Vei, vei

… það eru komir gestir – eru að vísu ekki hjá okkur eins og er, en samt.

Á mánudaginn var frjálsíþróttadagur í skólanum hjá systrunum, mjög gaman að stökkva, kasta, hlaupa og gera ýmislegt með félögunum og bónus að það var engin kennsla!  Yngri krakkarnir fóru í leikfimi eins og vanalega.

Á þriðjudegi var skóli og leikskóli ásamt með leikfimi þeirrar sveimhuga.  Um kvöldið kom vinnufélagi bóndans frá Íslandi ásamt fjölskyldu í mat en þau eru hér um nokkurra vikna skeið.  Við röltum með þeim upp að bóndabæ og grilluðum svo pylsur/Wurst.

Á miðvikudegi stóð til að sá skapmikli færi í heimsókn til vinar síns, en sá var lasinn svo fyrrverandi nágranninn kom í heimsókn með sitt lið og við fórum á leikvöllinn í Wanne.  Um kvöldið sendi frúin svo bóndann upp í „Bierzelt“ í Waldhausen Ost þar sem hann horfði á seinni hálfleikinn á HM (Þýskaland 1 – Ghana 0) í góðum félagsskap.

Á fimmtudegi komu gestir, bróðir frúarinnar ásamt með fjölskyldu, við byrjuðum á því að þræla þeim í gönguferð upp að froskatjörn þar sem við sáum körtur og litla snáka.

Á föstudegi fór bróðirinn ásamt mágkonunni til Outlet City í Metzingen – svona til að taka staðinn út, og voru þokkalega sátt.  Seinni partinn skruppu frúin, mágkonan, og frænkan í bæinn og skoðuðu úrval nokkurra búða og kíktu á kaffihús þar sem ís var snæddur á meðan horft var út á Neckar.  Um kvöldið var hitað upp fyrir ferðalag helgarinnar með því að horfa á Söngvaseið.

Á laugardegi var ræst snemma, smurt nesti og ekið sem leið lá að kastalanum Neuschwanstein sem Lúðvík II Bæjaralandskóngur átti – hann fylgdist með byggingu þessa kastala úr öðrum kastala rétt hinum megin við lítið dalverpi!  Kastalinn var flottur – íburður og bruðl eins og við er að búast.  Þaðan fórum við í skemmtilega „Bob“ braut sem rekin er á sumrin – eða við reiknum með að hún sé mjög skemmtileg þegar maður lendir ekki á eftir þremur amrískum **** kjellingum sem þora ekki að fara hratt!  Frekar fúlt að fara eina ferð og geta ekki notið þess að fara á fulla ferð.  Eftir þessa sleðaferð ókum við til Prien am Chiemsee þar sem við áttum bókað pláss á gistiheimili og fengum okkur ágætis kínverskan kvöldverð.

Á sunnudegi var aftur ræst snemma og smurt nesti og ekið í þýsku alpana, alla leið upp að Arnarhreiðri Hitlers – við fórum að vísu aðeins inn í Austurríki og út aftur á þessari leið.  Í göngunum inn að lyftunni sem gengur upp í húsið  kom hópur syngjandi fólks á eftir okkur, við heyrðum að þau voru skandinavísk og þau sungu svolítið – svona til að taka þátt í þessu byrjaði frúin á „Vem kan segla“ og var ekki að spyrja að því, allur hópurinn tók undir.  Þau voru norsk, alls staðar að frá Noregi og þau sem við töluðum við höfðu verið í fríi á Íslandi fyrir nokkrum árum.  Útsýnið frá Arnarhreiðrinu var stórkostlegt.

Þaðan fórum við til Salzborgar og kom okkur mikið á óvart hvað bensínið var mikið ódýrara í Austurríki en í Þýskalandi, þarna munaði um 40 sentum á lítranum!

Salzborg var óskaplega falleg, við sáum nokkra gosbrunna og torg, fæðingarhús og hús sem Mozart bjó í, garða og falleg hús.  Allt skoðað á tveimur tímum!  Á leiðinni í bílinn sáum við aðeins á sjónvarpsskjá, Þýskaland var 2-0 yfir í leik við England, sem skoruðu eitt mark á meðan við vorum þarna – en við ákváðum samt að keyra bara heim.

Þegar heim á farfuglaheimili var komið löbbuðum við flest (nema mágkonan) niður að vatninu þar sem krakkarnir fóru út í það við bátahöfnina þar sem við týmdum ekki að borga okkur inn á baðsvæðið.  Hundur einn kom og lék við krakkana um stund.  Þegar við komum til baka frá M „veitingastaðnum“ um kvöldið var búið að gera tollahlið undir brú inni í bænum, þar sem ungt fólk hafði safnast saman til að fagna sigrinum og enginn komst í gegnum hópinn nema að flauta hraustlega.

Á mánudegi skildi leiðir, bróðir ásamt fjölskyldu skruppu til Vínar og koma aftur síðar í vikunni, að beiðni bóndans var gerður „smá“ krókur upp á rúma 2 klst. til að sjá tvö bæjarskilti og láta taka mynd af sér við þau (sjá myndir).

Góð vika að baki og önnur ekki síðri framundan – hér er sumarið komið með trukki, um þrjátíu stiga hiti í dag.