Fór í vísindaferð með Þjóðbrók í Landsvirkjun í dag. Þar var kyrjaður fallegur svanasöngur um ágæti Landsvirkjunar. Jújú, vissulega stöndum við okkur vel miðað við mörg önnur ríki heimsins. Vissulega er betra að nota vatnsafl heldur en olíu og kol til að búa til rafmagn. Mér finnst samt algjör óþarfi að virkja jökulárnar okkar með tilheyrandi lónum sem fyllast af aur á „nokkrum árum“ (hef heyrt tölur á bilinu 80-400 ár). Mér finnst líka að við hefðum getað gert margt „skemmtilegra“ fyrir 100 milljarða en að byggja Kárahnjúkavirkjun.
En að öðru. Getur einhver lunkinn femínisti útskýrt fyrir mér hvað kynjuð fjárlagagerð og kyngreindar upplýsingar þýðir? Ég þarf sennilega að læra meira í kynjafræði. Femínistar skilgreina sig sem karl eða konu sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið náð og vill gera eitthvað í því. Ég velti því fyrir mér hvort að jafnréttissinni sé karl eða kona sem veit að jafnrétti kynjanna hefur ekki verið ná og vill ekki gera neitt í því. Ég vil meina að ég sé jafnréttissinni og vilji gera eitthvað til að ná jafnrétti. En ég vil jafnrétti fyrir bæði kynin. Ég vil að þegar rætt er um kynfrelsi eigi það bæði við um kynfrelsi kvenna og karla. Ég vil að bæði karlar og konur sem verða fyrir heimilisofbeldi fái vernd. Ég vil úrræði fyrir bæði konur og karla sem stunda vændi eða eru seld mansali. Nú geri ég mér alveg grein fyrir því að konur eru í miklum meirihluta sem verða fyrir kynferðisofbeldi en karlar verða samt sem áður fyrir því líka. Við megum ekki gleyma því.
Ég vil miklu frekar jöfn réttindi fyrir bæði kynin heldur en kvenréttindi. Ég held að það skili okkur meiru. En kannski er ég bara eitthvað að misskilja…