Mánaðarskipt færslusafn fyrir: maí 2010

Fleiri Íslandsmyndir

Flottir frændur í Þorlákshöfn.

Flottir frændur í Þorlákshöfn.

Flottar stelpur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Kátar stelpur í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum.

Fjaran er skemmtileg.

Fjaran er skemmtileg.

Slakað á í pottinum í Vættaborgum.

Slakað á í pottinum í Vættaborgum.

Á trampolíni með frænku.

Á trampolíni með frænku.

Krakkaborðið á Evróvisionkvöldi.

Krakkaborðið á Evróvisionkvöldi.

og fullorðinsborðið.

og fullorðinsborðið.

Erfitt að ná öllum á mynd.

Erfitt að ná öllum á mynd.

Spænska lagið að byrja.

Spænska lagið að byrja.

Birtan um hálf 2 að nóttu.

Birtan um hálf 2 að nóttu.

Með vinum fyrir utan Kjarvalsstaði.

Með vinum fyrir utan Kjarvalsstaði.

Frænkur - heimsókn suður með sjó.

Frænkur - heimsókn suður með sjó.

Áfram Ísland

Áfram heldur Íslandsdvölin, á þriðjudegi brá frúin ásamt börnum undir sig betri fætinum og ók austur fyrir fjall í heimsókn til nöfnu og barna hennar.  Ákaflega skemmtilegir endurfundir og ný frænka á þeim bæ.  Þegar við komum aftur til Reykjavíkur var ein vinkona þeirrar sveimhuga sótt og skroppið í Húsdýragarðinn.

Á miðvikudegi fóru systur í heimsókn í skólann sinn, Víkurskóla, og á meðan fór frúin í heimsókn til vinkonu.  Eftir hádegið var fjöruferð með yngri börnunum.  Eftir að bóndinn kom heim var hann ásamt ömmunni og vinkonu þeirrar sveimhuga drifin í sund í Mosó þar sem hverfislaugin var í viðgerð.

Á fimmtudegi fékk sú snögga að prófa gæsluna eftir skólann, frúin heimsótti aðra vinkonu og sá nýtt barn (allt fullt af nýjum börnum hér heima og enn fleiri á leiðinni!).  Eftir skóla fóru yngri börnin í pottinn á pallinum og leiddist það ekki.  Um kvöldið fór frúin í saumó og hitti kærar vinkonur.  Bóndinn hélt sinn fyrirlestur og var þar með kominn í frí.

Á föstudeginum sinnti frúin sínu námi og vinnu á meðan bóndinn var heima og um kvöldið fóru systur í næturgistingar til vinkvenna.

Á laugardegi voru stelpur sóttar og skroppið í hádegissnarl til mágsins og fjölskyldu, smá verslað og svaka Evróvision-/kosningapartý hjá stóra bróður – hreindýrakjöt og alles, húrra fyrir Lenu! Krakkarnir gistu svo þar.

Á sunnudegi var stórátak í heimsóknum, vinir hittir í snarli á Kjarvalsstöðum, skroppið suður með sjó að hitta eina frænku og svo í pönnsur til frænda.  Kvöldmaturinn var snæddur í góðra vina hópi í Garðabæ þar sem aðeins var dustað af þýskunni í leiðinni – hún er enn á sínum stað.

Saga:

Sá skapmikli í sturtu með frúnni – veltir líkamshlutum fyrir sér, „af hverju ertu með svona?“ og bendir á brjóst frúarinnar. „Þarna fékkst þú mjólk að drekka þegar þú varst lítill.“ Með spurnarsvip á andlitinu segir hann þá „varst þú górilla og ég ungi?“

Íslandsmyndir, hestar og fleira

Fuglasafnið við Mývatn skoðað.

Fuglasafnið við Mývatn skoðað.

Í öðru húsi var bátur og veiðarfæri sem tengdapabbi gat sagt frá.

Í öðru húsi var bátur og veiðarfæri sem tengdapabbi gat sagt frá.

Fuglalífið þurfti að skoða vel.

Fuglalífið þurfti að skoða vel.

Sem og lífið í vatninu.

Sem og lífið í vatninu.

Ekki oft sem býðst tækifæri til að prófa flugvélar.

Ekki oft sem býðst tækifæri til að prófa flugvélar.

Jólasveinarnir sáust hvergi í Dimmuborgum.

Jólasveinarnir sáust hvergi í Dimmuborgum.

Borgir í Dimmuborgum seldu ís og rúgbrauð með reyktum silungi.

Borgir í Dimmuborgum seldu ís og rúgbrauð með reyktum silungi.

