Gleði gleði gleði

Ef það væru til íþróttaáhugamælar þá myndi minn áhugi varla vera mælanlegur. Ekki að ég sé eitthvað á móti íþróttum, áhuginn er bara eitthvað takmarkaður. Ég lít upp til þeirra sem standa sig vel í íþróttum, þær persónur hafa sjálfsaga og metnað sem ég bý ekki yfir. Ég samgleðst íslenska handboltaliðinu og finnst flott að hrósa meðlimum þess með því að taka vel á móti þeim.

Ég var að hugsa í dag. Það gerist svona öðru hverju. Sumir dagar eru bara pirrandi, fullir af klaufaskap og litlum óhöppum. Barnið sofnar ekki þegar maður er búinn að pakka því í vagn, bíllinn ákveður að fara ekki í gang og allir hlutir virðast sækja í að detta í gólfið. Og ég verð pirruð. Og það var einmitt undir svona kringumstæðum sem ég hugsaði að þetta eru svo fáránlegir hlutir til að pirra sig yfir… hvað með alla sem hafa það svo virkilega slæmt. Og ég labba um í landi þar sem er friður, ég á góða heilsu, fjölskyldu, vini og síðast en ekki síst yndislegt afkvæmi… og ég pirra mig á hlutum sem skipta engu máli. Og áfram hugsaði ég. Það að ég pirra mig á þessum hlutum er merki um hvað ég hef það gott. Sama hversu „fullkomið“ líf manns er þá tekst manni alltaf að finna eitthvað að. Því verra sem ástandið er sættir maður sig við minna, því minni verða kröfurnar og því stærri atriði þarf til að maður kvarti. Ég er þakklát fyrir allt sem ég hef… þakklát fyrir að vera í þeirri aðstöðu að láta smáatriði fara í taugarnar á mér? Kannski, en ég geri mér betur og betur grein fyrir því að umrædd smáatriði eru í rauninni lúxus. Og þó ég ætli að halda áfram að vera mannleg (ákvað það eftir langa umhugsun ;)) og verða pirruð yfir engu eins og annað fólk, þá geri ég mér allavega grein fyrir því hversu heppin ég er.

Svo er það öðruvísi pirringur. Ég er búin að viðurkenna að „erfiðir“ dagar geta böggað mig en að öðru leyti nenni ég voðalega sjaldan að nöldra. Mér hefur alltaf fundist þægilegast að hugsa bara hvað mér finnst og leyfa svo öðrum að sjá um nöldrið. Ég veit ég veit… ef allir væru eins og ég myndi ekkert gerast í heiminum, engar framfarir, engar rökræður, nokkrir milljarðar af hugsandi Dagbjörtum sem nenna ekki að rífast. Það þýðir ekki að ég hafi ekki skoðanir en ef þær eru neikvæðar finnst mér betra að halda þeim fyrir mig. Og þá að seinni íhugun dagsins. Hvernig nennir fólk ALLTAF að nöldra yfir hlutum? Hvað fær fólk til að vilja eyða tíma sínum í að sjá neikvæðar hliðar á öllu sem gerist og röfla yfir því? Þetta er ákveðinn skali. Ég skil best að fólk eyði tíma í að vekja athygli á slæmum hlutum sem snerta öryggi, heilsu eða almenn lífsgæði annarra manneskja. Ég skil aðeins minna hvernig fólk nennir að tala um gengi og stjórnmálamenn, ég skil þörfina á því en finn enga löngun til þess sjálf. En ég skil hins vegar alls ekki hvernig fólk nennir að tjá sig sérstaklega neikvætt um það þegar annað fólk gerir eitthvað jákvætt. Hvernig nennir fjöldi fólks að skrifa sérstakar bloggfærslur um hversu asnalegt, leiðinlegt og ömurlegt það er að gera svona mikið úr því að taka á móti handboltagaurunum? Hvernig nennir fólk að tjá sig um að það sé við það að fara að gubba af ógeði á þessum ýktu viðbrögðum? Væri ekki ágætis tilbreyting að hugsa bara að þetta sé að minnsta kosti eitthvað sem er gott og gaman fyrir marga… þetta er ekki stríð, ekki sjúkdómur, ekki fátækt, ekki mannvonska – ekki vandamál! Svarið við spurningunni um hvernig fólk nennir að skrifa sérstakar bloggfærslur til að röfla yfir einhverju eins og þessu er væntanlega: Alveg eins og ég nennti að skrifa þessa bloggfærslu. En… ég skil þetta samt ekki! Er röfl virkilega grunnÞÖRF hjá einhverjum? Alveg sama hvað það er, svo lengi sem er hægt að vera neikvæður út í eitthvað? Skoðanir eru nauðsynlegar en hver og einn verður víst að vega og meta hvenær hann vill kasta þeim á netið og hvenær ekki.

Og hana nú.

Dagger… sem finnst skemmtilegra að lesa jákvæðar bloggfærslur en netútgáfu af Velvakanda