Barátta mín við skrímsli

Nú þegar sumarið hálfna fer held ég að það sé ekki seinna vænna að fara að telja upp þær hremmingar sem ég hef lent í af höndum örsmárra ófreskja á því tæpa ári síðan ég flutti til Danmerkur.

Í september varð ég fyrir árás hundruða geitunga sem leituðu inn í birtuna. Þegar mér tókst að loka dyrunum út í garð þöktu þeir allan gluggann svo sást ekki út. Þeim sem komust inn slátraði ég einum á fætur öðrum. Er svo tíðindalaust um veturinn.

Síðastliðnar tvær vikur hef ég svo verið bitinn tvisvar af sömu könguló, kaldhæðnislega nokk í hásinina þar sem Akkilles fékk örina – og hef í fyrsta sinn á ævinni lagst í hernað gegn köngulóm almennt, enda trúði ég því áður að þær væru vinir mínir. Praktískir vinir til verndar gegn flugum.

Þá var ég bitinn einu sinni í andlitið af bitmýi og nú síðast var ég bitinn af skógarmítli og var öðru sinni húrrað á sjúkrahús. Í þetta skiptið var mér vísað frá svo ég fór til læknis. Honum krossbrá þegar hann sá bitfarið og sagðist ekki hætta á annað en að setja mig á kúr við lymesjúkdómi. Miðað við hraða útbreiðslu sýkingarinnar um fótinn hefur það verið það eina rétta í stöðunni. Skoði maður myndir af lymeútbrotum þá eru þau eins á mér.

Þegar ég fór frá lækninum keypti ég svonefnt safecard og fjarlægði höfuð ókindarinnar úr ristinni á mér þar sem það sat fast. Það var létt verk og löðurmannlegt, en öllu erfiðara var mér að skoða afraksturinn. Þetta eru ófrýnilegar skepnur. Ég veit ekki hvar eða hvenær ég var bitinn svo ég tók allt í gegn þegar ég kom heim. Fann þar afkvæmi þeirra veiðiköngulóa sem ég hef drepið í herberginu og sendi það til föðurhúsanna.

Annars var hér allt pöddufrjálst, svo ég hef verið bitinn á leiðinni heim frá Kaupmannahöfn á mánudaginn. Það er ósniðugt að hafa mítilshaus grafinn svo lengi ofan í ristinni, en hitt veit ég þó að skjót sýklalyfjameðferð við lymesjúkdómi ber undantekningalítið árangur. Ég hef því litlar áhyggjur og bryð mínar pancillintöflur samviskusamlega.

Það má kannski brosa að því að ég, sem varið hefur heilum vetri í rannsóknir á skrímslum, verði fyrir endurteknum árásum þeirra kvikinda sem ég óttast mest. Þær árásir hafa styrkt mig í ótta mínum, sem er kannski bara ágætt ef það er versta afleiðingin.

The truth is out there

Um daginn – lesist fyrir uþb þrem vikum eða mánuði – leiddist mér nógu mikið til að þræla mér gegnum kvikmyndina The Arrival með Charlie winning Sheen. Í miðri myndinni kynnist hann loksins aðalaukapersónunni sem áhorfandinn hafði fengið að fylgjast með inná milli. Hann neitar henni um kynlíf og svo bara sisvona er hún stungin til dauða af sporðdrekum sem földu sig undir rúmlakinu hennar.

Ef til vill liggur dulinn boðskapur þarna einhversstaðar milli línanna um hættur skyndikynna og gildi þess að spara kynlífið fyrir hjónabandið. Það hnussaði í mér. Hver tæki ekki eftir tugum sporðdreka í litlu hótelherbergi? Tveim vikum síðar, eða þar um bil, var ég bitinn af könguló í eigin herbergi. Í fótinn, rétt einsog konan í myndinni, nánar tiltekið tvisvar í hásinina.