Goðafoss var vatnsmikill.

Goðafoss var vatnsmikill.

Þorgeirskirkja stutt frá Ljósavatni er með ákaflega fallega altaristöflu.

Þorgeirskirkja stutt frá Ljósavatni er með ákaflega fallega altaristöflu.

22. maí var hún svona.

22. maí var hún svona.

Gjóstu finnst gaman að leika við krakka.

Gjóstu finnst gaman að leika við krakka.

Og að vera með á myndum.

Og að vera með á myndum.

Sú sveimhuga á Blika.

Sú sveimhuga á Blika.

Sú snögga á Blika.

Sú snögga á Blika.

Amman á Blesa og sá skapmikli á Blika.

Amman á Blesa og sá skapmikli á Blika.

Fiskurinn búinn og verið að fara að grilla geitungabú.

Fiskurinn búinn og verið að fara að grilla geitungabú.

Gleði og sorgir á Íslandi

Á mánudaginn kom fyrrverandi nágranninn í heimsókn eftir skóla og leikskóla og miklar vangaveltur voru hvort byrja ætti að pakka niður fyrir Íslandsferðina eða ekki.

Á þriðjudegi var pakkað – frúin skaust til Holzgerlingen og sótti sér stígvél sem hún hafði pantað frá Amríkunni sem verðlaun fyrir kláruðu áskorunina, þau eru flott!

Á miðvikudegi rann stóri dagurinn upp – ekið var af stað og vélin fór í loftið nokkrum tímum síðar. 🙂  Mikil gleði þegar gengið var út í andyri Leifstöðvar þar sem amma og afi tóku á móti fjölskyldunni.  Allir borðuðu svo saman hjá stóra bróður og fjölskyldu.

Á fimmtudegi fór bóndinn í flug með krakkana norður til Akureyrar og ekki var minni gleðin þar við að hitta ömmu og afa. Frúin varð eftir í bænum, reddaði nokkrum útréttingum og hitti fólk.  Aðfararnótt fimmtudags hafði sá skapmikli sofið óvenju illa og fyrir norðan greindi Dr. Valli hann með eyrnabólgu, skapið hafði líka verið óvanalega slæmt undanfarna daga!

Á föstudegi var stuð fyrir norðan, en erfiður dagur syðra. Kistulagning og jarðarför litla Aðalsteins.  Um kvöldið flaug frúin norður í faðm fjölskyldu og vina.

Á laugardegi kom bílferð í Mývatnssveitina óvænt upp í fangið á okkur, stóra systir bóndans, hennar maður, tengdapabbi og við öll tróðumst inn í stóra jeppann og við skoðuðum fugla – bæði á vatninu og uppstoppaða.  Einnig sáum við stálfugla (flugvélar), Dimmuborgir og Þorgeirskirkju.  Um kvöldið fengum við lambakjöt í góðum félagsskap – mmmm.

Á sunnudegi heimsóttum við vini og fórum í fermingarveislu þar sem etið var á sig gat.  EKki bloggað það kvöldið vegna skorts á netsambandi.

Á mánudegi var heimsókna maraþon ásamt ör-reiðtúrum og myndatökum.  Góð dvöl á Norðurlandi var á enda og flogið aftur suður í veðurblíðuna – fiskur snæddur úti á palli í faðmi stórfjölskyldunnar.

Blessuð börnin – myndir

Stutti sonur fyrrverandi nágrannans var ekki alveg viss um hvað þessi kálfur vildi - skelfilegt að hann sleikti kerruna!

Stutti sonur fyrrverandi nágrannans var ekki alveg viss um hvað þessi kálfur vildi - skelfilegt að hann sleikti kerruna!

En svo var nú hægt að klappa honum.

En svo var nú hægt að klappa honum.

Kýrnar voru líka skoðaðar.

Kýrnar voru líka skoðaðar.

EKKI ævintýralegur leikvöllur!

EKKI ævintýralegur leikvöllur!

Pylsur og sykurpúðar að ylja sér - frábær aðstaða.

Pylsur og sykurpúðar að ylja sér - frábær aðstaða.

Á bak við trén glittir í um 3 m háa rennibraut - aðeins ævintýralegri en hin!

Á bak við trén glittir í um 3 m háa rennibraut - aðeins ævintýralegri en hin!

Aðalsteinn Lorenzo Magnússon. 18.09.07-12.03.10. Blessuð sé minning hans.

Aðalsteinn Lorenzo Magnússon. 18.09.07-12.03.10. Blessuð sé minning hans.

