Endalok Kristjaníu í núverandi mynd

Virkisveggurinn
Á árunum 1682 til 1692, eftir umsátur Svía um Kaupmannahöfn þann 11. febrúar árið 1659, var ráðist í gerð virkisveggs við bæinn Kristjánshöfn, til að tengja við virkisveggi Kaupmannahafnar og tryggja varnir borgarinnar. Virkisveggurinn stóð allt umhverfis gömlu Kaupmannahöfn fram á 19. öld, þegar stórir hlutar hans voru rifnir, að undanskildum þeim hluta sem enn stendur í Kristjánshöfn. Í síðari heimsstyrjöld reisti stórskotalið danska hersins herbúðir innan virkisveggjanna. Eftir stríðið urðu hinsvegar lítil not fyrir búðirnar, og notkun þeirra fór minnkandi uns á endanum þær voru alveg yfirgefnar árið 1971.

Samtíðis skorti á húsnæði á viðráðanlegu verði voru mörg húsanna þá þegar orðin að athvarfi heimilislausra. Þann 4. september sama ár brutust nokkrir íbúar Kristjánshafnar inn í búðirnar til að nýta svæðið sem leiksvæði fyrir börnin sín. Þetta var upphafið að byltingu efnaminni íbúa Kaupmannahafnar gegn ríki og borg. Þann 26. september 1971 birtist loks yfirlýsing í Hovedbladet þess efnis að íbúarnir hefðu tekið yfir herbúðirnar og þær yrðu þar eftir sjálfbært fríríki, með samhygð og samábyrgð að leiðarljósi. Umræddur virkisveggur afmarkar nú suðausturhlið fríríkisins Kristjaníu frá eyjunni Amager. Norðvesturhliðin er mörkuð af með einföldu skilti. Á því stendur einfaldlega „Christiania“ á þeirri hlið sem snýr að götunni. Á hinni hliðinni stendur: „You are now entering the EU“.

Vandamál Kristjaníu
Síðan eru liðin tæp 40 ár. Við þekkjum flest framhaldið: tilraunir borgaryfirvalda til að rífa þökin ofan af íbúum fríríkisins, rassíur lögreglunnar í tilraun til að sporna við eiturlyfjasölu og –framleiðslu, tilraunir til að fjarlægja íbúana með valdi. Umræðunni hefur ekki linnt síðastliðin 40 ár, þótt margir Íslendingar sem ekki hafa komið til Kristjaníu þekki hana kannski helst úr dönskutímum eða úr kvikmynd Kims Larsen, Midt om natten. Raunveruleikinn hefur heldur ekki átt sér stóra málsvara í þessari umræðu allri. Einsog annarsstaðar beinist kastljósið því aðeins að fríríkinu þegar þar gerist nokkuð sem teljast mætti fréttnæmt.

Af nýliðnum atburðum sem vakið hafa áhuga fjölmiðla og sömuleiðis hafa kynt undir báli umræðunnar mætti helst nefna skotárás sem átti sér stað í Kristjaníu árið 2005 vegna deilna um yfirráð á eiturlyfjamarkaði Kaupmannahafnar. Einn lést og þrír særðust. Orsakirnar eru í senn einfaldar og flóknar. Það gleymist oft að Kristjanía er ekki fríríki hasshausa heldur framfylgir ríkisráð hennar eigin lögum sem allir íbúar fríríkisins þurfa að samþykkja – til að mynda er sala sterkra fíkniefna með öllu bönnuð þar. Árið 2004 gerði lögreglan hinsvegar rassíu gegn opinni sölu á kannabisefnum í Kristjaníu, og markaðurinn hefur enn ekki jafnað sig að fullu. Enn er þó „leyfilegt“ að neyta kannabisefna í einrúmi – algeng sjón í Kristjaníu er einmitt hópur hassreykingafólks utan við helstu vertshúsin meðan þeir sem inni eru mega reykja tóbak einsog þeim sýnist, svolítið einsog Reykjavík á hvolfi. En eftir að fór að halla undir fæti hjá fíkniefnasölum Kristjaníu færðu ýmis gengi sig upp á skaftið og svo fór á endanum að dróst til átaka, með þessum afleiðingum. Allir þeir sem urðu fyrir skoti voru saklausir vegfarendur; fíkniefnasalar Kristjaníu áttu þar engan hlut að máli.

Árið 2007 mætti svo lögreglan ásamt jarðýtum í þeim tilgangi að rífa niður gamla byggingu í Kristjaníu. Því var mætt með hörku og á endanum þurfti lögreglan að láta undan síga. Skömmu eftir heimsókn mína þangað árið 2009 var handsprengju varpað, að því er virðist að tilefnislausu, inn um gluggann á vertshúsi í Kristjaníu, og sá eini sem slasaðist lifði af, að talið er, sökum þess eins að hann náði að skýla sér á bakvið borðið sem hann sat við, með því að varpa því framfyrir sig. Þetta eru þær sögur sem við heyrum gjarnan af Kristjaníu, enda eru þetta þær sögur sem einar rata í fjölmiðla. Breiðholtið ratar heldur aldrei í fjölmiðla nema þar hafi átt sér stað skotárás eða sveðjuslagur. Almennt hafa þó flestir fegurri ímynd af Breiðholtinu en Kristjaníu, og það má velta fyrir sér hvers vegna það sé – ef ekki þá fyrir linnulausan áróður gegn fríríkinu síðastliðin 40 ár. Kaldhæðnin í málinu er vitaskuld sú að helstu vandamál Kristjaníu eru ekki sprottin upp þar, heldur innan Kaupmannahafnar, nánar tiltekið á Nørrebro. Og meðan glæpamenn þaðan halda áfram að þjarma að íbúum Kristjaníu er klént að klína vandamálunum á Kristjaníu. Kristjanía er ekki vandamálið – það er Kaupmannahöfn sem er vandamálið.

