Uppáhalds…

Ég á mér uppáhalds blogg. Ég var eiginlega að fatta það áðan. Ég les næstum aldrei blogg lengur enda nenna fáir að blogga. Ég áttaði mig bara á því að ég enda ítrekað inni á þessari síðu, þó ég ætli mér það ekkert sérstaklega. Og ég þekki manneskjuna nákvæmlega ekki neitt, hef ekki einu sinni séð hana. Og hvað þarf til að ég verði aðdáandi? Á þessu tilfelli eru það nokkur mismunandi atriði sem gera þetta greinilega hina fullkomnu blöndu: skemmtilegar pælingar – alls ekki alltaf eitthvað sem ég er sammála en í þeim tilvikum sem ég hristi hausinn yfir því sem verið er að tala um þá brosi ég samt alltaf pínulítið líka. Hrikalega girnilegar myndir af mat. Flottar ljósmyndir. Alltaf eitthvað sem kemur mér á óvart. Hröð uppfærsla. Og hér með lýkur greiningu á bloggfýsnum mínum.