Mánaðarskipt færslusafn fyrir: ágúst 2008

María Sigrún, kókdrykkja og sofandi barn

Á kvöld er María vinkona mín að halda upp á stórmerkilegt stórafmæli. Ég er með í anda en vona að andinn verði ekki það sterkur að ég fari að sjást þar því ég er ekki beint í sparifötunum ákkúrat núna 😉 María er auðvitað ein af skemmtilegustu manneskjum sem ég þekki, ég kynntist henni þegar við byrjuðum í þjóðfræði haustið 2002, eðalfólk sem var þar samankomið 😉 Katrín Rut lýsti mér einu sinni sem „stelpukonu“ þegar hún var að reyna að átta sig á hvað ég væri eiginlega og mér finnst sú lýsing passa mjög vel við Maríu. Ég sendi henni blogg-hamingjuóskir þó ég hafi óskað henni til hamingju á réttum degi, það er samt spurning hvenær hún rekst á þessa færslu 😉

Ég var þrí-plönuð í kvöld. Umrætt stórafmæli, styrktartónleikar og nuddtími. En skortur á pössun þýðir kósýkvöld heima með krónprinsinum og ég kvarta svosem ekki yfir því 🙂 Maður er svolítið latur þegar barnið vaknar syngjandi klukkan 5 að morgni (það er reyndar mjög óvenjulegt en gerðist í morgun) og Daði er í vinnunni frá 7 á morgnana og til miðnættis! Ég uppgötvaði í kvöldmatnum að ég var búin með 3/4 af tveggja lítra kókflösku yfir daginn 😀 Ein…. Flott! Ekkert smá jákvæð orka þar á ferð! Það er hægt að fara að tala um mig eins og bíl, hvað ég eyði mörgum lítrum og svona… Virðist allavega innbyrða jafnmikið og bíll. Sem betur fer er ég samt ekki farin að drekka bensín, þreytan er ekki komin á svo slæmt stig. Framar á listanum er væntanlega að setja kók á bílinn, það væri ódýrara en bensín eins og staðan er í dag! Að því gefnu að ég versli á réttum stöðum.

En… eftir langan dag er eitthvað svo gott við að hanga í tölvunni og slappa af, drekka VATN (til að þynna kókið í líkamanum aðeins), vera búin að ganga frá í hverju einasta herbergi og vita að barnið er sofandi inni í herbergi. Ahhh 🙂

sleep.jpg

Tók smá áhættu áður en afslöppunin mín hófst og lýsti allt svefnherbergið upp með flassinu á myndavélinni… En það slapp! Guðmundur Hrafnkell í draumalandi fyrr í kvöld…

Gleði gleði gleði

Ef það væru til íþróttaáhugamælar þá myndi minn áhugi varla vera mælanlegur. Ekki að ég sé eitthvað á móti íþróttum, áhuginn er bara eitthvað takmarkaður. Ég lít upp til þeirra sem standa sig vel í íþróttum, þær persónur hafa sjálfsaga og metnað sem ég bý ekki yfir. Ég samgleðst íslenska handboltaliðinu og finnst flott að hrósa meðlimum þess með því að taka vel á móti þeim.

Ég var að hugsa í dag. Það gerist svona öðru hverju. Sumir dagar eru bara pirrandi, fullir af klaufaskap og litlum óhöppum. Barnið sofnar ekki þegar maður er búinn að pakka því í vagn, bíllinn ákveður að fara ekki í gang og allir hlutir virðast sækja í að detta í gólfið. Og ég verð pirruð. Og það var einmitt undir svona kringumstæðum sem ég hugsaði að þetta eru svo fáránlegir hlutir til að pirra sig yfir… hvað með alla sem hafa það svo virkilega slæmt. Og ég labba um í landi þar sem er friður, ég á góða heilsu, fjölskyldu, vini og síðast en ekki síst yndislegt afkvæmi… og ég pirra mig á hlutum sem skipta engu máli. Og áfram hugsaði ég. Það að ég pirra mig á þessum hlutum er merki um hvað ég hef það gott. Sama hversu „fullkomið“ líf manns er þá tekst manni alltaf að finna eitthvað að. Því verra sem ástandið er sættir maður sig við minna, því minni verða kröfurnar og því stærri atriði þarf til að maður kvarti. Ég er þakklát fyrir allt sem ég hef… þakklát fyrir að vera í þeirri aðstöðu að láta smáatriði fara í taugarnar á mér? Kannski, en ég geri mér betur og betur grein fyrir því að umrædd smáatriði eru í rauninni lúxus. Og þó ég ætli að halda áfram að vera mannleg (ákvað það eftir langa umhugsun ;)) og verða pirruð yfir engu eins og annað fólk, þá geri ég mér allavega grein fyrir því hversu heppin ég er.

