. Annars er ólíklegt að maður lendi í nokkru ef maður talar dönsku og hegðar sér ekki einsog algjör túristi.

Veðrið er loksins orðið gott aftur, 21 gráða og hálfskýjað. Sjávargolan gerir að verkum að ég get vandræðalaust gengið um í jakka án þess að verða of kalt þegar sólin hverfur. Konan sem þreif klósettið mitt kom aftur í dag og þreif restina af íbúðinni. Hún virtist ekkert kát með það og var ekkert sérlega vandvirk heldur. En hún náði mestu drullunni. Þá þarf ég bara að kaupa hreinsilög og ná afgangnum sjálfur. Skrifborðið er einnig komið í lag og gluggalásinn verður lagaður í dag. Stráknum frá Alþjóðaskrifstofunni virtist brugðið yfir virkinu sem ég bý í enda þurfti ég bæði að hleypa honum inn um framhliðið og út aftur. Þetta hafa menn uppúr því að hola fólki niður í þessum fínu íbúðum þeirra án þess að hafa nokkra einustu hugmynd sjálfir um hvernig er umhorfs.

Ef ég hefði ekki verið í góðu skapi hefði ég boðið hann velkominn í gettóið. Ég flyt út undir eins og ég get, sem gæti orðið eftir nokkurn tíma, bara eitthvert þar sem eru sæmilegar íbúðir. Mig langar til Hasle en sé það svosem ekki alveg gerast. En maður veit þó aldrei.

Jysk sengetøj

Ég vaknaði í morgun við að kona kom til að þrífa hjá mér klósettið. Ég spurði hana hvort hún vildi þá ekki þrífa restina af íbúðinni. Þá hrópaði hún: Clean! TOILET! svo ég lét þar við sitja. Ég er enn að berjast við kontórinn. Auðvitað ber þeim að skila íbúðinni hreinni. Og ég heimta aukahúsgögn í sárabætur. Þá hef ég sent lista yfir allt sem er að íbúðinni og ég vil að verði lagað, í öllu falli verði það ekki dregið af tryggingunni minni.

Þá hef ég skráð mig inn í landið og fæ kennitölu á föstudag. Og ég er líka kominn með síma: (+45) 4114 8333. Símanúmer er nauðsynlegt til að fá internettengingu svo ég sótti um hana undir eins og ég hafði fengið númerið. Sit núna á Undermasken að venju. Rigningin hefur ekki skánað og það er ansi deprímerandi eftir blautan dag að koma heim í algjöran viðbjóð. Á eftir kaupi ég hreingerningarvörur og mat. Ef kontórinn kippir þessu ekki í liðinn á morgun þá þríf ég bara sjálfur. Ég get ekki búið svona lengur. Svo sendi ég kontórnum bara reikning.

Á leiðinni á skólaskrifstofurnar í dag rakst ég á Rúmfatalagerinn við Silkeborgvej, eða Jysk sengetøj einsog hann heitir víst á dönsku. Þangað fer ég á morgun að kaupa sæng og meðfylgjandi. Sé því fram á þriðju nóttina undir Ikeateppinu mínu.

Eitt gleymdi ég að minnast á en það voru tíbetsku munkarnir tveir í vélinni hingað út. Það væri ekki í frásögur færandi nema annar ferðaðist á fyrsta farrými en hinn á lókal. Samt voru þeir saman. Samkvæmt trúnni mega þeir þó ekki eiga neitt hefur mér alltaf skilist. Þess vegna fannst mér svolítið fyndið að sjá munk ferðast á fyrsta farrými með allt sitt fótapláss og toppþjónustu, meðan félagi hans hýrðist aftur í og borgaði 600 krónur fyrir eitthvað ógeðslegt croissant með skinku og osti.

Meira um Hejredalkollegíið

Það fyrsta sem vakti athygli mína er að kollegíið er víggirt. Römm læst hlið á alla útganga og gaddavír eftir öllum girðingum. Til að komast í íbúðina þarf því þrjá lykla. Í síðustu færslu minntist ég líka á að nágrannarnir þora ekki að fara út á kvöldin.

