Það er orðin hefð að systkinabörnin mín fá að velja hvernig afmælisköku ég baka handa þeim. Yfirleitt er það ekkert mál, þau nefna einhverja teiknimynd sem er í uppáhaldi, ég google-a, teikna mynd og bý til köku. Um næstu helgi er tvöfalt afmælishald þegar Huggy verður 2 ára og um leið verður haldið upp á 5 ára afmæli Katrínar. Þegar ég spyr Hugrúnu hvernig köku hún vilji segir hún bara „ha?“ en þó hún sé nú orðin altalandi er hún einmitt á þessu skemmtilega ha-tímabili. Ég ákvað þess vegna bara að hún fengi einhvern vel valinn teletubbies gaur og veit að hún verður sátt með það.
Katrínar-kaka er hins vegar aðeins flóknara mál. Katrín er einstaklega ó-hrifin af öllu sem telst „stelpulegt“, bleikt er ekki málið, prinsessutal ekki sniðugt og hún vill ekki eitthvað óþarfa punt. Það skemmtilegasta sem hún veit er að leika sér með bíla, sjóræningja, risaeðlur og vatnsbyssur. Strax eftir 4 ára afmælið hennar í fyrra sagði hún við mig að hún væri búin að ákveða hvernig köku hún vildi á næsta afmæli. Jebb… ég spurði auðvitað hvernig og svarið var: „Bein af dauðri risaeðlu“… hmm.. ok…..
Ég spurði hana reglulega hvernig köku hún vildi aftur fá og alltaf sama svarið…Â Nú voru liðnir nokkrir mánuðir síðan þetta hafði verið nefnt og fyrst það var að koma að afmælinu ákvað ég að spyrja hvernig köku mætti nú bjóða henni….
„Manstu ekki? Bein af dauðri risaeðlu!“
Ég er að reyna að leita að einhverjum myndum á netinu en veit ekki hvernig ég á að útfæra þessa….. mjög svo eðlilegu hugmynd 5 ára stelpu af afmæliskökunni sinni. Allar hugmyndir vel þegnar 😉