Engir gestir að heiman

jamm, ekki koma gestir til okkar að heiman í þessum mánuði – það verður víst ekki við eldgos ráðið og við hlökkum bara til að hitta þau við síðara tækifæri.

Vikan hefur annars liðið með óvanalega miklum tengslum við Íslands, höfum við hjónin ekki í annan tíma fylgst eins með fréttum að heiman síðan við komum hingað út.  Við höfum meira að segja horft á fréttirnar á RÚV oftar en ekki þessa vikuna, sem er mjög óvanalegt.

Annars hefur allt verið frekar hefðbundið, á miðvikudaginn skruppum við að vísu niður í bæ, þar var bóndamarkaður þar sem mátti kaupa hinar fínustu nærbrækur og hagkaupskirtla, auk kústa, hnífa, dúka, skæra og svo til allt annað sem þokkalegan búskap gæti vanhagað um.  Svona markaður er haldin tvisvar á ári um það leiti sem vistarbönd voru laus hér í landi.

Á laugardaginn var afmælisveisla úti í garði, yngri ameríska stelpan er orðin 7 og hélt stórskemmtilega veislu úti.

Á sunnudegi skruppum við í hjólreiðatúr með Ameríkönunum upp að bóndabæ að kíkja á kálfana, við erum viss um að þar eru líka alla vega tvö íslensk hross.  Það var yndælis blíða báða dagana um helgina, enn 17 stig nú á sunnudagskvöldi klukkan rúmlega átta!

Hér eru blómstrandi tré í öllum görðum, allt að grænka og má segja að vorið sé komið.

Næsta vika verður með afbrigðum annasöm, fundir, afmæli, augnlæknir (hjá þeirri sveimhuga – loksins, loksins) auk alls hins hefðbundna.

Ef flugmál verða komin í samt lag um næstu helgi er bóndinn að skreppa  heim á fund, fer á föstudaginn og kemur aftur á þriðjudegi – bara skottúr, rétt nóg til að kaupa lakkrís! 🙂

Annars er heilmikilli áskorun sem frúin tók í janúar að ljúka á morgun!  Frúin var mönuð á Snjáldurskinnunni – og gat ekki tekið því öðru vísi en að byrja, hefur marg oft ætlað sér að hætta þessu og nenna ekki lengur, en vegna meðfæddrar og ættgengrar þrjósku úr báðum ættum!, fyrirgefið, ákveðni – hefur ekki degi verið sleppt og klárað skal á morgun.

Þetta er líkamsræktar áskorun (sem gerir það enn skrítnara að frúin skuli halda þetta út – þekktari fyrir aðild að Antisportistafélagi heldur en hreyfingu), heitir á ensku Burpees en hefur fengið hið stutta og laggóða íslenska nafn: froskastökk með armbeygjum og hala.  Áskorunin felst í því að taka eitt stökk fyrsta daginn, tvö þann næsta og svo áfram þangað til eitt hundrað stökk eru tekin – sem frúin gerir einmitt á morgun!