Lánaúrræðabull

Nýjasta útspil félagsmálaráðherra er ekki beinlínis gáfulegt. Það gerir ráð fyrir því að afborganir lána lækki þannig að þær verði eins og fyrir hrun, miðað við 1. janúar 2008 á verðtryggðum lánum og 2. maí 2008 á gengistryggðum lánum. Gott og blessað, þetta myndi t.d. lækka greiðslubirgði minna húsnæðislána um ca. 14.000 kr. á mánuði. EN það er ekki gert ráð fyrir því að höfuðstóllinn lækki til samræmis, hann helst sá sami!! Höfuðstóll míns láns hefur t.d. hækkað um hátt í 3 milljónir síðan 1. janúar 2008. Það sem eftir stendur þegar búið er að borga af láninu út lánstímann plús þrjú ár verður afskrifað. Í mínu tilfelli þýðir þetta að ég verð orðinn 65 ára þegar restin af láninu mínu verður afskrifað og tók ég þó lánið þegar ég var 22 ára, flestir eru eldri en það þegar þeir taka húsnæðislán.

Þetta svokallaða úrræði er svo mikið bull. Hvað svo þegar við viljum stækka við okkur, flytja í annað hverfi eða annað bæjarfélag? Semsagt hvað gerist þegar við viljum selja? Fæstir kaupa húsnæði með það í huga að búa þar í 40 ár. Ef höfuðstóllinn helst sá sami og við ákveðum að borga minna af honum samkvæmt þessu „úrræði“ þá sitjum við enn frekar í súpunni. Lánið bara hleður enn hraðar utan á sig. Og hvað? Ég sé ekki annað en að við þyrftum að borga verulega með íbúðinni þegar við viljum selja og þó erum við ekki í slæmri stöðu miðað við marga.

Félagsmálaráðherra talaði um að það væri hægt að yfirtaka lánin og færa þau með sér milli íbúða. Hver vill yfirtaka einhver svona monster lán sem eru hærri en fasteignamat eignanna þegar hann getur tekið venjulegt lán hjá Íbúðalánasjóði? Þýðir þetta ekki bara að þeir sem eru með íbúðalán í dag munu sitja uppi með þau allt til dauðadags?

Annaðhvort verður að færa höfuðstólinn niður eða hreinlega sleppa þessu og „leyfa“ fólki að verða gjaldþrota.