Blessuð börnin

Þetta var skrítin vika. Á mánudaginn fór frúin í útréttingar og sótti þann skapmikla á bíl, á heimleiðinni hringdi fyrrverandi nágranninn og þurfti að koma öðrum tvíburanum á sjúkrahús.  Hún var í vandræðum með yngsta soninn því ekki náðist í bónda hennar.  Frúin skaust því í næsta bæ til að passa og var þar fram á kvöld.  Hér heima bjargaði ameríska vinkonan og bóndinn málunum fram yfir háttatíma.

Á þriðjudegi vorum við hér heima, leikfimi hjá þeirri sveimhuga en svalt úti og dundað og leikið inni.  Í skólanum hjá stelpunum byrjaði þemavinna sem stendur fram að fríi, unnið er út frá HM í fótbolta á eins fjölbreyttan máta og hægt er, matur, menning og fleira hjá þátttakenda þjóðunum.

Á miðvikudegi var sá stutti sóttur aftur og frúin fór með fjögur börn yfir í næsta bæ frameftir.  Það kvöld bárust okkur óskaplega sorglegar og sárar fréttir af Íslandi.

Á fimmtudegi – uppstigningardegi (Kristi himmelsfart) er frídagur hér, sá stutti var sóttur fyrir allar aldir og dvaldi hér lungann úr deginum.  Bróðirinn var allur að braggast á sjúkrahúsinu og farið að sjá fyrir endann á þeirri dvöl.  Við fórum í snarl til vinnufélaga bóndans þar sem mikið var skrafað og snætt.

Á föstudegi var sá stutti sóttur í síðasta sinn, fyrir allar aldir.  Frídagur í skólanum og sá skapmikli fékk frí í leikskólanum.  Eftir labb um hverfið, skógargöngu og leikvallarheimsókn fórum við heim með þann stutta þar sem sjúklingurinn kom alheill heim.  Mikið gott hvað það gekk vel.

Á laugardeginum fórum við á flóamarkað og í verslanir, dundað inni í svölu vorveðrinu.

Á sunnudegi skruppum við með fyrrverandi nágrannanum og tveimur sonum upp í Albana. Ætluðum að heimsækja ævintýralegan leikvöll þar sem hægt væri að klappa dýrum.  Eitthvað lítið var um merkingar á þessu svæði og ókum við upp að veitingastað þar sem sitt lítið af dýrum voru – auk óskaplega lítið ævintýralegs leikvallar!  Við stoppuðum þar dágóða stund, þarna hafði átt að vera grillaðstaða líka sem hvergi fannst.

Eftir að hafa spurst aðeins fyrir fórum við á annan stað til að komast í grill, þegar við gengum niður að því svæði missti sú snögga andlitið – því þar var ævintýralegi leikvöllurinn í allri sinni dýrð! Auk einhverra dýra og frábærrar grillaðstöðu.  Dvöldum við þar fram eftir degi og gúffuðum í okkur nestið, krakkarnir hömuðust og léku sér.

Nú styttist aldeilis í heimferð – á miðvikudaginn þarf Eyjafjallajökull vinsamlegast að haga sér almennilega!

Zwiefalten og fleiri myndir

Sá skapmikli liðtækur við heimilisstörfin.

Sá skapmikli liðtækur við heimilisstörfin.

Í vikunni barst sumargjöf frá Íslandi, amman búin að prjóna kjóla.

Í vikunni barst sumargjöf frá Íslandi, amman búin að prjóna kjóla.

Þeir eru svo þægilegir að sæta þurfti lagi að þvo þá að kvöldi til - ekki hefur verið hægt að nota annan fatnað síðan.

Þeir eru svo þægilegir að sæta þurfti lagi að þvo þá að kvöldi til - ekki hefur verið hægt að nota annan fatnað síðan.

Gaman úti í rigningunni.

Gaman úti í rigningunni.

Freistandi gosbrunnur fyrir utan klausturvegginn.

Freistandi gosbrunnur fyrir utan klausturvegginn.

Gengið inn í dýrðina.

Gengið inn í dýrðina.

Séð inn kirkjuskipið.

Séð inn kirkjuskipið.

Hliðaraltari.

Hliðaraltari.

María Mey við háaltarið.

María Mey við háaltarið.

Fyrsta "Pic-nik" þessa sumars, við Wimsenerhöhle.

Fyrsta "Pic-nik" þessa sumars, við Wimsenerhöhle.

Skilti á Latínu við hellismunann.

Skilti á Latínu við hellismunann.

Hellirinn var lýstur upp með örfáum rafljósum og mörgum kertum.

Hellirinn var lýstur upp með örfáum rafljósum og mörgum kertum.