Svo er það öðruvísi pirringur. Ég er búin að viðurkenna að „erfiðir“ dagar geta böggað mig en að öðru leyti nenni ég voðalega sjaldan að nöldra. Mér hefur alltaf fundist þægilegast að hugsa bara hvað mér finnst og leyfa svo öðrum að sjá um nöldrið. Ég veit ég veit… ef allir væru eins og ég myndi ekkert gerast í heiminum, engar framfarir, engar rökræður, nokkrir milljarðar af hugsandi Dagbjörtum sem nenna ekki að rífast. Það þýðir ekki að ég hafi ekki skoðanir en ef þær eru neikvæðar finnst mér betra að halda þeim fyrir mig. Og þá að seinni íhugun dagsins. Hvernig nennir fólk ALLTAF að nöldra yfir hlutum? Hvað fær fólk til að vilja eyða tíma sínum í að sjá neikvæðar hliðar á öllu sem gerist og röfla yfir því? Þetta er ákveðinn skali. Ég skil best að fólk eyði tíma í að vekja athygli á slæmum hlutum sem snerta öryggi, heilsu eða almenn lífsgæði annarra manneskja. Ég skil aðeins minna hvernig fólk nennir að tala um gengi og stjórnmálamenn, ég skil þörfina á því en finn enga löngun til þess sjálf. En ég skil hins vegar alls ekki hvernig fólk nennir að tjá sig sérstaklega neikvætt um það þegar annað fólk gerir eitthvað jákvætt. Hvernig nennir fjöldi fólks að skrifa sérstakar bloggfærslur um hversu asnalegt, leiðinlegt og ömurlegt það er að gera svona mikið úr því að taka á móti handboltagaurunum? Hvernig nennir fólk að tjá sig um að það sé við það að fara að gubba af ógeði á þessum ýktu viðbrögðum? Væri ekki ágætis tilbreyting að hugsa bara að þetta sé að minnsta kosti eitthvað sem er gott og gaman fyrir marga… þetta er ekki stríð, ekki sjúkdómur, ekki fátækt, ekki mannvonska – ekki vandamál! Svarið við spurningunni um hvernig fólk nennir að skrifa sérstakar bloggfærslur til að röfla yfir einhverju eins og þessu er væntanlega: Alveg eins og ég nennti að skrifa þessa bloggfærslu. En… ég skil þetta samt ekki! Er röfl virkilega grunnÞÖRF hjá einhverjum? Alveg sama hvað það er, svo lengi sem er hægt að vera neikvæður út í eitthvað? Skoðanir eru nauðsynlegar en hver og einn verður víst að vega og meta hvenær hann vill kasta þeim á netið og hvenær ekki.

Og hana nú.

Dagger… sem finnst skemmtilegra að lesa jákvæðar bloggfærslur en netútgáfu af Velvakanda

Má bjóða þér meiri pipar…

Ég elska að fara út að borða. Það er næstum því hægt að segja að það sé mitt helsta áhugamál eins óskynsamlegt og það hljómar 😉 Það er bara eitthvað við það að velja sér girnilega og spennandi rétti, láta færa sér þá og þurfa ekki að gera neitt sjálfur nema að borða (ég get alveg séð um það sko…). Ég hef hingað til komist yfir að prófa ansi marga staði og sumir eru alltaf sígildir eins og Argentína. Það er einstaklega heppilegur staður fyrir mígrenifólk því það er alltaf svo dimmt þar inni 😉 Og góður matur. Og fyndinn piparstaukur.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á Argentínu fórum við Erling þangað af því hann átti afmæli. Ég gaf honum máltíðina í afmælisgjöf enda var ég helmúruð ræstingarstúlka á Sjúkrahúsi Akranes og munaði ekki um þetta. Allavega, hann hafði fengið sér steik og þegar við vorum rétt að byrja að borða kemur þjónn röltandi með stærsta piparstauk sem ég hafði séð… hafði reyndar bara séð svona venjulega piparstauka sem eru til á flestum heimilum. Stundum finnst mér eitthvað óviðráðanlega fyndið og þá getur ekkert komið í veg fyrir að ég hlæji… og hlæji… og byrji svo aftur að hlæja að sama hlutnum aðeins seinna.. og svo aftur löngu seinna, alveg upp úr þurru. Þetta var eitthvað svo ofvaxinn hlutur að mér fannst asnalegt að hlæja ekki. Síðan þá hef ég farið nokkrum sinnum að borða þarna og í hvert skipti þarf ég að undirbúa mig sérstaklega áður en þjónninn rogast með piparstaukinn að borðinu og spyr hvort ég vilji meiri pipar. Fyrst dreif ég mig að segja nei takk svo ég gæti hlegið í friði þegar þjónninn væri farinn en nú er sjálfsaginn orðinn svo mikill (stundum) að ég get þegið pipar.

Nema hvað… Þegar ég sat við eldhúsborðið (mjög) árla morguns í vikunni og las Fréttablaðið rakst ég á vægast sagt merkilega frétt… Argentína er búin að flytja inn stærsta piparstauk á landinu. Og það þurfa TVEIR þjónar að hjálpast að til að hægt sé að ná úr honum pipar. Ef þetta er ekki ástæða til að fara út að borða, þá veit ég ekki hvað! Nú er tilvalið að ég testi sjálfsagann og reyni að horfa grafalvarleg á tvær fullorðnar manneskjur pipra steikina mína. Og ef ég meika það ekki þá er hvort sem er viðeigandi að hlæja, þetta er komið yfir öll mörk.

Á enga mynd af piparstauknum (verð að taka vélina með næst ;)) en símaatriðið í Trigger Happy var líka fyndið… samt auðvitað ekki jafn fyndið 😀