Dómurinn og kröfurnar
Föstudaginn 18. febrúar 2011 var felldur dómur í Hæstarétti Danmerkur þess efnis að Kaupmannahöfn eigi landsvæði og byggingar Kristjaníu. Virkisveggurinn, sem nú skýlir Kristjaníu og þar áður Kaupmannahöfn, er engin vörn gegn þeim síðarnefndu núna í umsátri þeirra um Kristjaníu. Þetta gerist núna vegna þess, fremur en þrátt fyrir, að margra mati, að Kristjanía er orðin ein stærsta tekjulind ferðamannaiðnaðarins í Kaupmannahöfn – tvöfalt stærri en Litla hafmeyjan. Fríríkið dregur fleira fólk til sín en Litla hafmeyjan, Nýhöfn og krúnudjásnin samanlagt, og augljóst er að nú á samdráttartímum hafa borgaryfirvöld þeim mun meiri hagsmuni af því að tryggja sér skatttekjur af starfseminni. Þar eru óbeinar tekjur af ferðamannastraumi sem munu glatast þó ekki teknar inn í reikningsdæmið, enda er erfitt að mæla hversu miklar þær eru.

Ríkisráð Kristjaníu hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar dómsins, þar sem áréttað er hlutverk fríríkisins innan Kaupmannahafnar, og þær kröfur eru gerðar að samfélagsgerðin verði virt. Kröfurnar eru eftirfarandi, í lauslegri þýðingu minni:

1. Það er mikilvægt að Kristjanía klofni ekki eða einangrist. Það er ekki hægt að fjarlægja horn hér, hvað þá heilt hverfi þar, og kalla það sem eftir er Kristjaníu. Hverjum eða hverju gætum við enda fórnað? Fyrsta krafan er þar af leiðandi að Kristjanía skuli varðveitt í sinni núverandi heild.

2. Vegna miðlægrar stöðu og náttúrufegurðar er hverfið eftirsótt til íbúðar. Komi fasteignir til tals hérna mun fjölbreytnin fara forgörðum. Í staðinn mun hér búa ríkt fólk ásamt öðru ríku fólki. Við höfum þegar næg ríkramannahverfi fyrir hina fáu. Húsnæði Kristjaníu þarf að vernda gegn fjármagnsvæðingu.

3. Það eru ekki bankabækur eða ævilangir biðlistar sem skulu ákvarða hver fær að flytja hingað. Í Kristjaníu geta allir sótt um laust húsnæði á jafnræðisgrundvelli. Þá eru það íbúarnir sem saman leggja mat á hvaða umsækjandi hæfir best húsnæðinu. Það er að sjálfsögðu á hreinu að Kristjanía skal viðhalda fjölbreyttri íbúasamsetningu, og þar af leiðandi verður ekki undan því vikist að Kristjanía skal halda eftir réttinum til stjórnar leigumarkaðarins.

4. Hið sama gildir um skipulag Kristjaníu, fyrirtækjastjórn, stofnanir og menningarlíf, íbúalýðræði og margt fleira, sem þróast hefur sjálfstætt í fríríkinu. Nýsköpun og hið óhefðbundna þrífst hérna vegna þess að hér eru margir aðrir möguleikar til tjáningar. Hverfi það, þá er Kristjanía þegar horfin. Það er því algjörlega nauðsynlegt að Kristjanía haldi sjálfstjórn.

5. Það leiðir af sjálfu að einkenni Kristjaníu er hennar sérstaka stjórnskipan, þar sem hver tillaga er ákveðin með fullu samþykki íbúa. Hið beina íbúalýðræði stendur í beinu samhengi með sjálfstjórninni, sem stuðlar að virku lýðræði og beinni þátttöku íbúa. Þegar allt er ákveðið einróma býr einstaklingurinn við vernd gegn meirihlutanum og allir neyðast til að hugsa í heildstæðum lausnum í stað beinna meirihluta.

6. Sjötta og síðasta atriðið er að Kristjanía skal standa vörð um jafnræðislýðræðið.

Framhaldið
Hvað gerist næst er engum einum ljóst fremur en þeim næsta. Borgin samþykkti að selja fríríkinu eina byggingu fyrir eina krónu, andvirði 21.43 íslenskra króna á núverandi gengi, og verið er að vinna að því nú að koma af stað söfnun meðal íbúa og velunnara svo unnt verði að kaupa upp allt fríríkið af borginni. Niðurstaða dómsins er þó skýr hvað það varðar að fasteignaeigandi, í þessu tilviki fríríkið Kristjanía, sjái hún sér fært að kaupa sjálfa sig, mun greiða fasteignagjöld af því húsnæði sem hún eignast og því landsvæði sem húsnæðið stendur á, svo leiguverð mun óhjákvæmilega hækka frá hinum hefðbundnu 1800 krónum á mánuði – og það gæti reynst mörgum Kristjönum erfitt að mæta aukinni greiðslubyrði.