Maístöng úr einu af litlu þorpunum.

Maístöng í einu af litlu þorpunum.

Rigningarvika

Ekki stóð vorblíðan lengi, þessa vikuna hefur rignt á hverjum degi og verið frekar svalt – eiginlega kalt suma morgnana, en það er víst að breytast. 🙂

Á mánudaginn gekk allt sinn vanagang, nema hvað óvanalega lítið heimanám var hjá þeirri sveimhuga.

Á þriðjudegi skrapp öll fjölskyldan saman í matvörubúð, nokkuð sem gerist varla – og við rifjuðum upp hvers vegna það er. 🙂

Á miðvikudegi fór frúin við fjórða mann í heimsókn til fyrrverandi nágrannans sem er loksins komin heim aftur eftir lengda dvöl á klakanum og voru það ljúfir endurfundir.

Á fimmtudegi var þvílík ausandi rigning að þegar frúin og sá skapmikli komu heim úr leikskólanum (sú snögga ákvað að bíða ein heima og læra á meðan) voru þau bæði blaut inn úr öllu!  Krakkarnir fóru samt út að leika seinnipartinn, vel gölluð og skemmtu sér konunglega að hoppa í pollum og sulla.

Á föstudegi voru fimleikar og sund eins og vanalega – bóndinn grillaði í fyrsta sinn þetta vorið og voru Döner spjótin ljúffeng.

Á laugardegi skrapp fjölskyldan í smá skoðunarferð í yndælis veðri, fyrsta stopp var í Zwiefalten, þar er bruggaður klausturbjór, en bærinn er ekki síður þekktur fyrir hina ægifögru barrokk kirkju sem þar er.  Í sem stystu máli voru allir fjölskyldumeðlimir orðlausir yfir fegurðinni þar inni – meira að segja sá skapmikli varð þögull!  Að vísu var svo kalt þar inni að hann ásamt þeirri snöggu fóru út á undan til að ylja sér.

Eftir að hafa rölt um fyrrverandi klausturgarða (núverandi geðspítala) ókum við upp að helli sem Wimsenerhöhle heitir.  Það er frekar lítill hellir – alla vega sá hluti sem hinn almenni ferðamaður getur séð, en hann er fullur af vatni og þarf að fara inn í hann á báti.  Það er víst hægt að kafa þar, dýptin er um 60 metrar, en það er mjög hættulegt og er sjaldan gert.  Í hellinum er óskaplega tært vatn og þar þrífst ekkert líf, fyrir utan smá mosa við rafljósin í loftinu.  Í boði var ókeypis minjagripur og þurfti ekkert annað að gera en að  reisa sig upp á réttum stað til að taka með heim fyrirmyndar kúlu á hausnum!

Þaðan ókum við að bóndabæ, Loretto.  Þar er framleiddur geitaostur og eitthvað fleira, geiturnar voru ekki heima en lyktin var það. Leikvöllurinn var skemmtilegur og bóndinn kom heim með geitaost.

Í litlu þorpunum í Ölbunum mátti víða sjá maístangir, það eru jólatré, negld á stóra trjáboli, skreytt með merkjum þeirra iðnstétta sem eru hvað algengust í héraðinu og reist á 1. maí.  Stöng þessi stendur svo eitthvað fram eftir sumri, svolítið misjafnt hversu lengi.

Í dag, sunnudag, var alþjóðlegt hádegissnarl hér í kjallaranum.  Allir gestir komu færandi hendi og var margt ljúffengt í boði.  Mikið var spjallað og skipst á upplýsingum.  Um kaffileitið komu svo þau íslensk/þýsk/amerísku – frúin og sú íslensk/þýska eru víst fimmenningar – alveg náskyldar! Gaman var að hitta þau aftur enda langt síðan við höfum haft færi á að spjalla.

Næsta vika verður stutt í skólanum, uppstigningardagur og starfsdagur á föstudeginum í skólanum.

Ekki nema 10 dagar í Íslandsferð og spennan eykst.

Gleraugu.

Eplatré upp við engi í fullum blóma.

Eplatré upp við engi í fullum blóma.

Loksins búin að fá gleraugun.

Loksins búin að fá gleraugun.

Kapellan í Lichtenstein skoðuð í gegnum gluggana.

Kapellan í Lichtenstein skoðuð í gegnum gluggana.

Á fimmtudagsmorgni var sá skapmikli kominn lang leiðina framúr áður en hann vaknaði.

Á fimmtudagsmorgni var sá skapmikli kominn langleiðina framúr áður en hann var vakinn.

Komnar út í körtutjörnina.

Komnar út í körtutjörnina.

