Eftir eina viku…

… verð ég komin í frí frá skólanum í heilan mánuð. Það verður frekar ljúft að geta lagst með tærnar upp í loft. Maður verður samt að passa að vera ekki þannig of lengi því þá rennur allt blóðið niður í haus. Ekki gott mál.

Ég er með lista af skemmtilegum hlutum til að gera eftir þessa einu viku. Langefst er að eyða tíma með fjölskyldunni minni og afburða skemmtilegu vinum mínum. Prinsinn í fjölskyldunni er líka að verða eins árs 19. desember, sem er reyndar skrýtið því það getur engan veginn verið ár síðan hann fæddist. Daginn eftir á Daði afmæli en ég ætla að borða afmælismat með honum strax daginn sem prófin klárast. Hann fær semsagt í afmælisgjöf að borða með mér, enda er ég einstaklega skemmtilegur borðfélagi, læt öðrum líða eins og þeir borði svo lítið. Það á samt kannski ekki við í þessu tilfelli, Daði er voða duglegur að borða 😉
Svo er það auðvitað allt jólastússið, einhvers staðar þarf ég að ræna jólapappírslager til að geta pakkað inn öllum þessum gjöfum sem eru hægt og rólega að fylla íbúðina mína. Á næsta ári ætti ég kannski að reyna að kaupa bara litlar jólagjafir, gefa öllum bara leikhúsmiða eða eyrnalokka, þið megið velja hvort þið viljið. Ein jólapappírsrúlla ætti að duga, kannski tvær. Ég þakka hér með sjálfri mér fyrir það að hafa ekki dottið í hug að búa til jólagjafir fyrir þessi jól. Á fyrra var ég að sauma alla Þorláksmessu og langt fram á nótt. Svo er ég líka búin að ráða mér jólakortaskrifara. Verst að hann er bara ímyndun mín svo það stendur ekkert á kortunum. Ég þarf víst að gera þetta allt sjálf.