Það sem hófst sem óskemmtileg og nokkuð sjokkerandi lífsreynsla – köngulær bíta jú fjandakornið ekki – endaði sem farsi þegar ég í Kaupmannahöfn daginn eftir var orðinn svo stokkbólginn að ég gat varla gengið og vinir mínir húrruðu mér útá Amager Hospital um miðja nótt til stífkrampasprautunar og inntöku ofnæmislyfja – dauðadrukknir, skálandi við hjúkkurnar á göngunum. Í fyrradag var ég svo bitinn aftur, í andlitið, en það var þó líkast til bitmý. Annar vinur minn var bitinn í olnbogann af ókenndri skepnu fyrir um 10 dögum og það hefur ekki jafnað sig enn.

Við heimkomu til Árósa í dag fannst mér við hæfi að opna út á svalir til að lofta út. Fyrr en varði voru komnar inn fleiri veiðiköngulær og bitmý, sem ég í nýfundinni hysteríu slátraði hverju á fætur öðru. Ég heyri þó útundan mér að fleiri köngulær ganga lausar hér um herbergið – þær eru nógu stórar til þess að hægt sé að heyra í þeim, en ég er ráðalaus til aðgerða gagnvart þeim þar sem erfitt er að ganga á hljóðið. Það verður þá bara að fara sem verða vill.

En það má ef til vill spyrja sig hvort boðskapur The Arrival hafi óvænt reynst annar en til stóð; það eru ekki geimverur sem við þurfum að óttast, einsog myndin vill gefa í skyn, heldur aðrar og hversdagslegri ógnir – geimverurnar eru duldar í myndinni, en hin raunverulegu skrímsli ekki. Það má hlæja að manneskju sem sér ekki sporðdreka í tugavís á viftunni, ljósakrónunni, vaskinum, rúminu og gólfinu í tiltölulega auðu herbergi, en í raun erum við sófaspekingarnir kannski engu skárri: við sjáum ekki ógnina í okkar nánasta umhverfi. Svo kannski mætti þrátt fyrir allt segja um þessa mynd að the truth is out there.

Eftirmáli til gamans
Í umræddri Kaupmannahafnarferð enduðu þrír á slysó með tveggja daga millibili, einn eftir köngulóarbit og hinir tveir eftir barsmíðar á Holmbladsgade, skömmu eftir að ég yfirgaf þá á Jagúarnum til að fylgja fjórða heim. Einn var handtekinn fyrir bjórstuld úr lest en var að lokum sleppt. Einn var steggjaður á Aquatónleikum í Tívolí. Einn varð óforvarendis einhleypur. Annar komst á séns. Einn varð svo óléttur komumst við að. Allt í allt fremur viðburðaríkir 12 dagar.

Konur, skrímsli og kvenskrímsli

Jöðrun er grundvallarhugtak í hinseginfræðum og femíniskum fræðum. Í bók sinni Bodies that Matter fjallar Judith Butler um jöðrun á þeim nótum (minnir mig, ég hef ekki bókina hjá mér) að hin jöðruðu markist af sjálfskilgreindu félagslegu normi, og tekur dæmi af ýmsum jöðruðum þjóðfélagshópum. Útfrá skilgreiningu Butlers má orða þetta sem svo að hvítir miðaldra karlar séu hið samfélagslega viðurkennda norm, og sem slíkir verða aðrir hópar – ekki síst konur – óeðlilegir í samanburði. Konur séu þannig jaðraðar innan feðraveldisins. Í þeim skilningi mætti segja að feminísk réttindabarátta grundvallist á að samþykkja þá jöðrun þar til hún hefur verið jöfnuð út inn að samfélagslega ásættanlegri miðju – konur samþykkja með öðrum orðum ekki að þær séu líka menn, ekki fyrren þær njóta réttinda til jafns við þá.

Þessi jöðrun felur einnig í sér einhverskonar ónáttúru. Í heterónormatífu samfélagi jaðrast hinsegin fólk gagnvart norminu og verður í augum miðjunnar að viðrinum. Útfrá sama sjónarmiði er hinsegin baráttan meðvitað „hinsegin“ þar til hinsegin fólk verður samþykkt til jafns á við aðra. Ein birtingarmynd þeirrar baráttu er Gaypride, karnivalískur fögnuður fjölbreytileika mannfólksins sem hefur upp réttinn til frjálsra ásta, manngildi óháð lífsgildum og það sem er „öðruvísi“ andspænis hinu viðurkennda – og hið viðurkennda mætti segja að sé gagnkynhneigður, miðaldra, hvítur karl í jakkafötum með háskólapróf upp á vasann. Þar með er jöðrunin staðfest til að benda á aðstöðumun milli ólíkra þjóðfélagshópa og hið hrópandi ójafnrétti sem barist er gegn. Miðjan verður ekki skilgreind án jaðarsins, og þetta er ein leið til að berjast fyrir því að jaðarinn verði færður nær miðjunni, og að á endanum verði hvorutveggja miðjunni og jaðarnum tortímt með allsherjar jafnrétti.

