Ég átti skemmtilegt samtal á fimmtudagskvöldið samt vakti mig til umhugsunar um stefnur stjórnmálaflokka. Ég fór að skoða málið núna áðan og fór inná heimasíður stjórnmálaflokkanna fimm í leit að stefnum flokkanna. Á öllum síðunum var að finna einhverja stefnu. Í fjórum tilfellum var um að ræða fremur stuttar og hnitmiðaðar stefnur þar sem kom skýrt fram hver væru áhersluatriði flokkanna. En stefna Sjálfstæðisflokksins er ritlingur sem Davíð Oddsson skrifaði árið 1981! Hún er ekkert sérstaklega hnitmiðuð og stór hluti hennar fer í tala um sögu Sjálfsstæðisflokksins og hvað hann sé nú miklu betri en svokallaðir félagshyggjuflokkar.
Ég veit vel að stefnur flokkanna grundvallast líka á ýmsum yfirlýsingum og ályktunum og síðast en ekki síst verkum flokkanna. Mér finnst samt lágmark að stjórnmálaflokkar marki sér stutta og hnitmiðaða stefnu sem segir hvað flokkurinn stendur fyrir.
Reyndar er ekkert alltaf að marka stefnur flokkanna. Ef ég læsi bara stefnu Framsóknarflokksins og vissi ekkert meira um flokkinn þá gæti ég vel hugsað mér að kjósa hann.