Tveir heilir lærdómslausir dagar liðnir. Ég er samt ekki enn búin að ná því að ég þurfi ekki að læra og fæ reglulega ósjálfrátt samviskubit. En það hverfur fljótt. Ég er meira að segja búin að fá einkunn fyrir þessa mestu geðveiki sem ég hef upplifað og er mjög sátt!
Á föstudaginn borðuðum við Daði auðvitað afmælismatinn hans.. mmm… ég er enn að hugsa um þennan mat. Fullkomin nautalund á Argentínu, gerist ekki betra. Sleeeeeeeeef! Mér finnst að Daði ætti að eiga afmæli oftar. Og halda alltaf svona upp á það. Á gær yfirgaf ég svo Reykjavík, jólafríið verður svona meira alvöru þegar maður er kominn heim. Mottóið mitt sívinsæla „ég verð að geta borið allt dótið út í bíl í einni ferð“ virkaði ekki alveg. Þurfti nefnilega að flytja allar jólagjafirnar á Skagann. Fyrir utan minn venjulega farangur sem er ekkert lítill. Mér tókst að troða þessu í þrjár ferðir en ég vona samt að sem fæstir hafi séð mig á meðan á þessu stóð, þetta hefði kannski passað betur í fimm ferðir. Að minnsta kosti. Og við skulum hafa í huga að ég bý á þriðju hæð og nota ekki lyftur.
En þetta tókst og ég er komin heim. Bærinn er alltaf búinn að breytast svo mikið í hvert skipti sem ég kem, þó það líði oft bara ein vika… ég þakka bara fyrir að rata heim. Á meðan ég er búin að vera í prófalestri er til dæmis búið að opna BT, Krónuna og Subway hérna. Suss… orðið algjört Reykjavíkurúthverfi.
Ég er farin… að halda áfram að ekki-læra. Munið að vera stillt, þá fáið þið kannski pakka.