Útfrá svipuðum hugmyndum um óhjákvæmilega jöðrun útfrá skilgreindri miðju spretta hugtökin heimsmynd og siðmenning, einsog þau eru notuð í miðaldafræðum, nema þar er miðjunni skipt út fyrir sjálfið, og jaðrinum skipt út fyrir hugmyndina um „hinn“. Hér gengur semsé aftur hugmyndin um okkur andspænis hinum, hugmynd sem enn á sér talsmenn í nútímanum á meðal öfgahægrimanna, ekki síst nýnasista. Hér er því um að ræða tvennskonar jöðrun: Sjálfskipuð jöðrun fyrrnefndra baráttuhópa beinist frá jaðrinum inn að miðju, í viðleitni til að breyta úreldu samfélagi innan frá með því að benda á það sem skilur ólíka þjóðfélagshópa að. Sú jöðrun sem nú er nefnd til sögunnar beinist hinsvegar frá skilgreindu sjálfi út á jaðarinn, gegn hinum, í viðleitni til að viðhalda samfélagsgerðinni og sjálfsmyndinni, með því einmitt að benda á það sem skilur ólík þjóðarbrot að. „Ef þú ert ekki með okkur, þá ertu með þeim“ hefur stundum heyrst sagt í stjórnmálaumræðu samtímans, á svipaðan hátt og nasistar líktu gyðingum við rottufaraldur berandi með sér pestina.

Slíkra hugmynda finnst áhugavert merki á miðöldum. Þjóðríki voru sannarlega ekki eins rótgróin þá einsog nú og hugmyndafræði þar að lútandi var að langstærstu leyti ómótuð. Í heimsmynd miðalda finnst engu að síður mjög sterk hugmynd um heild, skilgreinda miðju, sem kalla mætti „okkur“. Í miðju hins þekkta heims stóð Jerúsalem, hin heilaga borg almáttugs Guðs, og þaðan frá í radíus breiddust aðrar óæðri byggðir úteftir kringlu heimsins. Í háaustri lá Paradís, aldingarðurinn Eden. Enda þótt mannskepnan væri að eilífu útlæg þaðan þá átti hún sér sinn stað á heimskortinu. En á jaðri heimsins, sérstaklega í hánorðri og hásuðri, fundust ófreskar þjóðir sem ekki höfðu hlotið náð Guðs.

Meðal margra vera sem finna má á heimskortum frá miðöldum, sem með raun og sanni voru skilgreindur hluti kristinnar heimsmyndar af ekki ómerkilegri kanónum en Ísidór frá Sevilla og heilögum Ágústínusi, má nefna einfótunga, höfuðlausa menn með andlit á bringunni, sjálfan andkrist í búri í Síberíu og ýmis tröll. Um þessar skepnur er gríðarmargt að segja sem því miður rúmast ekki í svo stuttum pistli sem þessum. En í ljósi þeirra hugmynda um jöðrun sem ég hef vakið máls á hér langar mig að benda á eina áhugaverða hliðstæðu við hugmyndir Judithar Butler sem finnst í ferðasögum og bókmenntum frá miðöldum: nefnilega Amazónur.

Skrímsli voru ógn sem búist var við að venjulegur ferðalangur gæti mætt á leið sinni. Drekar voru þar á meðal, auk finngálkna og þeirra skepna sem ég hef þegar minnst á. Skrímsli voru svo hversdagsleg ógn á miðöldum að bera mætti hana saman við möguleikann á sprungnu dekki á hringveginum nútildags. Meðal þessara skrímsla voru Amazónurnar. Þær skera sig fyrst og fremst úr hópi annarra skrímsla fyrir þær sakir að þær voru ekki ófreskar útlits. Hið ófreska í fari Amazónanna voru þær hugmyndir sem um þær gengu, að þær tældu karlmenn til lags við sig og rækju þá svo brott, og dræpu öll sveinbörn sem þær ólu. Þannig hefðu þær í árhundruð byggt upp heilan þjóðflokk herskárra kvenna sem bjuggu í samfélagi mæðraveldis.