Þetta er þó það eina sem dómurinn segir: að eignarréttur á landsvæði og fasteignum tilheyri Kaupmannahafnarstifti, svo fjárhagslegur ávinningur af hálfu borgarinar verður aldrei mikill, sama þótt hún kreisti úr fríríkinu hvern einasta aur sem hún getur. Spurningin er því sú hvort minni hagsmunir séu teknir fram yfir hina meiri, þar sem meiri fjármunir munu óhjákvæmilega glatast verði sjálfstjórn hrifsuð af Kristjönum. Vonir standa til að unnt verði að kaupa það húsnæði sem þegar stendur innan fríríkisins, en þar sem landið er nú opinberlega í eigu borgarinnar er henni í lófa lagið að nýta sér rétt sinn hvenær sem henni sýnist til að negla niður einsog örfáar byggingar og reisa þar hótel eða hvað sem löngunin stendur til. Þótt vonin lifi í hjörtum þeirra eittþúsund manneskja sem búa í Kristjaníu liggur þó nokkuð ljóst fyrir að landsvæðið sjálft er afar dýrmætt, og að hafi borgaryfirvöld ekki svifist einskis hingað til í því markmiði sínu að endurheimta það, þá muni þau gera það senn. Og höggið verður þungt. Ekki aðeins fyrir Kristjaníu, heldur Kaupmannahöfn einnig.

Kristjanía hefur fyrir löngu aflað sér tilveruréttar, og ekki er til ein einasta ferðahandbók sem ekki nefnir hana sem sérlega áhugavert kennileiti „í Kaupmannahöfn“. Þar eru veitingastaðir sem hafa mánaðarlangan biðlista eftir borði, og hafa haft síðastliðin 20 ár, til að mynda Spiseloppen – einn þekktasti, og að sögn besti, veitingastaður í Danmörku. Margir ferðamenn koma þangað gagnvert til að sjá fólk reykja hass úti á götu (eða kaupa sér sjálfir) og verða ekki fyrir vonbrigðum. Svo setjast þeir inn á Woodstock og drekka heimabruggaðan Kristjaníubjór og ræða við skringilegt heimafólkið. Þar er súpueldhús á aðfangadag þar sem allir eru velkomnir, sama hvort þeir eru ríkir eða fátækir, og það kostar ekki krónu. Kristjanía liggur auk þess steinsnar frá þinghúsinu, Kristjánsborg, svo hún er í alfaraleið frá Strikinu. Það tekur ekki nema 10 mínútur að ganga þangað frá Amagertorgi. Það er nákvæmlega þetta, þetta sérstæða fríríki, sem ferðamenn jafnt sem heimafólk sækir svo gjarnan í, nokkuð sem gerir Kaupmannahöfn einstaka: tilraun til anarkísks samfélags innan skandinavísks „velferðarríkis“, sem virkað hefur í 40 ár, ein stærsta tekjulind ferðamannaiðnaðar Kaupmannahafnar – vilji maður ræða peninga í þessu samhengi – nokkuð sem allir ættu að geta verið stoltir af.

Leiðarlok – nema við veljum annað
Það er merkileg tilhugsun að árið sem ég fæddist var lýðveldið Ísland jafngamalt og Kristjanía er nú. Þegar ég ferðaðist einu sinni sem svo oft áður til Kaupmannahafnar, í lok janúar 2009, og gekk út af neðanjarðarlestarstöðinni við Kristjánshöfn spurði ég vegfarendur hvort þeir gætu vísað mér á Prinsessugötu, þar sem ég átti að dveljast. Fyrstu þrír viðmælendur mínir eða svo þóttust ekkert vita hvar gatan væri, svo ég reyndi að finna hana sjálfur, og gekk handan við hornið frá stöðinni. Þar var Prinsessugata. Ég furðaði mig á þessu þar til mér var síðar sagt að Kristjanía lægi um 400 metra í norðaustur frá húsinu mínu, við sömu götu. Þar var þá komin skýringin. Það eru einfaldlega alltof margir sem vilja ekkert af þessu vita, skammast sín, jafnvel. Sama hversu skítlega Ísland hegðar sér á alþjóðavettvangi virðast þó fáir vera til sem skammast sín fyrir það. En nú er kominn tími til að allir láti sig málið varða. Núna þurfa allir að vita af Kristjaníu, og skammast sín ekki fyrir, og sömuleiðis þurfa allir að leggja hönd á plóg svo unnt verði að bjarga því sem bjargað verður.

Til er fræg, og sumpart klisjukennd, saga af manni sem hjálpaði engum þegar nasistar útrýmdu smámsaman heilu þjóðfélagshópunum úr samfélaginu. En hann sagði aldrei neitt, vegna þess að honum fannst það ekki snerta hann. Loks þegar þeir sneru sér að honum hrópaði hann hástöfum, en þá var enginn eftir til að hjálpa honum.

Nú er tíminn til að bjarga Kristjaníu, og það krefst þátttöku núna en ekki síðar, því það verður ekkert síðar. Virkisveggurinn stóð vissulega af sér marga hildina, en hann heldur sér ekki sjálfur þegar ráðist er á hann innan frá.

– Birtist fyrst á Smugunni þann 23. febrúar 2011.

Úr hversdagslífinu

Í dag skoðaði ég elstu byggingu í Skandinavíu. Það er grafhýsi frá um 1060 undir 13. aldar klaustri í Árósum. Þaðan fór ég í dómkirkjuna til að kynna mér ærið flókna byggingarsögu hennar.

Eftir kirkjurúntinn fór ég á kaffihús og kveikti mér í pípu með sætu dönsku tóbaki. Gamall maður við hliðina á mér spurði hvort ég væri með nokkuð „sérstakt“ í henni, af því lyktin væri svo spes. Svo bætti hann við að það truflaði hann ekki neitt ef svo væri, hann spyrði bara fyrir forvitnissakir.

