Aðventa

Sú tillaga var samþykkt einróma af sjálfri mér að framlengja aðventuna þetta árið og hófst hún í lok ágúst. Það er auðvitað alvitað að haustið er hin eina sanna árstíð og gleðin magnast svo smátt og smátt þangað til hún nær hámarki í desember. Frá ágústmánuði hef ég masterað word-skjal með jólagjafaskipulagi og nostrað við hverja einustu gjöf. Þannig er bæði fullnægt skipulagsþráhyggju minni og einbeittum vilja mínum til að gefa hverjum og einum gjöf sem ég er virkilega ánægð með.

Á umræddan jólagjafalista vantar nú einungis örfáar gjafir sem auðvelt er að finna en eitthvað verður nú að vera eftir svo gjafagleðin fái líka að njóta sín í desember. Auk þess fór ég hamförum í dagatölum þetta árið og mun ég bera ábyrgð á því að svona um það bil 24 hendur opni dagatalsglugga eða pakka á hverjum morgni þessa dagana. Sjálf á ég ekkert dagatal en bíð spennt eftir skilaboðum á hverjum morgni um niðurstöður úr annarra manna dagatölum.

Kitchbjört hefur aðeins fengið að vinna en ekkert of mikið samt, ég stunda ekki hrærivélaþrælkun yfir hátíðarnar. Skemmtilegast af öllu er auðvitað að upplifa aðventuna með einkasyninum sem var búinn að læra jólasveinana í réttri röð strax í ágúst og sannaði þar með móðerni sitt. Nú er hann mataður á hefðum hvern einasta dag svo ekkert fari nú framhjá honum í þeim efnum, jólalögin komin á hreint og byrjað að fræða hann um helstu rútínur enda hefur hann blessunarlega erft vanafestuna frá mér eins og flest annað (tja.. nema útlitið auðvitað – uuu jú samt augun og spékoppinn sko ;)).

Aðventan er draumur fyrir vanafastar og hefðasjúkar manneskjur og enn betri fyrir þá sem eru svo heppnir að eiga fróðleiksfús jólabörn.