Blæbrigði málanna

Eftir að ég fór að ferðast mikið um Norðurlöndin hef ég skemmt mér því meira yfir þeim orðum sem hafa ólíka merkingu á milli landa. Það sem er sjovt á dönsku er til dæmis gøy á norsku, sem er sama orðið og gay í ensku og hýr í íslensku. Ólíkt seinni tveim málunum er það enn notað í upphaflegri merkingu í norsku.

Uppáhaldið mitt er samt roligt í sænsku. Það tók mig tíma að átta mig á því hvers vegna Svíum þætti svona rólegt að kynnast mér og hvernig það gæti passað að metaltónleikar hefðu verið „djöfull rólegir“. Svo komst ég náttúrlega að því að það sem Svíum finnst vera roligt er það sem Íslendingum þykir skemmtilegt eða gaman, og hefur því svipaða merkingu og sjovt, sem getur hvorutveggja verið fyndið eða skemmtilegt, eða gøy, sem er það sem er hýrt eða skemmtilegt.

Semsé rólegt, skemmtilegt, fyndið og hýrt þegar grunnmerkingar fjögurra tungumála eru teknar saman. Hljómar það ekki einsog staðalmynd um einhvern þjóðfélagshóp?

Af starfi og skóla

Vatnsskarð í gærkvöld
Kom heim frá Akureyri í nótt. Við Eyja urðum veðurteppt en ákváðum þegar snjóa leysti uppi á heiðum í gærkvöld að bruna í bæinn meðan við gátum. Hef ekki gáð að því hvort fennt hafi í förin okkar aftur. Ég var svo óábyrgur að smella af mynd undir stýri svo dyggir lesendur fengju að sjá hvernig var í Vatnsskarði í gær.

Fyrir norðan fékk ég þær fréttir að ég yrði ráðinn í sumarvinnu. Sama dag bauðst mér starf hjá Rannsóknastofnun Háskóla Íslands á norðurlandi vestra, og núna í dag bauðst mér starf á Þjóðskjalasafni Íslands. Eins spennandi og það hefði verið að prófa eitthvað nýtt þá frá og með 1. júní sný ég aftur á Borgarbókasafn Reykjavíkur.

Ég læt af störfum á bókasafninu í ágústbyrjun og held á ráðstefnu í Árósum. Lungann úr ágúst hef ég til eigin þarfa og svo byrjar skólinn í september. Í dag fékk ég nefnilega líka að vita að umsókn mín um doktorsnám í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands hefði verið samþykkt. Bara allt að verða vitlaust! Svo hefur raunar enn fleira gott átt sér stað í blessuðu lífinu mínu nýverið, en meira um það síðar.

Lífið er gott.

Ruslakall á Akureyri

Þá erum við komin í vinnuferð norður. Margt sem rifjast upp fyrir mér einsog endranær þegar ég kem hingað. Til dæmis sameiginleg ást okkar Arnars æskuvinar míns á bænum. Okkur báðum fannst Akureyri langtum betri bær en Reykjavík, og dag einn höfðu hann og bekkjarbróðir hans Siggi ákveðið að gerast ruslakallar á Akureyri þegar þeir yrðu stórir, af því þeir fengju svo vel borgað. Þá yrðu þeir kóngar hér nyrðra og gætu alltaf farið í bestu sundlaugina á landinu. Þetta fannst mér gott plan.

Síðar átti Arnar raunar eftir að flytja norður en hann gerðist ekki ruslakall heldur vann hann í Slippnum og átti hæð í húsi við Ráðhústorgið. Ekki var gert ráð fyrir húsinu í næsta aðalskipulagi (komst hann að eftir að hann keypti), en hann seldi fyrir nokkrum árum og býr nú á Akranesi eftir því sem ég kemst næst.

Siggi, sem allur Laugalækjarskóli fylgdist með í hryllingi þegar hann var nærri kafnaður til dauða á eplaköku, fór eftir því er ég best veit í Verzló og síðan hef ég ekkert spurt af honum. Núna þegar báðir eru orðnir stórir hefur hvorugur unnið sem ruslakall á Akureyri. Svona breytast nú ambisjónirnar.

Sjálfur hefði ég á ýmsum tímum getað hugsað mér að flytja hingað en það er alveg úr myndinni í dag. Akureyri er kósý nokk fyrir skottúra en harðir vetur og fásinni er ekki beinlínis neitt sem ég sækist eftir. Það hefði verið öðruvísi fyrir tuttugu árum, en þegar eitt ógeðslegasta fyrirtæki Íslands er með skjöldinn sinn þar sem merki KEA sat áður er lítið sem heillar. Afi sjálfsagt hringsnýst í gröfinni. Flest annað hérna er farið sömu leið og það er einsog ekkert sé einsog það áður var, meira einsog líki af fortíð. En það er nú alltaf gott að koma hingað samt, inni á milli.

Stephen King er hetjan mín

Jim Carrey í hlutverki spennusagnakóngsins
Við vitum öll hvað í vændum er þótt enginn vilji horfast í augu við það. Fólk lýgur að sjálfu sér, leiðir hið óhjákvæmilega hjá sér, segir við sjálft sig að þetta muni fjandakornið aldrei verða – við sjálft sig, vegna þess að það vogar sér ekki einu sinni að impra á því við aðra manneskju. En það mun verða, sama hvað tautar og raular. Það er óhjákvæmilegt verði gerð mynd um Stephen King að Jim Carrey mun leika hann.