Síðar um daginn var ég staddur á hamborgarastað. Hálfógeðfelldur maður sem sat við hliðina á mér bað afgreiðsludömuna um sogrör. Svo fylgdist ég með honum í hryllingi lyfta brauðinu af hamborgaranum með rörið í viðbragðsstöðu. Ég hélt hann ætlaði sér að sjúga ostinn ofan af. En sem betur fer vildi hann bara plokka grænmetið af.

Tækifæri til breytinga?

Nú þykir ýmsum sem blikur séu á lofti í dönskum stjórnmálum og að sá möguleiki sé nú fyrir hendi að vinstristjórn verði mynduð að kosningum loknum. Búist er við því að Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra, boði senn til kosninga og að þær verði haldnar í vor fremur en síðar á árinu, sem jafnframt væri taktískt besta útkoman fyrir laskaða ríkisstjórnina sem vandséð er hvort lifað gæti fram á haust.

Einsog ég hef getið í fyrri pistlum mínum samanstendur ríkisstjórnin af Venstre og Konservative Folkeparti, með Dansk Folkeparti sem hækju – sem aftur hafa óspart nýtt sér oddasæti sitt til að troða ýmsum umdeildum málum gegnum þingið. Eftirmaður Lene Espersen í formannssæti Konservative, Lars Barfoed, lýsti hinsvegar nýverið yfir að flokkurinn myndi ekki undir nokkrum kringumstæðum starfa með DF að loknum kosningum. Í sama streng tók Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra og formaður Venstre, og bætti við að hann væri í engum vafa um að stjórnin stæði eftir sem áður sterk eftir kosningar án stuðnings DF.

Nú hefur Løkke hingað til ekki verið reyndur að mikilli athyglisgáfu, nema þess þá heldur að um innihaldslaust skrum sé að ræða. Fólk getur sjálft gert upp við sig hvor möguleikinn er líklegri, en hitt er dagljóst að þessi draumaríkisstjórn þeirra nafna mun ekki líta dagsins ljós einsog staðan er orðin.

Þótt áreiðanlega megi rekja lengri aðdraganda að tilvistarkreppu ríkisstjórnarinnar mætti segja að vandræðin hafi hafist þegar fyrrum flokksformaður Konservative, Lene Espersen, neyddist til að biðjast afsökunar á því að hafa tekið fjölskyldufrí á Mallorca framyfir fund með ráðherrum Bandaríkjanna, Kanada, Grænlands og Rússlands síðastliðið sumar, þar sem rædd var framtíð, landhelgi og skipting á því hafsvæði sem nú er að opnast í norðurheimskauti – málefni sem skiptir Grænland og þar með Danmörku gríðarlegu máli, ekki síst vegna olíuhagsmuna.

Ekki leið á löngu áður en spjótin beindust aftur að Espersen fyrir að hafa blákalt logið að þinginu til að breiða yfir grímulausa spillingu forvera síns í embætti heilbrigðisráðherra, Lars nokkurs Løkke, núverandi forsætisráðherra. Løkke, sem aðeins örfáum mánuðum áður hafði varið Espersen gagnrýni, lýsti þá yfir að sér þætti Espersen bera skyldu til að biðja þingið afsökunar – þótt ekki væri þetta smámál nú afsagnarsök. Þegjandi og hljóðalaust tók hún upp hanskann fyrir Løkke, afsakaði sig að endingu fyrir þinginu og lét gera sig að blóraböggli í einu stærsta spillingarmáli Danmerkur á síðasta áratug.

Þrautagöngu Lene Espersen var þó ekki lokið. Í desemberlok kallaði Løkke hana á fund án samráðs við þingflokkana þar sem þau sættust á efnisatriði frumvarps hans um afnám eftirlauna og hækkun lífeyrisaldurs. Þingflokkur Konservative varð snarhoppandi brjálaður þar sem frumvarpið, sem í fyrsta lagið samrýmist ekki stefnu flokksins að þeirra sögn (um það má efast), var í öðru lagi samþykkt án samráðs við samstarfsflokkinn af formanni sem í þriðja lagi hafði ekkert umboð frá sínu baklandi. Afsagnar hennar var krafist, og því varð hún við. Þannig tókst Løkke að spila á Espersen einsog hörpu trekk í trekk í glæsilega fléttuðum spuna til að dreifa athyglinni frá eigin flokki yfir á samstarfsflokkinn; meðan ófá hneykslismál hafa skekið Konservative undanfarið ár ætlar Venstre að komast undan vetri með nokkuð hreinan skjöld, jafntíðis því að þeirra umdeildustu mál ætla að verða að veruleika. Stríðsyfirlýsing verkalýðshreyfingarinnar á hendur Løkke vegna eftirlaunafrumvarpsins virðist hafa koðnað niður í fæðingu, og það er von hans að sú gagnrýni sem hann verður fyrir vegna þess muni verða gleymd þegar líður að kosningum.

Nýr flokksformaður Konservative, Lars Barfoed, er aftur hæstánægðursjálfsagt með sína stöðu við hásæti nafna síns – en hann á eftir að vinna sér inn traust samflokksmanna sinna sem margir hverjir eru æfir, svo bakland formannsins er eftir sem áður óljóst. Þeirri atburðarás sem nú hefur verið hrint í gang verður nefnilega ekki auðveldlega beint inn á beinni brautir. Nýverið varð þingflokkur Konservativetil dæmis allt í einu einhuga um að andmæla harðneskju stigakerfisins sem Venstre leiddi í lög og vill nú breyta því svo þúsundum verði ekki vísað úr landi að ósekju, á „ómanneskjulegum grundvelli“ einsog það var orðað. Venstre undra sig á gagnrýninni og harðneita að breyta kerfinu, jafnvel þótt það þýði að fólki sem búið hefur í Danmörku í áraraðir verði nú gert að yfirgefa landið hið snarasta.