Öll skrímsli lágu sannarlega við jaðar þess þekkta, og hið óþekkta er ávallt nokkuð sem óttast er á hverjum tíma fyrir sig – skrímsli eru vansköpuð börn Guðs og því að öllu leyti óæðri. Amazónurnar eru kannski sjálfar ekki skrímsli, en samfélagsgerð þeirra er ófresk; hún stendur í berhöggi við viðtekin gildi hinna réttbornu þjóða Guðs. Þá gengu þær sögur að þær limlestu sjálfar sig til þess að berjast til heimsyfirráða og sneiddu í þeim tilgangi af sér annað brjóstið svo þær gætu betur skotið af boga. Þess vegna voru þær skrímsli – þetta þótti algjörlega ótækt, og ófreskt. Svipað og það þykir ótækt nú á dögum að konur njóti réttinda til jafns við menn, miðað við efndir í öllu falli. Þetta er burtséð frá því hvort Amazónur voru í raun og sann til, en fyrir því eru hæpnar sögulegar forsendur.

Hugmynd Judithar Butler um jöðrun virðist því ekki eingöngu eiga við rök að styðjast í nútímasamfélagi, heldur má færa rök fyrir því að jöðrun hafi alltaf átt sér stað í karlmiðuðu, heterónormatífu samfélagi. Konur eru ekki álitin skrímsli lengur fyrir að berjast gegn eigin jöðrun, en konur hafa enda þurft að þjást til að ná fram þeim markmiðum sínum að vera eitthvað annað og meira en stofustáss og eldavél. Konur eru hinsvegar enn jaðarhópur í nútímasamfélagi, auk annarra ófreskra aðilja á borð við hinsegin fólk. Það er því ekki af handahófi að ég gríp til líkingar við miðaldirnar, því hvar eiginlega liggur munurinn milli kvenna, skrímsla og kvenskrímsla?

Kannski þeirri spurningu skyldi beina til þess miðaldafólks sem enn hefur ítök í vestrænu samfélagi.

Birtist fyrst á Smugunni þann 3. júní 2011.

Engin svör hafa borist

Nú, tæpum sólarhring eftir að ég sendi opið bréf til forsvarsfólks Málsvarnar, og í tölvupósti einnig, hefur mér enn ekkert svar borist við spurningum mínum. Í kjölfar umfjöllunar Smugunnar, Eyjunnar og The Reykjavík Grapevine hefur nafn mitt þó verið fjarlægt af stuðningslistanum.

Mér þykja spurningar mínar eðlilegar og sanngjarnar. Ég sé enga ástæðu fyrir þau að svara þeim ekki nema fyrir það að ég tók sérstaklega fram í bréfi mínu að ég áskildi mér rétt til að birta þau svör opinberlega. Til upprifjunar, kjósi þau að svara mér að endingu, voru spurningarnar þessar:

1. Hverjum á að afhenda þennan stuðningslista?

2. Ef ekki á að afhenda hann neinum, til hvers er hann þá?

3. Samkvæmt vefsíðunni skal hafa samband við forsvarsfólk Málsvarnar í því tilfelli að fyrirtæki vilji styrkja söfnunina. Hvers vegna eru engar upplýsingar um það hvernig maður skráir sig af undirskriftalistanum, eða hvert beina skal fyrirspurnum?

4. Hefur forsvarsfólk Málsvarnar í engu gætt að því að baktryggja sig gegn fölskum skráningum með því að krefjast staðfestingar í tölvupósti og keyra listann saman við Þjóðskrá?

5. Ef ekki, er það þá ekki verðugt umhugsunarefni eftir nýfelldan úrskurð Persónuverndar um brotalamir undirskriftalistans gegn síðasta Icesavesamningi?

6. Get ég beiðst þess að forsvarsfólk Málsvarnar aðgæti að nafn mitt verði ekki skráð aftur á listann? Mér finnst rétt og sjálfsagt að mér verði að þeirri ósk minni.

