Ég held að október líði alltaf hraðar en aðrir mánuðir, einhvern tíma mun ég sanna þetta vísindalega! Október er bestur að svo mörgu leyti, kvöldin verða alveg dimm, loftið er svo kalt og hreint, haustlitir og kósýheit ríkjandi og svo hljómar orðið október bara svo vel. Ég er farin að hlakka til jólanna. Það er nauðsynlegt að hafa alltaf eitthvað til að hlakka til og því fleira sem vekur tilhlökkun, því hamingjusamari er ég. Ég er of mikill skipuleggjari í mér til að geta alltaf bara lifað í nú-inu eins og á að vera svo hollt og gott. Að hlakka til hefur alltaf verið mín sérgrein og ég var ekki stór þegar ég áttaði mig á því að tveir bestu dagarnir á árinu væru Þorláksmessa og dagurinn fyrir afmælið mitt, tilhlökkunin getur nefnilega haft enn meiri sjarma en sjálfur atburðurinn sem hlakkað er til!
Meðal þeirra viðburða sem ég hef orðið hvað trylltust yfir af tilhlökkun eru ferðirnar sem voru farnar í tívolíið í Hveragerði þegar ég var lítil. Ég hef mjög líklega verið nálægt því að gera útaf við mína nánustu fjölskyldu vegna yfirspennings en ég man svosem ekki eftir þeirri hlið þar sem ég hafði um annað að hugsa 😉 Tívolíið var í mínum huga einfaldlega það allra frábærasta sem til var í heiminum. Leiðin þangað virtist endalaus, fyrst allur Hvalfjörðurinn og þá var samt eftir hálftími í viðbót! Ég man eftir birtunni þar inni, lyktinni, hljóðunum og öllum þessum spennandi tækjum. Og klístrað candyfloss og tombóla með helling af núllum. Á fyrstu tívolíferðinni minni vann ég víst stóra ísbjörninn minn en ég man ekkert eftir þeirri ferð… svindl þar sem það er það eina sem ég hef unnið 😉 Ég var svo heppin að þetta tívolí var starfrækt einmitt þegar ég var á þeim aldri að elska það. Því var lokað áður en ég fékk tækifæri til að finnast það orðið of barnalegt, leiðinlegt eða úrelt. Það fær þess vegna alltaf að vera hið eina sanna tívolí í mínum huga og ég fæ kitl í magann bara af því að hugsa um það!
Á myndinni sést tívolí-ísbjörninn í öllu sínu veldi… sem og ótrúlegur liðleiki minn á árum áður og síðast en ekki síst fallega rúmteppið sem mamma og pabbi áttu. Good times 🙂