… og get ekki annað!
Við fórum tvisvar til Reykjavíkur um helgina – fyrst í skemmtilega ferð og svo í ekki svo skemmtilega ferð. Á laugardaginn brunuðum við fjölskyldan suður og kipptum Lísmundi með… Guðmundur Hrafnkell fór svo í vagninn og labbaði um Smáralind með pabba sínum á meðan ég komst í langþráða vinkonuverslunarferð 😉 Við kíktum svo til Óla og Eyglóar í heimsókn þar sem GH ætlaði að rifna úr gleði og fórum svo heim eftir fínan dag…
Á sunnudaginn rölti ég út með vagninn um hádegi. Mér er búið að líða frekar illa í bakinu undanfarnar vikur en hef svosem ekkert kippt mér upp við það. Á þessum göngutúr versnaði bakið á ótrúlegum hraða og þegar ég rakst á mömmu og pabba (sem voru úti í sjoppu að fóðra barnabörnin á nammi ;)) tók pabbi að sér að keyra vagninn heim og ég fékk bílfar á Vogabrautina. Þar lagðist ég aðeins upp í sófa… og gat ekki staðið upp aftur! Tja… eða ég gat það með því að rúlla mér fram úr og labba svo eins og krypplingur um. Lækkaði skyndilega um svona 20 cm 😉 Það virtist vera sama hvort ég reyndi að sitja, liggja, standa eða labba, allt var eiginlega óbærilegt vegna sársauka. Þegar þetta versnaði bara og versnaði ákváðum við að fara í aðra Reykjavíkurferð – með mig á bráðamóttöku. Þetta var fjögurra manna ferð þar sem brjóstabarnið varð auðvitað að fara með, Daði til að sjá um barnið og mamma til að sjá um mig 😉 Við tók skemmtileg bið hjá okkur mömmu á meðan feðgarnir rúntuðu um bílastæði sjúkrahússins. Mér var svo troðið framfyrir til að barnið gæti mögulega sloppið við að koma inn að drekka í mesta samansafni af sýklum í allri Rvk og tókst það – hann ákvað (eins og venjulega) að vera svo tillitssamur að sofa bókstaflega alla ferðina – í fjóra klukkutíma.
Greining læknisins var að þetta væru bólgur í vöðvafestingum milli mjaðmagrindar og hryggjarsúlu, nammi namm. Bólgueyðandi lyf, æfingar og tíminn áttu að lækna þetta en úps… engin bólgueyðandi lyf í lagi fyrir mig. Sem betur fer hafði Ingibjörg frænka nefnt þann kost að kannski væri hægt að sprauta beint í staðinn fyrir lyf svo ég gæti fengið verkjastillandi þó ég væri með barn á brjósti. Það var því ákveðið að sprauta mig með sterum hér og þar í bakið og sjá hvort það virkaði – sem tekur sólarhring. Dagurinn í dag átti semsagt að geta verið slæmur milli deyfingar og stera – og já takk hann er slæmur. Nú er bara að vona að elsku sterarnir virki svo í kvöld. Ég er með einkahjúkkuna Daða hérna heima þar sem ég get varla lyft barninu upp… buhuhu… 🙁
Fylgist spennt með næsta þætti af bakverjum miss brown!