Vík burt!

Ég mótmæli veikindum. Sérstaklega þegar maður þarf að skila stórri stórri stórri ritgerð eftir ekki svo marga daga.

Mig grunaði reyndar H1N1 í fyrradag þegar Guðmundur veiktist, ýmislegt passaði. Hann byrjaði að fá smá nefrennsli og var svo allt í einu með háan hita, vældi og stundi af sársauka og gat varla haldið sjálfum sér uppi. Flensan kemur víst svona snögglega með háum hita og vægum kvefeinkennum. Um svipað leyti fór mér sjálfri að líða illa. Ég ákvað að bíða þangað til í gær með að hringja í lækni og sjá hvernig málin þróuðust. Mér hefur verið að versna en mér sýnist og ég vona að Guðmundi sé að batna. Hitinn var lægri í kvöld og hann var hressari í dag. Ég hins vegar hef ekki fengið neinn hita (fæ reyndar eiginlega aldrei hita) sem bendir til þess að þetta sé bara venjuleg pest. Og þar af leiðandi talaði ég ekki við lækni. Mér gæti ekki verið meira sama þó ég fengi þessa inflúensu en ég er skíthrædd við að barnið fái hana. Eins og reyndar með allt, ég er alltaf súper áhyggjufull þegar eitthvað er að angra hann, sama hversu lítið það er.

Það lítur semsagt út fyrir að við séum bara með saklausa litla pest en úff hvað svona vesen getur truflað mann. Ég reyni að sitja við tölvuna og skrifa en það er eins og einhver sé að sarga með rakvélablöðum í hálsinn og eyrun, hjartslátturinn slær takt í hausnum á mér og ég hnerra endalaust. Fyrir utan að auðvitað langar mig að sinna Guðmundi 100% þegar honum líður illa. Kvart og kvein. Ég ætlaði að framleiða fleiri fleiri blaðsíður í ritgerðina þessa helgi en so far eru þær þrjár. Reyni áfram.

Gleðilega menningarnótt, ég kíki kannski á næsta ári 😉

Uppáhalds…

Ég á mér uppáhalds blogg. Ég var eiginlega að fatta það áðan. Ég les næstum aldrei blogg lengur enda nenna fáir að blogga. Ég áttaði mig bara á því að ég enda ítrekað inni á þessari síðu, þó ég ætli mér það ekkert sérstaklega. Og ég þekki manneskjuna nákvæmlega ekki neitt, hef ekki einu sinni séð hana. Og hvað þarf til að ég verði aðdáandi? Á þessu tilfelli eru það nokkur mismunandi atriði sem gera þetta greinilega hina fullkomnu blöndu: skemmtilegar pælingar – alls ekki alltaf eitthvað sem ég er sammála en í þeim tilvikum sem ég hristi hausinn yfir því sem verið er að tala um þá brosi ég samt alltaf pínulítið líka. Hrikalega girnilegar myndir af mat. Flottar ljósmyndir. Alltaf eitthvað sem kemur mér á óvart. Hröð uppfærsla. Og hér með lýkur greiningu á bloggfýsnum mínum.