Það er auðvitað sígilt að gera bóka-óskalista fyrir jólin. Svona eftir að hafa grúskað í bókunum hér og þar… í gamla daga bara í bókabúðum, en núna ekki síður þegar maður skreppur út í Bónus að kaupa mjólk. Allsstaðar bækur.
Ég fer samt óvenjulega oft í bókabúðir í desember, svona til að kynnast bókunum aðeins betur í réttu umhverfi. Í bókabúðarferðunum fyrir þessi jól var ég undarlega oft farin að fletta lítilli ljóðabók. Mér finnst ekkert sérstaklega gaman að lesa ljóðabækur, er meira fyrir svona eitt og eitt ljóð sem ég rekst á af tilviljun. Kannski er þetta undantekning og kannski er þetta upphaf á ljóðagleði en Árleysi alda eftir Bjarka Karlsson hafði þetta mikla aðdráttarafl og fór þess vegna á óskalistann minn. Og hún var í fyrsta pakkanum – sjálfum aðfangadags-morguns-pakkanum.
Hún mun líka vera fyrsta bókin sem ég les árið 2014 þó ég hafi vissulega verið búin að lesa hluta af henni fyrir áramót. Ljóðin eru ekki bara vel gerð heldur oft ansi fyndin. Mér finnst sú hugmynd að nota stíl þekktra skálda til að koma sama atburðinum á framfæri aftur og aftur góð. Það er allavega orðið nokkuð ljóst eftir þennan lestur að allir eru sammála um að afi fór og náði í sykur og brauð svo enginn ætti að svelta. Árleysi alda er góð lestrar-byrjun á árinu og hér með lýkur líka færsluleysi á blogginu.