Að vísu eru flestar fréttir sem berast til Íslands frá Árósum úr hverfinu mínu. Bílsprenging fyrir fimm eða sex vikum og bankarán í fyrra og sjálfsagt fleira til. En ég skil ekki að krakkarnir á kollegíinu óttist húðlitinn á öðrum nágrönnum sínum. Þarna er fólk margvíslega tónað (tanað?) en ég hef ekki nokkra ástæðu til að halda að þeim sé ekki drullusama um einhverja háskólanema, hvort sem þeir hanga í virkinu sínu eða hætti sér á kebabbúlluna.

Allt er þetta jafnmikið inni og úti. Það þarf ekki meira hugrekki til að fara til arabíska rakarans á horninu en það þarf kænsku til að brjótast inn í rottuholurnar sem hýsa stúdenta. Það eru alvarlegri hlutir til að óttast, einsog að verða fyrir strætó. Eða að verða milliliður í skotárás mótórhjólafábjána á basarinn. Það ætti þó ekki að hindra neinn í að rölta út á kvöldin enda eiga voðaverkin sér engu síður stað um hábjartan dag. Það er svipað og að óttast að fá eldingu í hausinn; ef það gerist þá gerist það svo skyndilega að við því er ekkert að gera. Á hinn bóginn er Danmörk hálfgert Boltaland við hliðina á flestum öðrum löndum svo fyrir mér er allur ótti innistæðulaus.

Í öðrum fréttum sá ég Orlando Bloom í Kaupmannahöfn í gær, eða það gæti ég svarið. Að minnsta kosti myndi ég ekki halda að neinn myndi gera sér far um að líkjast honum svona mikið. Svo í dag sá ég einn frægan danskan leikara sem ég man ekki hver er í svipinn, svo ekki var það eftirminnilegt. Og núna rétt áðan fannst mér ég sjá Jesper Christensen. Sjálfsagt er ég að ímynda mér þetta allt saman. En það er þó tilbreyting frá Hilmi Snæ á Næsta bar eða einhverjum has been þingmönnum á vappi um miðbæinn.

Að Lottuvegi 1

Í augnablikinu er ég staddur á Café Undermasken í Árósum. Þvílík beljandi rigning hefur verið í dag að dyflinnarregnhlífin gaf undan og því flýði ég inn. Ég er líka netlaus svo ég kem til með að verða nokkuð hér næstu daga.

Innskot:
Ég er núna á Ris Ras. Einhver strákur hellti bjór yfir tölvuna mína á Undermasken og hún brást við með því að drepa á sér. Eftir að ég kom henni í gang fór hún að eipa og blikka á mig skjánum. Hún drepur á sér við og við, en ég er að vonast til að þurfa ekki með hana í viðgerð. Þá þarf að senda hana til Kaupmannahafnar, og það gæti tekið tvær vikur. En ég er með símann hjá stráknum ef þetta verður kostnaðarsamt.
Innskoti lýkur.

Allt fór samkvæmt áætlun til að byrja með í gær. Ég hitti Steinunni á Panorama bar í Leifsstöð og Sissekellingin tók á móti mér á Kastrup. Þaðan fórum við á Höfuðbana þar sem við settumst á tröppurnar og fengum okkur nokkra. David og Christian tóku svo á móti mér á Banagarði nyrðri og þaðan lá leið okkar uppí Brabrand.

Lítill austurlenskur strákur deildi vagni með okkur og bauðst til að leiða okkur að kollegíinu. Hann skoðaði myndina á möppunni sem ég fékk og opnaði hugarkortið, svo gekk hann hratt á undan með sífelldum bendingum og sagði „kom her nu“ og „den vej her“ og „lige herover“ í svona 5 mínútur meðan hann leitaði að húsinu. Svona svipað og í öllum Hollywoodmyndum þar sem hvíti aðkomumaðurinn má sín lítils gagnvart speki 8 ára drengs í óbyggðum Ástralíu eða Kenýa. Sjálfsprottin staðalmynd.

