Dýralíf og gleraugu

Tíminn líður – merkilegt nokk!

Á mánudaginn var skólasund hjá þeirri sveimhuga, frúin ásamt þeim skapmikla og tveimur bekkjarsystrum hjóluðu að lauginni og kom í ljós að skólastúlkurnar geta hjólað leiðina sjálfar, þar sem sá skapmikli var lengi á leiðinni, lagði ekki í að hjóla niður brekkur og komst ekki upp neinar.  Stúlkurnar voru búnar að leggja hjólunum og læsa þeim áður en frúin mætti á staðinn!

Um kvöldið fór fjölskyldan öll út að borða, þar sem þá var liðið ár síðan frúin og börnin komu hingað til lands.

Á þriðjudegi fór frúin ásamt með börnum í heimsókn til bekkjarsystur þeirrar sveimhuga (þar eru hamstrar og feikimikið Playmobil til á bænum).  Fjölskyldan er öll á leið til Íslands í vorfríinu og gat frúin skotið mömmunni skelk í bringu með sögum af álfum, huldufólki, draugum og sögum úr eigin lífi.  Þau hjónin eru samt spennt fyrir ferðinni, verða í húsbíl (seinnihlutann í maí!) og ætla að fara hringinn.

Á miðvikudegi rann loksins upp dagurinn sem sú sveimhuga var búin að bíða lengi eftir – hún fékk gleraugun sín.  Þvílík ánægja þegar þau voru sett upp.  Við fórum að skoða Lichtenstein kastala aftur, ævintýragarðinn þar við hliðina og leikvöllinn með þeim amerísku.

Á fimmtudegi eftir heimanám kom ameríski kvenpeningurinn og bauð okkur með í hjóltúr út að körtupolli í skóginum.  Það var heilmikið fjör að veiða körtur, vaða í drullupollinum og ekki síst þegar við fundum stóra froska neðar í læknum.  Stelpurnar héldu á froski, en sá skapmikli vildi ekki koma við svoleiðis ógeð.  Hann hafði orðið fyrir smá áfalli aðeins fyrr, annar litliputtinn varð óhreinn og þegar hann var að skola af honum varð honum það á að leggja hinn lófann niður – sem var drullugur um leið!  Þetta var töluvert sjokk.  Við tókum nokkar körtur með heim í krukku.

Á föstudegi var sundinu sleppt, frúin og sá skapmikli hafa verið með eitthvert leiðinda kvef og hósta undanfarna daga.  Í staðinn var leikið heimavið og heimanámið klárað.

Á laugardegi var hópferð í Wilhelma dýragarðinn, ameríska fjölskyldan hafði aldrei farið þangað og auk þeirra kom önnur lítil amerísk fjölskylda, mamma og sex ára sonur hennar.  Þar var ofsalega gaman eins og alltaf og eins og fyrr voru górilluungarnir stórskemmtilegir.

Á sunnudegi var dúllast inni við fram eftir degi, en seinnipartinn hjóluðum við til baka upp í skóg til að skila körtunum aftur í sitt rétta umhverfi.  Eftir svolítinn leik í skóginum fórum við aftur að tjörninni og þangað komu svo mæðgin sem hafa undanfarin ár, að eigin frumkvæði, séð til þess að tjörnin sé í nægilega góðu standi fyrir körturnar.

Við hjálpuðum þeim að hreinsa trjáboli úr pollinum og gera betri stíflu svo vatnsmagnið aukist hjá greyunum.  Það voru því grútskítugir krakkar sem komu heim rétt fyrir kvöldmat.

Í vikunni var mjög hlýtt alveg fram á fimmtudag, þá fór hitinn í 27 stig, heldur hefur kólnað síðan og fór ekki nema upp í 14 stig á sunnudegi.  Næsta vika á að vera frekar svöl og jafnvel einhver úrkoma.

Nú er farið að telja dagana niður í Íslandsheimsókn – 17 dagar þangað til.