Ég hef ekki þörf fyrir að eiga mörg skópör. Að því leyti er ég væntanlega frekar afbrigðilegur kvenmaður (en ég er hins vegar með þeim mun meiri náttfataáráttu og væri til í að eiga ein náttföt fyrir hverja nótt ársins – að minnsta kosti). Þó ég vilji ekki eiga mörg skópör vil ég eiga góð skópör og það getur verið erfitt að finna þau. Á fyrsta lagi þurfa skórnir að vera númer 37 svo ég passi nú í þá. Þeir þurfa líka að vera mjúkir og þægilegir og ekki of breiðir eða víðir því ég er með svo þunnan fót. Voðalegt vandamál að finna hina fullkomnu skó. Svo er líka mjög góður kostur að maður renni ekki auðveldlega á þeim í hálku. Parið sem er í aðalnotkun þessa dagana kemst ansi nálægt fullkomnun. Ég hélt reyndar þangað til í dag að það væri alveg fullkomið. En eitt smávægilegt atriði virðist ekki vera í lagi. Og verður nú sögð sagan af því.
Upp úr hádegi í dag ákvað ég að leggja af stað heim í seinni hluta „jólafrís“ eftir þriggja daga Reykjavíkurdvöl. Ég raðaði vandlega á mig farangrinum; lítilli ferðatösku, tveimur pokum og kápu. Rögnvaldur eðalkaggi beið stilltur og prúður fyrir utan Skerjagarð og ég skokkaði með allt dótið í áttina til hans. Um leið og ég nálgaðist skottið ákvað lítill og ljótur hálkublettur að birtast fyrir aftan bílinn. Og Dagbjört flaug upp í loftið. Skórnir fá mínusstig fyrir að hafa ekki höndlað þessar aðstæður. Þar sem ég var með mikið í höndunum gat ég ekki borið þær almennilega fyrir mig og lendingin var ekkert sérstaklega mjúk. Ég lenti asnalega á vinstri handleggnum og verkurinn ákvað að rjúka beint upp í öxl og hnakka – sem eru auðvitað mínir aðal og uppáhalds verkjastaðir. Einhvern veginn bögglaðist vinstri höndin sjálf líka og það er sárt að nota hana. Hægri höndinni er ekkert illt en hún er hins vegar svolítið blóðug. Ekki hafa frekari meiðsli verið uppgötvuð en ég borða bara íbúfen og ligg á hitapoka mér til skemmtunar. Eftir þetta fallega flug reyndi ég nú að halda kúlinu, stóð upp og tíndi saman dótið mitt. Um leið hugsaði ég hvað það hefði verið heppilegt ef systir hennar Gurríar hefði verið að labba framhjá, henni finnst víst svo gaman að sjá fólk detta ef ég man rétt 😉 En ég held því miður að enginn hafi orðið þeirrar gæfu aðnjótandi að horfa á þetta. Gengur bara betur næst…Â Og já, einkunnin er ekki ennþá komin. Ég er um það bil að fara í vont skap eftir þetta óréttlæti heimsins 😉