Meðan ljóst er að samstarfsflokkur Venstre styður nú ekki tvö umfangsmestu málefni ríkisstjórnarinnar á þessum vetri að óbreyttu, hugsa vinstriflokkarnir sér gott til glóðarinnar. Sosialistisk Folkeparti og Socialdemokraterne eru þegar farin að gera með sér málefnaskrá og Enhedslisten fylgir þeim eftir með nauðsynlegu aðhaldi. Á feminískum grundvelli hyggjast SF og S til að mynda leggja bann við vændi og nektardansstöðum, einnig þar sem þeim þykir sýnt að núverandi löggjöf sé öll á kostnað kvenna í neyð og geri þar með ekkert til að draga úr vandamálinu. Þá hafa flokkarnir kynnt tillögur sínar í skattamálum, sem Enhedslisten krefst breytinga á ef koma eigi til stuðnings þeirra á þingi. Þá hugsar hinn kaldhæðnislega nefndi hægri-við-miðjuflokkur Radikale Venstre sér gott til glóðarinnar einnig og gerir nú hosur sínar grænar fyrir Sósíaldemókrötum sérstaklega.

Ef við treystum stjórnmálamönnum fyrir eigin afstöðu mætti draga upp myndina af pólitíska landslaginu þannig, einsog sakir standa, að aðeins einn möguleiki sé á hægristjórn eftir kosningar: draumastjórn Larsanna tveggja, Konservative Folkeparti og Venstre. Sú stjórn verður þó áreiðanlega aldrei mynduð nema með stuðningi eða aðild Dansk Folkeparti, eða flokka á borð við Radikale Venstre sem gætu í anda slíkra framsóknarflokka vel sveiflast langt inn á hægri vænginn. Möguleikar á stjórnarmyndun á vinstri vængnum eru fleiri: Socialdemokraterne og Socialistisk Folkeparti, með stuðningi eða aðild Enhedslisten annarsvegar, eða Radikale Venstre hinsvegar – þar sem fyrrnefndi neitar að starfa með síðarnefnda. Þá neita allir vinstriflokkarnir sömuleiðis að starfa með DF. Auk þessa benda sumir á hina ýmsu smáflokka sem mögulegar hækjur, en það held ég að fáum muni lítast sá kostur vel að mynda veikburða fjölflokkastjórn.

Þótt blikur séu nú á lofti og vel megi hugsa sér að samstarf náist á vinstri vængnum eru þó enn margir sem hrista hausinn yfir bjartsýninni. Hafi núverandi stjórnarflokkar þá möguleika eina að gefa eftir eða halda völdum með hjálp nasistanna í Dansk Folkeparti, þá muni þeir að sjálfsögðu svíkja loforðið og hoppa í sæng með nasistunum. Það kann því sitthvað að vera til í þeim orðum Piu Kjærsgaard, formanni DF, þegar hún aðspurð hleypti í brýn og svaraði því til að það væri ekki undir stjórnarflokkunum komið hvort DF tæki þátt í ríkisstjórn eða ekki – þangað færu þau nú bara samt, hvort sem samstarfsflokkunum litist það betur eða verr!

Það sýnist mér í öllu falli munu verða tilfellið ef hér verður áfram hægristjórn við lýði að völd Piu Kjærsgaard muni færast í aukana, svo ábyrgð kjósenda er síst minni nú á þessum tímamótum en áður. Stærsti möguleikinn á vinstrivængnum kann svo aftur að verða þriggja flokka stjórn Sósíaldemókrata, SF og annaðhvort Radikale Venstre eða Enhedslisten. Enn er þó fullsnemmt að spá fyrir um framvindu mála þar sem hið pólitíska landslag er síbreytilegt milli vikna og fylgið rokkar milli stjórnarflokkanna og stjórnarandstöðu. Miklar vonir eru bundnar innan Konservative við nýjan flokksformann og standa þær helst til að hann nái að rífa upp fylgið eftir stormasamt kjörtímabil og leiti aftur í gömlu gildi flokksins – burt frá þeirri hugsjónasölu sem farið hefur fram undanfarin ár. Hann, ásamt Løkke, á þó við ramman reip að draga þar sem báðir tóku við embætti á miðju kjörtímabili, og hefur hvorugur því nokkurt umboð kjósenda flokkanna til forystu innan ríkisstjórnarinnar.

Nú fá kjósendur á hinn bóginn loksins tækifæri til að leiðrétta þann óskapnað núverandi ríkisstjórnar sem áður var danska velferðarkerfið. Enn getur brugðið til beggja vona, en enda þótt erfitt sé að segja til um hvernig fer að endingu er þó ljóst að kosningarnar í vor verða með áhugaverðasta móti, og að fréttaritari Smugunnar í Danmörku verður að sjálfsögðu með puttann á púlsinum.

Birtist fyrst á Smugunni þann 17. febrúar 2011.

Misskilningur Sölva Tryggvasonar

Á náttborðinu mínu um jólin var að finna tvær bækur eftir indverska heimspekinginn Jiddu Khrisnamurti, Fátækt Fólk eftir Tryggva Emilsson, en Lífsleikni Gillz var þar líka.

[…]

Ég skil ekki fólk sem þarf að hefja sig yfir það sem þeim ekki líkar. Ég geri mitt og þú gerir þitt. En mitt er ekki fínna eða merkilegra.