King hefur nú upp á síðkastið verið nokkuð í fjölmiðlum og nýtur aukinnar virðingar minnar fyrir það að krefjast aukinnar skattheimtu á þá efnamestu, þar með talið sjálfan sig. Þegar maður les um skattprósentuna, tuttugu og átta prósent, þá eiginlega hlær maður bara. Þetta finnst sumum alveg hræðileg píning. En Stephen King er greinilega sama sinnis og ég, enda gefur hann stoltur tuttugu og tvö prósent til viðbótar til ýmissra góðgerðarmála og til grunnþjónustunnar.

Þetta verður auðvitað hápunktur myndarinnar með Jim Carrey, sem verður einskonar Man on the Moon fyrir mainstreamið, en þá verður auðvitað svoleiðis búið um hnútana að persóna hans flytji þrumandi ræðu um skattamál í öldungadeild Bandaríkjaþings við grátur og gnístran repúblíkanatanna. Einhver frjálshyggjuplebbinn á Andríki mun misskilja myndina og skrifa um að King geti trútt um talað á sínum listamannalaunum og Davíð mun segja í leiðara Morgunblaðsins að hann hafi nú eitt sinn lesið bók eftir King og ekki fundist hún neitt sérstaklega góð, hvort þessi strákauli ætti ekki bara að halda kjafti. Titillinn verður „Nokkrir góðir dagar án Stebba kóngs“ og mun ýmsum þykja ritstjórinn sérlega ósérhlífinn í valinkunnum blammeringum sínum.

Hvað Stephen King varðar er gott að komast að því að hann sé svona mikill kommúnisti. Hann verður þá ábyggilega ekkert of leiður yfir bókinni sem ég stal eftir hann á netinu (sem ég lofa að kaupa ef mér finnst hún góð).

En já, Jim Carrey. Hann yrði sjálfsagt fínn Bjarni Ármanns ef Oliver Stone færir sig af Wall Street niður í Borgartúnið. Corey Feldman gæti þá leikið Lárus Welding. John Goodman sem Davíð (fyrst Orson Welles er dauður) og Rupert Everett er fæddur í hlutverk Bjórgólfs Thors. Brian Dennehy gæti birst örsnöggt sem Matti Jó og Nicolas Cage gæti leikið lánþega sem snappar. Held svei má þá að ég sé með eitthvað hérna. Hringi kannski í Sigurjón Sighvats til að tékka á stöðunni.

Þá er ég búinn að bulla nóg í bili milli þess sem ég hef teygað kaffi og ofurstjúppabbast í sækingum, skutli og undanlátssemi. Það er ágætt að hafa þó náð því þegar allur botn þess að ég hafði bílinn í dag féll úr síldartunnunni á fyrstu metrunum, með tilheyrandi fýlu og tímasóun. Lítið hægt að stóla á annað fólk stundum. Litla fékk að vera ein heima meðan ég keyrði þá eldri og það gladdi gamla hjartað að ekkert logaði þegar ég kom heim. Þá var hún raunar farin til vinkonu sinnar einsog ég gaf henni leyfi til svo ég fæ smá næði núna til að vorkenna sjálfum mér vegna hins sem ekki heppnaðist eins vel í dag.

Hananú, þá hringir hún dyrabjöllunni.

Um dyttinn og dattinn

Þá hef ég sótt um svo mörg sumarstörf að ég man ekki einu sinni lengur hvaða störf ég hef sótt um. Eitt hjá Borgarbókasafni, annað hjá Bókmenntafræðistofnun, og eitthvað fleira. Þrjátíu og átta í heildina. Árni Magnússon láti gott á vita.

The Blob, eða „Árás útfrymisins“.
Mikið um umsóknir þetta misserið og ráðstefnugögn. Námsumsókn, styrkumsókn, alltaf sömu meðmælendur. Það ætti að leggja af akademísku meðmælakröfuna. Það er gefið mál að allir, sama hversu mjög þeim er gefin andlega spektin, hafa að minnsta kosti tvo meðmælendur, svo það er allteins gott að sleppa þessu og spara námsmönnum það að pirra kennara sína og kollega með þessu sýknt og heilagt. Það er einmitt síðasta fólkið sem maður vill ergja með svona snatti.

Dyttumdatt á heimilinu líka. Það sem fannst í vatnslásnum sannar tilgátu mína um að yfirnáttúra geri helst vart við sig í heimahúsum. Helstu sérfræðingar Íslands í dularfræðum lögðu til þá augljósu skýringu að þetta hafi verið útfrymi líkt því sem Lára miðill smurði sig með gestum sínum til hryllings (meiri hrylling hefur handklæði hvorki fyrr né síðar vakið með fólki, hef ég fyrir satt). Hengja upp myndir og annað slíkt. Allt að gerast. Eða ekkert, eftir því hvernig litið er á það. Allt ósköp notalegt.

En þú, þarna fávitinn með svarta hundinn á Rauðarárstíg 3! Ef þú skilur aumingjans hundinn þinn aftur eftir vælandi og ráðalausan fyrir utan að mér sjáandi þá sé ég til þess að þú verðir kærður fyrir vanrækslu. Mér skilst þú sért ofboðslega góður við dýrið en ekki fannst mér nú þetta vera eftir lýsingunni. Svona gerir maður einfaldlega ekki og þú mátt vita það að hefði ég fengið að ráða værirðu að díla við lögregluna núna.