Jólin eru undirlögð af hefðum og ég er vanafastasta manneskja sem er til. En það er ótrúlegt hvað einn einstaklingur getur breytt manni gjörsamlega án þess að hafa neitt vit á því hvað hann er að gera 😉 Seint á Þorláksmessukvöld var allt tilbúið fyrir jólin. Ég kláraði meira að segja að brjóta saman allan þvottinn sem er nú afrek út af fyrir sig. Allt þrifið og hæfilega skreytt og dagskrá aðfangadags í föstum skorðum. Ég ákvað að slappa aðeins af og kíkja í tölvuna þó klukkan væri að verða tvö en heyrði stuttu seinna í Guðmundi sem vantaði væntanlega bara snuðið sitt. Ekki alveg…. litla jólabarnið sat útatað í gubbi í rúminu sínu. Og í þetta hafa jólin farið. Guðmundur var veikur alla nóttina, var slappur eins og tuska á sjálfan aðfangadag og byrjaði aftur að gubba yfir jólaborðhaldið á aðfangadagskvöld. Og aftur á jólanótt og enn oftar á jóladag. Á jóladagskvöld ákvað ég að taka við (þó fyrr hefði verið) og eyddi allri nóttinni í þessa yndislegu pest. Og í morgun tók Daði þetta að sér en við Guðmundur erum orðin hin hressustu. Ég var reyndar fegin þegar ég veiktist því þá vissi ég að þetta var bara venjuleg pest en ekki eitthvað verra sem var að barninu.
Og þá að vanafestunni… auðvitað varð ekkert eins og það á að vera á jólunum því allt snerist um áhyggjur af sjúklingnum, þvott, ógeð á mat sem maður vill venjulega borða og svo framvegis. En samt voru þetta bestu jól sem ég hef upplifað. Það átti hvort sem er ekkert að verða eins og það hefur verið. Ef það er eitthvað sem ég hef lært á árinu 2008 þá er það einmitt það að ekkert verður nokkurn tíma eins þegar maður er búinn að eignast barn. Hlutir sem manni fannst skipta máli gera það ekki lengur og hlutir sem skiptu mann engu máli gera það allt í einu. Og þessar breytingar á hugarfari manns verða án þess að maður taki eftir því, algjörlega sjálfkrafa. Á morgun verðum við vonandi öll hress og þá getum við notið þess að skoða allar fallegu jólagjafirnar okkar og borða eitthvað gott. Það skiptir engu máli þó það sé kannski fjórum dögum of seint. Umsögn um árið 2008? Ekki um jarðskjálfta, ísbirni eða bankahrun… hlutverk mitt breyttist á þann hátt að ég sé allt í nýju ljósi og mér finnst það magnað. Guðmundur Hrafnkell er árið 2008!