Ég held að Sölvi Tryggvason sé eitthvað að misskilja. Gillzenegger er ekki lágmenning, og ég held að fáum detti í hug að kalla hann lágmenningu. Menn sem upphefja staðalmyndir og ýta undir kvenhatur dagsdaglega eru ekki lágmenning fyrir menningarelítu að meta á vogarskálunum sötrandi freyðivín; maður sem stingur upp á að nauðga femínistum er ekki þrepi lakari á menningarkvarðanum en sá sem stingur upp á ástarleik með kærustunni, einsog einskonar Rómeó fátæka mannsins.

Það er einfaldlega engin menning til að umlykja fábjánaskapinn og mannfyrirlitninguna sem skín gegnum orðræðu Gillzeneggers, burtséð frá því hvort hann eigi að vera paródía eða ekki – paródían virkar einfaldlega ekki vegna þess að hann er alveg jafn ekta og allir aðrir sem hugsa og tjá sig eins, hinir raunverulega hættulegu slordónar mannfélagsins, náungar einsog Jón stóri:

er það að gefa manni smá clue að kærastan sé of ung ef hún tekur nammið út úr sér og geymir á maganum á manni meðan hún gefur manni blowjob??:D

Í stað þess að hugsa krítískt smástund velur Sölvi heldur að hjóla í ímyndaða elítu sem telur sig yfir hann hafna, einsog þetta sé einhver spurning um menningu, og blandar saman raunverulegu umkvörtunarefni sínu – viðtökum bókar hans um Jónínu Benediktsdóttur – við öllu alvarlegra umræðuefni. Mætti sú bók eitthvað lakari viðtökum en slíkar bækur almennt? Ekki varð ég var við það. Og hvað þó þessi blessaða bók hafi ef til vill fengið vonda gagnrýni og selst illa, var það ekki hans val að semja við N1 um að selja hana eingöngu á bensínstöðvum án möguleika á vöruskilum? Sölvi heldur kannski að „menningarelítan“ hampi okkur örmum ljóðskáldum betur, en ef hann heldur það þá er það rangt. Ég veit ekki betur en að bókin hans hafi fengið gríðarlega athygli, svo þessar umkvartanir hans um hámenningarelítu eiga sér enga stoð í raunveruleikanum. Svo ásakar hann alla aðra en sjálfan sig um að snobba fyrir leiðindum.

Nú má Sölvi alveg kvarta einsog hann vill fyrir mér og hafa sínar skoðanir, en það að bera Gillzenegger saman við American Idol og Erp Eyvindarson er einfaldlega alveg úti í móa. Þegar hann setur Gillzenegger upp á stall með afþreyingarefni í sjónvarpi og listamanni á borð við Erp gerir hann sig sekan um að réttlæta eitthvert það alvarlegasta sálarmein sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu, og ber það saman við það sem hann sjálfur kallar „léttmeti“. Nei, Sölvi, það sem Gillzenegger stendur fyrir er alls ekkert léttmeti. Þá er nú skömminni skárra að hampa leiðindum en kvenhatri.

Íslensk tunga og börn hennar

Sem íslenskufræðingi þykja mér athyglisverð tvö þingmál sem Árni Johnsen hefur verið í forsvari fyrir undanfarnar sex vikur. Hið fyrra er þingsályktunartillaga lögð fram af fulltrúum allra flokka skömmu fyrir miðjan desember, með Árna að frummælanda,sem snýst um að stofnað verði prófessorsembætti við Háskóla Íslands kennt við Jónas Hallgrímsson „með vörn og sókn fyrir íslenska tungu að meginmarkmiði.“ Í greinargerð með tillögunni sagði Árni að „íslensk tunga sé ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni.“ Þar segir ennfremur:

Enn andar suðrið sæla af tungutaki Jónasar og það er mikilvægt að virkja þessa auðlind inn í hjartslátt þjóðarinnar í starfi og leik. Einn af mörgum möguleikum er sá spennandi kostur að Háskóli Íslands skapi rúm um borð í móðurskipinu fyrir prófessorsembætti tengt nafni Jónasar Hallgrímssonar, prófessorsembætti sem hefði það markmið að fylgja íslenskunni áfram með reisn og styrkja íslenska ljóðrækt.

