Mánaðarskipt færslusafn fyrir: maí 2009

Bless í bili

Frúin fer heim til Íslands á morgun, verður að vinna þar út næstu viku.  Engar fréttir frá Tübingen fyrr en í byrjun júní.

Gaststätte Waldhäuser Hof

Rólegheita dagur enn og aftur, sú sveimhuga í hvítasunnu fríi, starfsdagur hjá þeirri snöggu og sá skapmikli heima að vanda.  Skúrað fyrir morgunmat, setið yfir heimanámi og svo göngutúr upp að bóndabæ var það helsta sem gert var fyrir hádegið.

Eftir hádegið var hárið á ömmunni litað og svo rölt niður í Penny Markt sem er næsta matvöruverslun.

Kvöldmaturinn var snæddur á Gaststätte Waldhäuser Hof sem er veitingastaður á bóndabænum góða, Schnitzel varð fyrir valinu hjá meirihlutanum og smakkaðist allt ljómandi vel.  Sá skapmikli sofnaði ofan í diskinn og enginn gat klárað allt, þó að bóndinn og sú sveimhuga hafi staðið sig best.  Þjónustustúlkan hafði miklar áhyggjur af því að okkur hefði ekki líkað maturinn nógu vel, þar sem svo mikið varð eftir á diskunum.

Á röltinu til baka rákumst við á hjón sem eiga ítalska hryssu, geymda á bóndabænum, hryssan sú er afskaplega hænd að börnum og fengu stelpurnar að fara inn í gerðið og klappa henni.  Eigandinn ræddi við okkur fullorðna fólkið á meðan og verða vingjarnlegheitin ekki skafin af þeim Þjóðverjum sem við höfum hitt.

Þrumuveður

Í morgun vaknaði frúin um klukkan sjö við þrumuveðrið sem gekk yfir borgina.  Þar með breyttist fyrirfram áætluð dagskrá og setið var inni fram yfir hádegið.

Eftir matinn röltum við niður í bæ, hvorki íkornar né salamöndrur létu sjá sig í skóginum þennan daginn.  Stopp dagsins var á leikvellinum í gamla grasagarðinum og þaðan var farið í ísbúð, á meðan ísinn var borðaður gekk annað þrumuveður dagsins yfir.  Sú snögga varð hrædd um að borgarlækurinn myndi flæða yfir bakka sína eða við myndum lenda í hagli.

Við gengum upp að kastalanum eftir skemmtilegri leið upp stiga og inn á milli húsa.  Við kastalann átti tal við okkur kona ein, fannst krakkarnir sætir og spjallaði heilmikið.  Þegar atvinna bóndans við mannerfðafræði kom upp kallaði hún í mann sinn sem rétti okkur bækling með ritningargreinum – sá greinilega brýna þörf á því að kristna þessa útlendinga.

Eftir að hafa farið 211 þrep niður í bæ aftur og rölt inn í vestari hlutann rákumst við á mann sem ávarpaði okkur á rússnesku, hann gæti hafa verið útigangsmaður – útlitið var á þá leið.  Hann benti okkur á skemmtilega bakleið inn á milli húsa og sagðist mundu bíða við hinn endann og við skildum gefa honum þumalinn upp ef við værum ánægð en annars þumal niður.  Þessi leið var gullfalleg og karlinn fékk jákvæðan þumal.

Á leiðinni í strætó kom enn eitt þrumuveðrið og svo aftur eftir kvöldmat.  Gönguferðin okkar tók tæpa fjóra klukkutíma, svo það voru þreyttir krakkar sem lögðust til svefns í kvöld.

Sólhlíf

Morguninn var erfiður, sú snögga vildi ekki fara í leikskólann því þar væri leiðinlegt.  Það hafðist þó að koma henni af stað.  Sú sveimhuga átti að heimsækja bekkinn sinn í síðasta tímanum og svo er hún komin í ríflega tveggja vikna langt hvítasunnu frí.  Skóladagarnir hér eru 185 á ári, en dreifast öðru vísi en heima.

Í dag var heitur dagur, eftir að frúin hafði keyrt þau sem keyra þurfti, hengt út þvott og sinnt morgunverkum fór hún í heimagerða fótsnyrtingu á pallinum – það verður pottþétt endurtekið síðar.

