Júlí

Ég var viss um að júlí yrði hrikalega erfiður mánuður. Ritgerðarvinna í hámarki og Umbi einmitt í sumarfríi. Eins og venjulega þegar ég held að eitthvað verði ómögulegt snerist allt við og varð frábært. Tíminn hefur sjaldan nýst mér svona vel. Annað hvort er ég að sinna ritgerðinni alveg (þegar Daði er í fríi) eða barninu 100% (þegar Daði er að vinna) og þá er einbeitingin algjörlega á réttum stað á réttum tíma.

Við Guðmundur Hrafnkell erum búin að bralla ýmislegt saman. Náðum að skreppa norður og vestur á uppáhaldsstaðina þó ferðirnar væru stuttar. Fórum í skrúðgöngu á Árskum dögum, í götugrill og á lokahátíð. Skruppum til Hvanneyrar á safnadeginum og erum alltaf dugleg að fara út að labba og leika. Á vaktafríum náum við að fara öll saman út en skilyrðið er reyndar að frjókorn séu í lágmarki og það hefur ekki oft gerst á þessu sumri. Við ritgerðin erum líka búnar að bralla ýmislegt saman og hún stækkar og lengist með hverjum deginum. Ég held í vonina að ná að útskrifast í október 🙂 Og þrátt fyrir ritgerðarpressu er mér búið að takast að fara á ball, út að borða með mínum bestustu, aftur út að borða með bestasta Lísmundi og  í BÁÓ með Daða (það hafði ekki gerst í ár).

Allt þetta ógnvekjandi púsl í pressumánuðinum mikla small semsagt saman. Og nú kvíði ég meira að segja pínulítið fyrir því að fara aftur að senda barnið út af heimilinu á morgnana. Hann er að stækka svo mikið, er að móta sinn eigin smekk og skoðanir, getur sagt fleiri og fleiri orð og er bara svo skemmtilegur karakter að ég tími varla að missa af neinu. En rútínan er besti vinur mannsins og við tökum henni fagnandi þó júlí hafi verið frábær 🙂 Þetta var sagan af júlí….

[hér átti að koma íðilfögur mynd en það er búið að breyta kerfinu og ég næ ekki að hlaða henni inn… ímyndið ykkur bara það sem þið viljið ;)]