Ég vonast enn eftir viðbrögðum. Ég býst við þeim, og ég ætlast til að fá þau. Ef þessi stuðningslisti á að vera til marks um nokkuð, þá er varla til of mikils mælst að forsvarsfólk hans veiti svör við einföldum spurningum, eða hvað?

Ranglega skráður á Málsvörn – opið bréf

Vinur minn benti mér á að ég væri skráður sem stuðningsmaður Geirs Haarde á vefsíðunni malsvorn.is, mér til mikillar undrunar. Af því tilefni sendi ég forsvarsfólki vefsíðunnar, sem þó á aðeins að hafa samband við í því tilfelli að maður vilji styrkja söfnunina fjárhagslega, þessar línur nú rétt í þessu:

Halló

Ég hef verið skráður á undirskriftarlista á vefsíðunni malsvorn.is.

Á vefsíðunni kemur fram, ásamt ýmsu öðru, að þeir sem styðji réttláta málsmeðferð í máli Alþingis gegn Geir Haarde geti skráð sig á lista þeirra sem eru sama sinnis. Aðrir geta aflað málefninu fylgis með fjárstyrkjum.

Ekki kemur fram hverjum verður afhentur þessi undirskriftalisti eða í hvaða tilgangi honum verður beitt.

Þá er gefið í skyn að þeir sem ekki eru á listanum styðji ekki réttláta málsmeðferð í málinu gegn Geir, einsog það sé óháð öðru því sem kemur fram á vefsíðunni sjálfri. Undirskrift á listanum ber þvert á móti óhjákvæmilega í sér samþykki þeirra fullyrðinga að yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar sé málaferlunum andsnúinn, auk þess að gefið er í skyn að málsmeðferðinni sé ábótavant, sem jafnframt þýðir að ákæruvaldið sé starfi sínu ekki vaxið, sem felur í sér að ákæruvaldið sé með þessu að brjóta lög.

Á undirskriftalistanum kemur fram að ég búi í Árósum. Þær upplýsingar liggja hvergi á reiðum höndum samhliða kennitölunni minni. Heimili mitt einsog það er opinberlega skráð á Íslandi er einfaldlega: „í Danmörku“. Þá vekur það athygli mína að nafn mitt einsog það er gefið upp er ekki fullt nafn mitt samkvæmt þjóðskrá, heldur það nafn sem ég nota opinberlega. Það liggur því í augum uppi að upplýsingarnar hafa verið teknar af bloggsíðu minni. Hvaðan kennitalan er fengin er svo annað mál.

Með öðrum orðum skráði ég mig ekki sjálfur á undirskriftalistann, og ég vil að nafn mitt verði fjarlægt af honum. Það er ekki þarmeð sagt að ég styðji ekki réttláta málsmeðferð í máli Alþingis gegn Geir Haarde – það gerir hver einasta manneskja. En þetta er ekki í fyrsta sinn og sjálfsagt ekki það síðasta sem ég er skráður á svona lista og því opinberlega látið í té skoðanir á málefnum sem ég hef ekki, nefnilega þær sem ég nefni hér að ofan.

En fyrst ég hef núna skrifað ykkur þetta bréf vil ég spyrja eftirfarandi spurninga:

1. Hverjum á að afhenda þennan stuðningslista?

2. Ef ekki á að afhenda hann neinum, til hvers er hann þá?

3. Samkvæmt vefsíðunni skal hafa samband við forsvarsfólk Málsvarnar í því tilfelli að fyrirtæki vilji styrkja söfnunina. Hvers vegna eru engar upplýsingar um það hvernig maður skráir sig af undirskriftalistanum, eða hvert beina skal fyrirspurnum?

4. Hefur forsvarsfólk Málsvarnar í engu gætt að því að baktryggja sig gegn fölskum skráningum með því að krefjast staðfestingar í tölvupósti og keyra listann saman við Þjóðskrá?

5. Ef ekki, er það þá ekki verðugt umhugsunarefni eftir nýfelldan úrskurð Persónuverndar um brotalamir undirskriftalistans gegn síðasta Icesavesamningi?