Körturnar skoðaðar af miklum móð.

Körturnar skoðaðar í hæfilegri fjarlægð.

Körtur skoðaðar gaumgæflega.

Körtur skoðaðar gaumgæflega.

Á froskaslóðum.

Á froskaslóðum.

Sú sveimhuga komin með froskinn í hendurnar.

Sú sveimhuga komin með froskinn í hendurnar.

Og sú snögga - eftir þó nokkra umhugsun.

Og sú snögga - eftir þó nokkra umhugsun.

Nestisstund í Wilhelma.

Nestisstund í Wilhelma.

Kalkúnninn var í dúndur stuði!

Kalkúnninn var í dúndur stuði!

Dýralíf og gleraugu

Tíminn líður – merkilegt nokk!

Á mánudaginn var skólasund hjá þeirri sveimhuga, frúin ásamt þeim skapmikla og tveimur bekkjarsystrum hjóluðu að lauginni og kom í ljós að skólastúlkurnar geta hjólað leiðina sjálfar, þar sem sá skapmikli var lengi á leiðinni, lagði ekki í að hjóla niður brekkur og komst ekki upp neinar.  Stúlkurnar voru búnar að leggja hjólunum og læsa þeim áður en frúin mætti á staðinn!

Um kvöldið fór fjölskyldan öll út að borða, þar sem þá var liðið ár síðan frúin og börnin komu hingað til lands.

Á þriðjudegi fór frúin ásamt með börnum í heimsókn til bekkjarsystur þeirrar sveimhuga (þar eru hamstrar og feikimikið Playmobil til á bænum).  Fjölskyldan er öll á leið til Íslands í vorfríinu og gat frúin skotið mömmunni skelk í bringu með sögum af álfum, huldufólki, draugum og sögum úr eigin lífi.  Þau hjónin eru samt spennt fyrir ferðinni, verða í húsbíl (seinnihlutann í maí!) og ætla að fara hringinn.

Á miðvikudegi rann loksins upp dagurinn sem sú sveimhuga var búin að bíða lengi eftir – hún fékk gleraugun sín.  Þvílík ánægja þegar þau voru sett upp.  Við fórum að skoða Lichtenstein kastala aftur, ævintýragarðinn þar við hliðina og leikvöllinn með þeim amerísku.

Á fimmtudegi eftir heimanám kom ameríski kvenpeningurinn og bauð okkur með í hjóltúr út að körtupolli í skóginum.  Það var heilmikið fjör að veiða körtur, vaða í drullupollinum og ekki síst þegar við fundum stóra froska neðar í læknum.  Stelpurnar héldu á froski, en sá skapmikli vildi ekki koma við svoleiðis ógeð.  Hann hafði orðið fyrir smá áfalli aðeins fyrr, annar litliputtinn varð óhreinn og þegar hann var að skola af honum varð honum það á að leggja hinn lófann niður – sem var drullugur um leið!  Þetta var töluvert sjokk.  Við tókum nokkar körtur með heim í krukku.

Á föstudegi var sundinu sleppt, frúin og sá skapmikli hafa verið með eitthvert leiðinda kvef og hósta undanfarna daga.  Í staðinn var leikið heimavið og heimanámið klárað.

Á laugardegi var hópferð í Wilhelma dýragarðinn, ameríska fjölskyldan hafði aldrei farið þangað og auk þeirra kom önnur lítil amerísk fjölskylda, mamma og sex ára sonur hennar.  Þar var ofsalega gaman eins og alltaf og eins og fyrr voru górilluungarnir stórskemmtilegir.

Á sunnudegi var dúllast inni við fram eftir degi, en seinnipartinn hjóluðum við til baka upp í skóg til að skila körtunum aftur í sitt rétta umhverfi.  Eftir svolítinn leik í skóginum fórum við aftur að tjörninni og þangað komu svo mæðgin sem hafa undanfarin ár, að eigin frumkvæði, séð til þess að tjörnin sé í nægilega góðu standi fyrir körturnar.

Við hjálpuðum þeim að hreinsa trjáboli úr pollinum og gera betri stíflu svo vatnsmagnið aukist hjá greyunum.  Það voru því grútskítugir krakkar sem komu heim rétt fyrir kvöldmat.

Í vikunni var mjög hlýtt alveg fram á fimmtudag, þá fór hitinn í 27 stig, heldur hefur kólnað síðan og fór ekki nema upp í 14 stig á sunnudegi.  Næsta vika á að vera frekar svöl og jafnvel einhver úrkoma.

Nú er farið að telja dagana niður í Íslandsheimsókn – 17 dagar þangað til.