Það sem stendur upp úr hér er ekki að mínu viti kreddufullur þjóðernisrembingurinn, oflátungsfullt orðalag Árna eða fábjánalega banal tilvísun í Ég bið að heilsa, heldur það að Árni virðist ekki gera sér grein fyrir viðfangsefnum málfræði. Málfræði er sú vísindagrein sem gerir samanburð á málfræði skyldra tungumála, rannsakar sögulegar málbreytingar, málfræði og málnotkun nútímamáls, sem einmitt að stærstum hluta snýst um þær málbreytingar sem við sjáum á tungumálinu á líðandi stund. Prófessorsembætti sem stuðla ætti að vernd íslenskrar tungu væri þar með embætti sem gengi gegn öllum vísindalegum vinnubrögðum og væri þ.a.l. ekki akademískt. Ennfremur er óskiljanlegt hvernig sérstakur prófessor ætti að geta styrkt íslenska ljóðrækt. Orðið sjálft, ljóðrækt, hljómar einsog týpískt rómantískt og nasjónalískt þvarg um snilli skáldsins, bara einsog flest það sem hefur verið skrifað um Jónas Hallgrímsson raunar.
Prófessorar hafa hinsvegar akademískum skyldum að gegna, sem og kennsluskyldu, og það bryti gjörsamlega í bága við faglegan heiður íslenskuskorar að hleypa einhverjum Eiði Svanberg inn í kennslustofur til að bulla sinn fasisma um að eitt megi en annað ekki. Hverslags vísindaleg vinnubrögð stúdentar ættu að læra af fordæmingu nýja þolfallsins eða „þágufallssýki“ virðist ekki skipta Árna neinu máli, og öll framtíðarþróun tungumálsins er sett til hliðar. Ég gef honum þó að slíkt embætti væri vel nefnt eftir Jónasi Hallgrímssyni og öðrum forkólfum uppvakningar þeirrar gullaldaríslensku sem einmitt var ekki töluð á 19. öld – heldur skrifuð, en aldrei töluð, á 12. öld. Hans helsti samverkamaður í þeim geira var Konráð Gíslason, og hvet ég alla sem líta upp til þeirra kumpána til að prufa að lesa bréf Konráðs til Jónasar. Þau eru fullkomlega óskiljanleg þeim sem ekki þekkir 19. aldar íslensku, latínu og dönsku. Meiri málverndin á þeim bænum.
Þá að hinu atriðinu, sem er frumvarp Árna og Sigmundar Ernis Rúnarssonar þess efnis að Madina Salamova, sem til stendur að vísa frá Noregi, verði veittur íslenskur ríkisborgararéttur. Hluti af rökstuðningnum er sá að Madina tali svo ægilega góða norsku þrátt fyrir að vera útlendingur – enda þótt fram komi í sama þingskjali að hún hafi búið í Noregi frá blautu barnsbeini – og að hún hafi „mótast fyrst og fremst af siðum norræns samfélags“, sem væntanlega þýðir að hún er ekki einhver grábölvaður múslimi heldur siðmenntuð manneskja með öll þau reiðinnar býsn af kristnum og norrænum gildum í farteskinu sem Árna eru svo hugleikin. Þá segir:

Íslendingar leggja höfuðáherslu á að verja jafnt sjálfstæði einstaklinga sem þjóða og það er mikið kappsmál fyrir Íslendinga að verja norræna samfélagið, menningu þess, tungu, drifkraft og kærleika. Mál Marie Amelie, eins og hún kallar sig, er sérstakt ef ekki einstakt og þarf að meðhöndlast sem slíkt. Hún talar einstaklega fagra norska tungu af útlendingi að vera. Íslendingar vilja leggja sérstaka áherslu á að verja norska tungu sem barn íslenskrar tungu. Íslenska tungan hefur haft þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum.

Ég veit ekki hvað þetta segir um mig sem Íslending þar sem ég legg enga sérstaka höfuðáherslu á þessi miklu kappsmál, en fyrir utan óþolandi þjóðrembuna sem þarna kemur fram, kemur Árni, auk Sigmundar Ernis, aftur upp um vanþekkingu sína á málvísindum. í fyrsta lagi er íslenska ekki norrænt móðurtungumál, það tungumál er frumnorræna og hún er fyrst og fremst varðveitt í rúnaristum. Hér er smá stikkprufa af Gallehushorninu frá því um 400 e.Kr.:

ek hlewagastir holtijaR horna tawido

Svo lík er nú sú fortunga. Á 9. öld, eftir að frumnorræna hafði þróast út í það sem Íslendingar í hroka sínum gjarnan kalla forníslensku en aðrar norrænar þjóðir kalla fornnorrænu, fluttu margir Norðmenn, auk að einhverju leyti Svía og Dana, búferlum og settust að á Englandi, Írlandi, Hjaltlandseyjum, Færeyjum, Íslandi og víðar. Þannig greindust vestnorrænu málin að og blönduðust misjafnlega mikið tungum annarra þjóðabrota, og enda þótt íslenska hafi breyst minnst allra þessara mála síðan á þjóðflutningatímunum, að talið er, þá gerir það hana ekki fremur en færeysku að neinni formóður norrænna mála. Ritöld hefst á 12. öld og má segja að málin séu enn innbyrðis læsileg um það leyti (þótt ekki þori ég að fullyrða um framburð að svo stöddu), en þegar á 13. öld hafa austnorrænu málin tekið miklum stakkaskiptum:

Úr lögum Vestgota (fornsænska):
Varþær lekære barþær, þæt skal e ugilt varæ. Varþær lekari sargaþær, þen sum með gighu gangar æller meþ fiþlu far æller bambu, þa skal kvighu taka otamæ ok fytiæ up a bæsing. Þa skal alt har af roppo rakæ ok siþæn smyria. Þa skal hanum fa sko nysmurþæ. Þa skal lekærin takæ quighuna um roppo, maþær skal til huggæ mæþ hvassi gesl. Giter han haldit, þa skal han havæ þan goþa grip ok niutæ sum hundær græs. Gitær han eigh haldit, havi ok þole þæt sum han fek, skam ok skaþæ. Bidi aldrigh hældær ræt æn huskonæ hudstrukin.
Úr skánskum lögum (forndanska):
Far man kunu ok dør han, før en hun far barn, ok sighir hun ok hænne frænder at hun ær mæþ barne, þa skal hun sitta i egen bægia þerre uskiftø tiughu uku ok til se mæþ sinum ueriændæ, ær hun æi mæþ barne ok ær þær godre kuina uitnæ til, þa skiftis egn þerræ, hus ok bolfæ ok køpe iorþ, annur iorþ gangæ til rætræ arua.