Þegar búið var að sækja stelpur, heimanámi lokið og krakkar komin í sundföt var nýja litla laugin vígð og lukkaðist svona líka vel.

Eftir kaffið voru allir svo dasaðir eftir hitann að mynd var skellt í tækið og slakað á fyrir framan skjáinn.  Seinni partinn fóru við hjónin og keyptum sólhlíf á pallinn, svo börnin haldist við úti í sumar.

Eftir kvöldmatinn, sem snæddur var úti á palli, var farið í spurningaleik, þar sem systur voru með þýska orðabók og spurðu fullorðna fólkið um þýðingu nokkurra orða – skemmtilegt kvöld.

Sund og dauður snákur

Fyrri part dags fóru sá skapmikli og amman í göngutúr út að sveitabænum á meðan frúin skutlaði þeirri sveimhuga, hjólið var tekið með en ekki notað þar sem: „ég kann ekki að hjóla!“ varð viðkvæðið.  Hestar, kýr og býflugur voru skoðuð af miklum móð enda var liðinn hálfur sólarhringur síðan hann sá þetta síðast.

Eftir göngutúrinn var dundað úti á palli þangað til systur voru sóttar.  Heimalærdómurinn kláraðis seint og um síðir, þá var gengið niður í bæ að vinnu bóndans og þaðan í eina lokaða sundlaug og svo tekinn strætó í fínu „upphituðu“ útisundlaug borgarinnar.

Vatnið var svo kalt að varir blánuðu og krakkar skulfu sér til hita – en gaman var það, þrátt fyrir skort á sturtum, óvanalegum klefum og skrítinni aðstöðu.  Sú snögga hitti félaga af leikskólanum og foreldrarnir sáu tvo einstaklinga sem þau könnuðust við!

Þegar komið var heim að húsi sá bóndinn svo dauðan garðsnák á gangstéttinni sem börnin prófuðu að handfjatla og voru öll viss um að þora næst að halda á einum lifandi.

Kvöldsnarl var borðað utandyra upp úr klukkan átta í 20°C og logni.

Dásamlegar myndir

Gengið til hægri frá skóginum.

Gengið til hægri frá skóginum. Sá skapmikli vildi ekki taka þátt í þessari myndatöku!

Sú snögga í sólbaði, sá skapmikli farinn, sú sveimhuga að hlusta á bóndann.

Sú snögga í sólbaði, sá skapmikli farinn, sú sveimhuga að hlusta á bóndann.

Kátar mæðgur

Kátar mæðgur
Kornakur og húsið við hliðina á okkar í baksýn.

Kornakur og húsið við hliðina á okkar í baksýn.

Hinum megin eru fleiri akrar og skógar eins langt og augað eygir.

Hinum megin eru fleiri akrar og skógar eins langt og augað eygir.

Þýskar kvígur, sá skapmikli í hæfilegri fjarlægð á meðan bóndinn bíður eftir kossi.

Þýskar kvígur, sá skapmikli í hæfilegri fjarlægð á meðan bóndinn bíður eftir kossi.

Dásemdar dagur

Þegar búið var að koma þeim út úr húsi sem út áttu að fara keypti frúin litla sulllaug til að hafa úti á palli í góðu veðri, eftir gærdaginn var augljós þörfin á svoleiðis grip á heimilinu.

Heimasæturnar allar fóru að sækja þá sveimhuga í skólann og svo var gengið um Lasarett (?) hverfið í suður hluta borgarinnar, sú sveimhuga og sá skapmikli sáu fína leikvelli sem gaman var að prófa.  Þaðan var svo farið að sækja þá snöggu.

Eftir kaffi hjólaði frúin niður í bæ til að athuga með stól á reiðhjólið fyrir þann skapmikla, en hjólið er svo fínt að svoleiðis græja kemst ekki fyrir þar! Leysa verður það mál með öðrum hætti.

Amman og bóndinn voru farin að púsla þegar frúin kom heim en það tókst að rífa sig frá því mikilvæga verki og skreppa í svolítinn göngutúr um nágrennið, skóg og akra bar við augu og svo var endað við bóndabæinn þar sem kýr, kálfar og hestar voru skoðaðir, bókað borð á veitingastaðnum þar og hunang (eigin framleiðsla þeirra) keypt.  Sú snögga fór að syngja á þýsku og sú sveimhuga að búa til þýskar setningar.  Aldeilis dásemdar dagur!