6. Get ég beiðst þess að forsvarsfólk Málsvarnar aðgæti að nafn mitt verði ekki skráð aftur á listann? Mér finnst rétt og sjálfsagt að mér verði að þeirri ósk minni.

Ég geri ráð fyrir að ég fái greið svör við þessum spurningum og áskil mér rétt til að birta þau á áðurnefndri bloggsíðu minni.

Með vinsemd og virðingu,
Arngrímur Vídalín
Árósum.

Ég bíð spenntur eftir svari.

Uppfært:
Endurbirt á Smugunni þann 8. júní.

Eftir umfjöllun Smugunnar (sjá hér) og Eyjunnar (sjá hér) hefur nafn mitt verið fjarlægt af stuðningslistanum. Hinsvegar hafa engin svör við spurningum mínum borist frá aðstandendum, þeim Ágústi Ragnarssyni og Önnu Kristínu Traustadóttur, enda þótt bréfið hafi borist þeim persónulega.

Uppfært aftur:
The Reykjavík Grapevine hefur bæst í hóp fjölmiðla sem fjalla um málið (sjá hér).

Guðbergur er ekki að erfa neinn flugvöll

Til að byrja með er rétt að taka það fram að mér finnst umfjöllun íslenskra fjölmiðla um málefni Guðbergs Bergssonar vera bjánaleg og full af vanvirðingu. Þetta snýst ekki um peninga, og kemur heldur engum í raun við. Aðalmálið er að Guðbergur missti manninn sinn, og hann ætti að fá að vera í friði með það.

Hinsvegar get ég ekki annað en brosað út í eitt af fréttum þess efnis að hann sé að erfa flugvöllinn í Alicante. Kannski finnst Guðbergi bara svona fyndið að atast í íslenskum blaðamönnum. En með smá rannsóknarvinnu kemur eftirfarandi í ljós:

Kona Pedro Salinas, föður Jaime Salinas, sambýlismanns Guðbergs, átti land sem var tekið eignarnámi til að byggja á flugvöll eftir að hún lét lífið í borgarastyrjöldinni. Afkomendur þeirra hjóna héldu þó áfram að búa á landareigninni, sem heyrir undir flugvallarsvæðið, og búa þar enn. Lagaþræturnar snúast um hvort fjölskylda móðurinnar eða föðurins eigi réttinn að landinu.

Svo vill til að deilan um eignarréttinn snýst óhjákvæmilega um flugvallarsvæðið í heild sinni einnig. En Guðbergur á tæpast möguleika á neinu sérstöku tilkalli til þess, og ef svo fer að fjölskylda Salinas fær hluta af landinu tilbaka, þá kaupir spánska ríkisstjórnin landið hreinlega af þeim einsog um hefðbundið eignarnám sé að ræða. Svo Guðbergur er í raun að fara þangað til að afsala sér mögulegu tilkalli til þessarar jarðar.

Fæstar fjölskyldur sem sættu þjóðnýtingu Francos hafa enn fengið landareignir sínar tilbaka, og sama gildir í þessu máli. Stærsta fréttin hlýtur því að vera sú að Guðbergur er ekki skíthæll sem beitir lagaklækjum til að reka fjölskyldur á dyr þótt hann hljóti gegnum arf afskaplega vafasamt tilkall til hluta landareignarinnar. En við gátum svosem öll sagt okkur það.

Ég óska íslenskum fjölmiðlum til hamingju með árangurinn. Heimildavinna er víst ekki öllum gefin.

Skype samtal #2: Það er bannað að reykja

Af væntanlegri konsept-plötu Garðskálans: „Á bakvið hvern reyklausan mann er keðjureykjandi kona” – hluti óviðjafnanlegs þríleiks. Samið yfir Skype.

Lag: Herra Vídalín;
Texti: Herra Loðmfjörð;
Listrænn ráðgefandi: Kristján B Jónasson.

Aldrei fyrr hafa barítónarnir tveir sýnt af sér aðra eins leikgleði innan hins þrönga ramma þeirra snilldarlegu listrænu sýnar! Plata þessi er nokkuð sem enginn skal láta framhjá sér fara. Útgáfutónleikar í Hörpunni verða þann 11. september 2011. Fáir miðar eftir. Tryggið ykkur sæti!