Má bjóða þér meiri pipar…

Ég elska að fara út að borða. Það er næstum því hægt að segja að það sé mitt helsta áhugamál eins óskynsamlegt og það hljómar 😉 Það er bara eitthvað við það að velja sér girnilega og spennandi rétti, láta færa sér þá og þurfa ekki að gera neitt sjálfur nema að borða (ég get alveg séð um það sko…). Ég hef hingað til komist yfir að prófa ansi marga staði og sumir eru alltaf sígildir eins og Argentína. Það er einstaklega heppilegur staður fyrir mígrenifólk því það er alltaf svo dimmt þar inni 😉 Og góður matur. Og fyndinn piparstaukur.

Þegar ég fór í fyrsta sinn á Argentínu fórum við Erling þangað af því hann átti afmæli. Ég gaf honum máltíðina í afmælisgjöf enda var ég helmúruð ræstingarstúlka á Sjúkrahúsi Akranes og munaði ekki um þetta. Allavega, hann hafði fengið sér steik og þegar við vorum rétt að byrja að borða kemur þjónn röltandi með stærsta piparstauk sem ég hafði séð… hafði reyndar bara séð svona venjulega piparstauka sem eru til á flestum heimilum. Stundum finnst mér eitthvað óviðráðanlega fyndið og þá getur ekkert komið í veg fyrir að ég hlæji… og hlæji… og byrji svo aftur að hlæja að sama hlutnum aðeins seinna.. og svo aftur löngu seinna, alveg upp úr þurru. Þetta var eitthvað svo ofvaxinn hlutur að mér fannst asnalegt að hlæja ekki. Síðan þá hef ég farið nokkrum sinnum að borða þarna og í hvert skipti þarf ég að undirbúa mig sérstaklega áður en þjónninn rogast með piparstaukinn að borðinu og spyr hvort ég vilji meiri pipar. Fyrst dreif ég mig að segja nei takk svo ég gæti hlegið í friði þegar þjónninn væri farinn en nú er sjálfsaginn orðinn svo mikill (stundum) að ég get þegið pipar.

Nema hvað… Þegar ég sat við eldhúsborðið (mjög) árla morguns í vikunni og las Fréttablaðið rakst ég á vægast sagt merkilega frétt… Argentína er búin að flytja inn stærsta piparstauk á landinu. Og það þurfa TVEIR þjónar að hjálpast að til að hægt sé að ná úr honum pipar. Ef þetta er ekki ástæða til að fara út að borða, þá veit ég ekki hvað! Nú er tilvalið að ég testi sjálfsagann og reyni að horfa grafalvarleg á tvær fullorðnar manneskjur pipra steikina mína. Og ef ég meika það ekki þá er hvort sem er viðeigandi að hlæja, þetta er komið yfir öll mörk.

Á enga mynd af piparstauknum (verð að taka vélina með næst ;)) en símaatriðið í Trigger Happy var líka fyndið… samt auðvitað ekki jafn fyndið 😀