Jafnrétti

Jafnrétti er mér hugleikið.

Ég vil að konur og karlar standi jafnfætis í þjóðfélaginu. Að kyn skipti ekki máli þegar við veljum okkur nám, vinnu, áhugamál o.s.frv. Að kyn skipti ekki máli þegar við fáum launin okkar, þegar við sinnum húsverkum, þegar við önnumst börnin okkar o.s.frv.

Ég hristi stundum hausinn yfir „þessum femínistum“ en ég held að þeir (ég veit þó ekki alveg hversu hlynnt ég er femínískri málfræði) séu samt nauðsynlegir í samfélaginu. Femínistar vekja okkur til umhugsunar.
Mér finnst samt konur hafa gengið nógu langt í því að líkjast körlum. Ef þú vilt breyta heiminum, byrjaðu á sjálfum þér. Ég held að við konur séum búnar að breyta okkur nóg í bili. Nú finnst mér vera kominn tími á karlanna að breyta heiminum. Þeir hafa auðvitað nálgast okkur t.d. með því að annast börn og húsverk í ríkara mæli. En ég vil sjá breytingar á fleiri sviðum. Ég vil t.d. sjá átak í því að hvetja karlmenn til að læra kvennafög s.s. hjúkrunarfræði, leik- og grunnskólakennslu og bókasafns- og upplýsingafræði. Við þurfum að hafa karla og konur allsstaðar í öllum störfum og helst í sem jöfnustum hlutföllum. Börnin okkar verða að geta séð að þú getur orðið hvað sem er, óháð kyni. Við þurfum fyrirmyndir af báðum kynjum.

Ég vil alltaf að hæfasti einstaklingurinn fái starfið. Þessa setningu heyrir maður oft í umræðu um jafnréttismál. Ég tek heilshugar undir en ég vil samt meina að kona sé miklu oftar hæfasti einstaklingurinn heldur en menn vilja vera að láta. Mér finnst alltaf jafnkjánalegt þegar Sjálfsstæðiskonur koma fram eftir prófkjör og kosningar og lýsa yfir vonbrigðum með skarðan hlut kvenna, bæta svo að hæfustu einstaklingarnir eigi að komast að. Sjálfsstæðiskonur eru bara greinilega ekki nógu hæfar.

Ég skoðaði heimasíður allra stjórnmálaflokkanna í dag. Fór þá að spá hvort allir flokkar nema VG væru með kvenfélög. Komst að því að aðeins Framsóknarflokkurinn og Sjálfsstæðisflokkurinn eru með slík félög. Svolítið merkilegt í ljósi þess að konur standa fremur illa í þessum stjórnmálaflokkum, sérstaklega Sjálfsstæðisflokknum. Sennilega eru þessi félög ennþá starfandi vegna hefðar enda Framsóknarflokurinn stofnaður 1916 og Sjálfsstæðisflokurinn 1929. Mér finnst gott að vera í flokki þar sem ekki er þörf fyrir svona félög. Konur eru ekki minnihlutahópur í VG sem þarf sérpartý, strákarnir koma í partý með okkur.