Forníslenskan sjálf er svo aftur ekki nándar nærri það lík nútímaíslensku að ekki séu lagðir undir hana tveir viðamiklir áfangar á BA stigi við íslenskuskor og annað eins á MA stigi. Enda geta Íslendingar ekki lesið handritin, einsog gjarnan er sagt – ekki án þjálfunar.
Það liggur því fyrir að norska er ekkert barn íslensku heldur öfugt ef eitthvað er, né sé ég að Íslendingar sjái sér nokkra hagsmuni í að vernda hana, enda til hvers að vernda það sem sér um sig sjálft? Íslenska hefur ennfremur ekki haft „þrek til að standa af sér alvarleg áhrif annarra tungumála á síðustu 1000 árum á sama tíma og önnur norræn tungumál hafa tekið stakkaskiptum“, einsog Árni og Sigmundur halda fram, heldur þvert á móti. Örustu breytingarskeið íslensku í seinni tíð voru 19. og 20. öld og allar líkur eru á því að sú 21. verði þeirra skæðust – rannsóknarniðurstöður félaga míns úr íslenskunni, Antons Karls Ingasonar, leiða raunar í ljós að þolfallið muni að líkindum hverfa úr íslensku á næstu 30 árum.
Því tungumáli sem talað var á Íslandi á 19. öld var aftur breytt með beinum aðgerðum og málvernd sem leitaði í klassískan uppruna ritaðrar íslensku, 12. aldar sagnir, og augljóst er með fyrrnefndri þingsályktunartillögu Árna hvað það er sem honum gengur til með þessu. Hvað varðar erlend áhrif á íslensku þarf ekki að leita lengi fanga áður en við stöndum uppi með fangið fullt. Forsendur Árna fyrir vernd íslensku jafnt sem norsku eru því algjörlega út í hött. Tungumálið er það sem fólkið talar, ekki það sem Árni vill að það tali, og tungumál taka breytingum. Þau tungumál sem ekki taka breytingum eru dauð tungumál. Ekki tala Grikkir forngrísku, eða hvað?
Að íslensk tunga sé „ankeri íslensku þjóðarinnar, lykillinn að sjálfstæðri menningu og þjóðerni“ er kannski rétt að takmörkuðu leyti, en aðeins upp að því marki sem tungumálið er frjálst, en ekki bundið í klafa einhverrar forræðishyggju sem heimtar að segja fólki til um hvernig það á að tala. Árna til ennfrekari upplýsingar má benda á að stafsetning var ekki samræmd á Íslandi fyrr en árið 1918, og langt fram eftir 20. öld skrifaði hver maður einsog honum sýndist – og það sama á við um Jónas Hallgrímsson. Það gæti Árni sjálfur séð ef hann liti við á Handritadeild Landsbókasafnsins. „Reglur“ íslenskunnar eru líka alltaf að breytast, t.a.m. þegar z var aflögð í íslensku árið 1973, nokkuð sem félagar hans á Morgunblaðinu virðast ekki fremur hafa tekið eftir en Árni.
Að því sögðu er mér ekki stætt á öðru en að tækla þessa ömurlegu þjóðernishyggju sem skín í gegnum málflutning Árna Johnsen. Þeir Sigmundur Ernir bera það upp á Norðmenn að þeim sé hjartahlýja í blóð borin, sem er eins fráleitt og móðgandi og því var ætlað að vera hrós. Þrátt fyrir meðfædda hjartahlýju eru Norðmenn þó ómanneskjulegir og ónútímalegir að vilja víkja Madinu úr landi – undir þann part get ég þó tekið. Þessi mótsagnakenndi þjóðernisstimpill fær svo yfirhalningu í lok tillögunnar þegar gefið er í skyn að Íslendingar séu betri en Norðmenn, og þeim beri að taka við Madinu, vegna þess að allar aðrar þjóðir skorti skilning á orðinu vinarþel!
Það er nú meiri bannsettur hrokinn sem vellur þarna upp, og kannski ekki skrýtið að menn líti með svo miklum yfirburðum á sjálfa sig þegar öll þeirra sjálfsmynd byggist á rangtúlkunum, misskilningi og þeirri þjóðrembu sem Fjölnismenn börðust svo heitt fyrir að heilaþvo Íslendinga með. Það skýtur skökku við að kalla aðra ónútímalega þegar maður sjálfur er geirnegldur með heilann á miðöldum sveiflandi rassgatinu í núinu.
Þá legg ég heldur til að Árni Johnsen og Sigmundur Ernir setjist aftur á skólabekk með það fyrir augum að læra málfræðina upp á nýtt. Fyrst þeim er svo tíðrætt um „íslenska tungu“ geta þeir félagar byrjað á Íslenskri tungu, fyrsta bindi af þrem. Þar kemur sitthvað fram um forsögu íslensku sem þeim, og sér í lagi Árna, virðist einstaklega illa tamt að tileinka sér. Það sakaði kannski heldur ekki ef Árni kynnti sér Íslandssöguna sjálfa upp á nýtt, svo hann sæi nú endanlega að fortíðarljóminn er eftir allt saman kannski ekkert svo glæsilegur þegar nánar er að gætt, og að Ísland er sannarlega ekki best í heimi.
– Birtist fyrst á Smugunni þann 3. febrúar 2011.

Hvað vitum við um söguna? Íslandssagan í gagnrýnu ljósi

Ég hugsa að það sé óvinsælt að endurbirta efni af Hugsandi, svo ég tengi bara héðan í grein sem ég var að birta þar:

§ Fyrsti hluti.
§ Annar hluti.

Opið er fyrir athugasemdir á báðum stöðum ef einhver vill rífast.

– Þess má geta til gamans að þessi færsla er skrifuð um borð í skipi úti á Kattegat.