Íbúðin sjálf var, og er, viðbjóðsleg. Mold og gras á gólfinu, saur í klósettinu og þar sem lásinn á eina glugganum, sem er meira einsog rennidyr út í garð, er brotinn hefur fyrri leigjandi sett kústskaft í staðinn. Það voru göt á veggnum og för á gólfinu eftir bókahillur sem höfðu verið fjarlægðar. Risastór en vitagagnslaus skúffueining liggur við fótalag rúmsins. Rúmið sjálft er þó nýlegt en án sængurfata, hvað þá kodda eða sængur, svo það var ekki alveg glatað að sofa á því í nótt mitt í öllum viðbjóðinum, undir teppi sem ég var nógu forsjáll til að hafa með mér.

Aðrir leigjendur sem deila með mér eldhúsinu eru brjálaðir, og hræddir. Þetta eru allt krakkar um tvítugt. Þeim hefur skilist að Brabrand sé hættulegasta hverfi Árósa og ekki eru íbúðirnar til að létta þeim áhyggjurnar. Sturtan í einni íbúðinni virkar ekki. Klósettið virkar ekki í annarri. Frágangur er hryllilegur, og það eru engar búðir í göngufæri frá kollegíinu. Mér finnst þetta nú ekki svona svart, en þetta er engu að síður ógeðslegasta vistarvera sem ég hef búið í.

Ég myndi skrifa gáfulegar um þetta allt saman en ég óttast að tölvan drepi á sér, svo ég læt hér við sitja í bili.

Áfangastaður – Lottuvegur 1

Í fyrradag úthlutaði alþjóðaskrifstofa Árósaháskóla mér bráðabirgðahúsnæði í algerri neyð. Það er í Hejredalkollegíinu við Lottesvej í Brabrand, þ.e. í vesturbænum. Ekki alveg það sem ég hafði í huga en sama hversu mér líkar get ég ekki búið þar lengur en til áramóta. Mánaðarleigan er lág og ég hef eigin sturtu. Það er ekki nauðsyn, heldur lúxus. Svo ég kvarta ekki nema síður sé.

Ég er búinn að kveðja alla sem ég komst yfir, núna síðast í afmæli Auðar Lilju fyrr í kvöld. Þar komst ég að því að Steinunn Rögnvalds verður í Leifsstöð á sama tíma og ég, á leiðinni til Noregs. Það er ekki lítið tilefni fyrir bjórdrykkju að morgni. Á Kastrup tekur svo Gunni Sissekelling á móti mér og í Árósum taka Christian og David við því sem ekki er svitnað úr mér á leiðinni.

Á þessum bænum er mikil tilhlökkun til næstu tveggja vikna. Það er fyrsta alvöru fríið sem ég hef fengið síðan ég teymdi fyrrverandi finnsku kærustuna um Suðvesturlandið, með viðkomu á Hellu hjá téðri Sissekellingu, og hélt síðan með Dóra Marteins til Dublin í kjölfarið. Það eru rúm tvö ár síðan. Það frí ætti að gefa mér tóm til að vinna í bók sem er ekki eftir Þórberg Þórðarson, en um þá bók ætla ég hinsvegar að fjalla nánar á þessum síðum bráðlega – það sem ekki var rúm fyrir í eftirmála bókarinnar.

Atuk og A Confederacy of Dunces

Bölvanir hafa gegnum mannkynssöguna lagst yfir heilu löndin og ættliðina, stundum hafa þær hvílt á verðmætum gripum og jafnvel einstaka gæluverkefnum. Hollywood hefur séð sinn skerf af slíkum bölvunum að menn segja og líklega er frægust þeirra sú sem sögð er hvíla á Supermanvörumerkinu (George Reeves, Christopher Reeve – tilviljun?).

Ein þeirra bölvana sem Hollywood hefur þurft að kljást við með ærnum tilkostnaði og dauðsföllum á sér raunar tvær útgáfur sem lifa samhliða einsog óafvitandi hvor af annarri. Það gengur jafnvel svo langt að á vefsíðunni Cracked, sem kalla mætti skeptískt en gamansamt fróðleiksrit, eru báðar útgáfur til hvor í sinni greininni án þess að nokkur hafi orðið þess var svo ég fái séð.

Útgáfur sögunnar eru nefnilega nær nákvæmlega eins að því undanskildu að ýmist er bölvunin tengd við kvikmyndirnar Atuk eða A Confederacy of Dunces, sem aldrei tókst að gera. Allir leikarar sem þegið hafa aðalhlutverkið í þessum myndum hafa dáið skyndilega, og flestir þeirra eru í hvorri gerð sögunnar þeir sömu. Bölvunin mun þannig í hvoru tilfelli fyrir sig hafa orðið John Belushi, John Candy og Chris Farley að aldurtila (óháð lífsstíl þeirra býst ég við).

