Snjór

Þema þessarar viku var semsagt snjór, á föstudaginn fyrir rúmri viku fór að snjóa og það snjóaði næstum því daglega alla vikuna og nutum við góðs af því.  Kunnugir vilja meina að hér hafi verið meiri snjór þessa vikuna en elstu menn muna.  Kannski muna elstu menn ekki neitt ofsalega margt.

Á mánudaginn var farið í sleðaleit, frúin vildi endilega kaupa viðarsleða sem væri góður í alls konar færi og eru afskaplega vinsælir hérlendis – reyndar svo vinsælir að þeir voru uppseldir í öllum búðum í Tübingen og Reutlingen, sem við komumst í – og á netinu!  Reyndar átti að koma sending í Toys’R’us á þriðjudeginum.

Svo að á þriðjudeginum var rokið þangað og einum af síðasta sleðanum náð.  Á miðvikudegi var leikið með Ameríkönunum í stóru brekkunni, einnig á fimmtudeginum og þá slóst fyrrverandi nágranninn með stærri strákana í hópinn.

Á föstudeginum byrjuðu fimleikar aftur og að þeim loknum var krakkabíó í skólanum, Nemo var í boði og var það svaka mikið fjör.

Á laugardaginn var kom fyrrverandi nágranninn aftur með alla fjölskylduna og hersingin fór ásamt okkur í stóru brekkuna og svo heim í kvöldmat hér.

Á sunnudaginn var afslöppun og nákvæmlega ekkert gert allan daginn!  Það kom hláka og snjórinn fór að hverfa.

Alla vikuna fylgdumst við með fuglunum sem komu í fóðurleit til okkar, við hengdum fuglafóður á reyninn hér fyrir utan sem þeir gæddu sér á.

Flestir voru sáttir við að fara aftur í rútínuna sína, þeim skapmikla fannst að vísu ótrúlega margir þessir leikskóladagar – svona í hlutfalli við nammidagana.

Páskaferðalagið var ákveðið í vikunni – París, bóndinn er á leið til Prag á fimmtudag og við farin að taka við bókunum fyrir sumarið og vorið. 😉

Í dag, mánudag, var sund hjá þeirri sveimhuga, sú snögga æfði sig á flautu og sá skapmikli vill fá meiri snjó.