Að sama skapi og við megum þakka fyrir að allir þrír leikarar hafi þáð hlutverk í sömu tveim bölvuðu myndunum og þannig sparað okkur að missa enn fleiri gamanleikara á einu bretti, t.d. Steve Martin eða Rick Moranis (hah, djók), þá hlýtur það að teljast ansi óheppilegt fyrir leikarana að jafnvel þótt þeir hefðu hafnað öðru hlutverkinu hefðu þeir drepist samt sem áður, svolítið einsog að finna Tutankamon tvisvar.

Í kaldhæðnislegri fléttu hefur Hollywood þó framleitt mynd sem fjallar nokkurn veginn einmitt um það: The Mummy 2. Þegar öllu er á botninn hvolft eru það líklega svoleiðis myndir sem er mesta bölvun Hollywood á síðari árum. Blessunin felst á hinn bóginn í bölvuninni. Ef þeir þá finna nokkru sinni fjármagn til að klára A Confederacy of Dunces með Will Ferrell í aðalhlutverki.

Litlu verður Vöggur feginn

Sumir dagar eru þannig að án þess að gera neitt flytur maður fjöll. Þannig hófst fyrri partur dagsins í dag þegar ég rúntaði hálfsárslega túrinn niður í Mastercard með sömu kankvíslegu tilgerðarhógværð og ég vanalega set upp af tilefninu, vitandi upp á mig sökina að hafa algjörlega trassað að greiða reikningana, og verið drullusama (nokkuð sem ég ætla að bæta úr frá og með nýju ríkisfangi).

Þá hafði ég víst sýnt þá fyrihyggju einhverntíma í fyrra, og steingleymt því, að biðja um að láta skuldfæra kortið á bankareikninginn minn mánaðarlega. Svo ég var alveg skuldlaus. Ég vel að merkja þoli ekki greiðslukort og nota þau aldrei nema til raðgreiðslna, og í haust keypti ég mér tölvu sem ég hélt að ég skuldaði meira eða minna fjórðung í ennþá (ég hef það lágar tekjur að maður tekur ekki eftir því hvort muni 8000 kalli á mánuði, og Reykjavík sendir ekki lengur út launaseðla svo ég sé það ekki þar heldur).

Mér fannst ég hafa grætt nokkuð á fyrirhyggjunni og hélt ósköp glaður á næsta stað að kaupa ferðatöskurnar sem ég tímdi ekki að kaupa deginum áður. Önnur var merkt á 13 þúsund en hin á 11. Þegar ég kom að kassanum kostuðu þær saman 9 þúsund, sem er mér algjörlega óskiljanlegt. En ekki fer ég að kvarta undan svoleiðis prís. Þaðan lá leið mín í bankann að tryggja mér framfærslulán í vetur sem verður greitt mánaðarlega inn á danskan reikning sem ég sæki um í vikubyrjun næstkomandi. Þegar ég kom aftur í vinnuna hafði vinur minn úti boðið mér að hjáleigja herbergið sitt í kommúnu í einhverju úthverfi þar til ég fengi eigin íbúð.

Eftir vinnu tókst okkur pabba svo loksins að:

1. Tæma geymsluna heima hjá mömmu af gamla draslinu hans.
2. Henda því sem henda mátti.
3. Laga voða fínt til eftir okkur svo hennar dót sé aðgengilegt úr öllum áttum.

Af Laugarnesveginum hentumst við svo í Hafnarfjörðinn og skófluðum draslinu af handahófi í geymsluna hér. Þá er flestu því leiðinlegasta aflokið allt á einum degi og ég get hlakkað til þess að kynna flunkunýja sjötíu ára gamla bók eftir Þórberg í Bókabúð Máls og menningar annað kvöld eftir að ég hef gengið frá leigjendaskiptum að skrifstofunni minni í Reykjavíkurakademíunni.

Og enda þótt ég gleymdi alveg að borða í dag þykir mér ekki amalega að verki staðið á einum degi.